Sigurður Jón Kristjánsson fæddist í Reykjavík 29. mars 1939. Hann lést 27. apríl 2019 á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.

Foreldrar hans voru Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti í Þingvallasveit, f. 8. febrúar 1908, d. 20. desember 1986, og Gróa Jónsdóttir, f. í Reykjavík 14. desember 1912, d. 19. maí 1985.

Systkini Sigurðar: Sverrir Bragi, f. 23. febrúar 1934, d. 19. febrúar 2018. Maron Hafsteinn, f. 6. maí 1936. Sigríður, f. 26. ágúst 1941. Jóna, f. 26. júlí 1952.

Sigurður kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Aðalbjörgu Björgvinsdóttur, 20. október 1962. Foreldrar hennar voru Níels Björgvin Sigfinnson, f. 28. mars 1894, d. 11. október 1974, og eiginkona hans Aðalbjörg Metúsalemsdóttir Kjerúlf, f. 16. apríl 1906, d. 2. nóvember 1949. Þau bjuggu á Víðilæk í Skriðdal.

Börn Sigurðar og Guðrúnar eru: 1) Jón Bjarki, f. 24. apríl 1965, eiginkona hans er Laufey Sigurðardóttir, f. 26. apríl 1967, og eiga þau drengina Sigurð Björn, f. 31. ágúst 1991, og Arnór Inga, f. 25. apríl 1993. Sigurður Björn og kærasta hans, Sigurbjörg Ósk Kristjánsdóttir, f. 17. maí 1991, eiga soninn Elmar Trausta, f. 27. september 2016. Kærasta Arnórs Inga er Lina Marija Balèiûnaitë, f. 9. júní 1994. 2) Aðalbjörg Erna, f. 9. ágúst 1967, gift Einari Sigurðssyni, f. 9. janúar 1965, þau eiga börnin Sigurð Jóhann, f. 28. janúar 1993, og Lovísu Guðrúnu, f. 5. apríl 2000.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. maí 2019, klukkan 15.

Að eiga góðar minningar frá æskuárum er dýrmætt. Og að leita í sjóð minninganna og finna þar allskyns perlur sem gott er að ylja sér við.

Fjögur systkinanna eru fædd í Reykjavík þar sem foreldrar okkar bjuggu. Síðasta barnið bættist í hópinn eftir að við fluttum í Þingvallasveitina. Við fluttum austur í Árnessýslu, að Hlemmiskeiði á Skeiðum og þaðan í Þingvallasveitina.

Faðir okkar var alinn upp í Skógarkoti í miðju Þingvallahrauni. Hann vildi alltaf komast aftur á þær slóðir og að vori 1949 fluttum við að Mjóanesi. Húsið stóð næstum því á vatnsbakkanum. Þetta varð ævintýraheimur fyrir okkur krakkana.

Æskuheimilið iðaði að lífi. Það var nóg við að vera allan daginn. Það voru forréttindi að alast upp í sveit. Á sumrin bættist heldur betur við heimilisfólkið sem dvaldi hjá okkur um skemmri eða lengri tíma. Öll sumur voru hjá okkur börn sem send voru í sveit eins og tíðkaðist í þá daga. Alltaf virtist vera nóg pláss í húsinu fyrir alla gestina. Ef húspláss þraut þá vorum við krakkarnir settir út í hlöðu og það þótti spennandi að fá að sofa í heyinu. Á sumarbjörtum kvöldum var allur hópurinn úti að leika í „kílóbolta, yfir, fallin spýta“ eða hvað sem okkur datt í hug. Bræðurnir útbjuggu gryfjur til að geta stundað langstökk og þrístökk. Einnig voru settar upp slár til þess að geta verið í hástökki. Fótboltinn var líka stundaður. Ekkert rafmagn var í húsinu og á haustin og veturna var notast við svokallaða Aladdin-lampa sem gáfu mjög góða birtu. Ekkert rennandi vatn var heldur til staðar. Bera þurfti allt vatn í stórum brúsum þessa stuttu leið frá vatninu, vatnið var líka okkar matarkista.

Á hverjum degi var farið að vitja um netin sem lögð höfðu verið og aldrei varð neinn matarskortur. Þegar hausta tók var farið rétt út fyrir túngarðinn til að ná sér í eftirréttinn sem voru bláber og þau borðuð með þeyttum rjóma. Á daginn sinntum við þeim störfum sem okkur voru falin að vinna sem allt voru hefðbundin sveitastörf.

Árið 1956 fluttum við að Gjábakka í sömu sveit og þar bjuggum við til ársins 1960. Síðustu tuttugu ár og ríflega það nutu Siggi og Lilla sín í sumarbústaðalandinu sínu í Hæðarendalandi í Grímsnesi þar sem þau ásamt börnum sínum og tengdabörnum byggðu sér myndarlegan sumarbústað og ræktuðu upp landið sitt.

Þegar eftirlaunaaldri var náð voru þau í sveitinni sinni eins mikið og mögulegt var og nutu alls þessa fallega umhverfis sem þau voru búin að koma sér upp. Snyrtimennskan var þeim báðum í blóð borin og alúð lögð í hvert handartak sem gert var. Barnabörnin og litli langafadrengurinn nutu þess að vera með þeim og fjölskyldunni.

Á síðari árum stunduðu þau saman golf og skutust á golfvellina sem voru þarna í kring. Einnig var farið til útlanda til að spila golf. Við eigum einungis góðar minningar frá öllum þessum tíma. Fjölskyldurnar fóru saman í tjaldútilegur og veiðitúra. Við ferðuðumst líka saman til útlanda að kanna nýjar slóðir.

Þakklæti er okkur efst í huga. Siggi var ávallt boðinn og búinn að leggja lið hvar sem þörf var á. Við kveðjum kæran bróður, mág og frænda og biðjum Guð að blessa fjölskylduna hans sem honum var svo annt um.

F.h. okkar systkina og fjölskyldna okkar,

Sigríður Kristjánsdóttir.