Eiríkur Sigurðsson fæddist 2.október 1933.Hann lést 2. maí 2019.

Útförin fór fram 10. maí 2019.

Eiríkur Sigurðsson, nánasti samstarfsmaður minn á þriðja áratug, er fallinn frá eftir erfið veikindi undanfarið misseri.

Ungur ákvað hann að leggja fyrir sig veðurfræði. Hún er víðfeðm og skiptist í sérgreinar og teygir líka anga sína yfir í önnur fræði sem fjalla um náttúruna. Við flókið samspil tilviljana og eigin ákvarðana átti fyrir okkur Eiríki að liggja að sinna hafís og hefja síðan á miðjum aldri langt og farsælt samstarf um það margslungna náttúrufyrirbæri og allt sem því viðvíkur.

Eiríkur vann á Veðurstofu Íslands í skólaleyfum og hléum frá námi á tímabilinu 1955-1961 en að námi loknu starfaði hann á Veðurstofunni frá 1963 og allt til sjötugs árið 2003. Feril sinn hóf hann á veðurspádeild á Keflavíkurflugvelli en lengst af var hann í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Reykjavík. Meginviðfangsefni hans urðu á sviði hafísþjónustu og úrvinnslu hafísgagna.

Á áttunda áratugnum samdi Eiríkur þrjár viðamiklar skýrslur um hafís á íslenskum hafsvæðum árin 1968-1971. Nefnast skýrslurnar „Hafís við strendur Íslands“. Ensk þýðing Eiríks sjálfs fylgdi. Úrvinnsla Eiríks og nákvæm lýsing á ferðum hafíss við Ísland á seinni hluta hins fræga „hafísáratímabils“ bera vitni um aðdáunarverða elju og vandvirkni höfundar. Skýrslurnar munu þykja mikils virði er fram líða stundir.

Á þessum tímum eimdi eftir af nafnleysiskröfu hjá stofnunum. Af hógværð sinni hafði Eiríkur látið sér lynda að vinna hans öll kæmi út í Íslendingasagnastíl án þess að höfundar væri getið. Hann féllst síðar á að bragarbót yrði gerð á og eru nú ritin kennd við höfund í skrám bókasafna. Eiríkur vann síðan ásamt öðrum að árlegum en öllu minni skýrslum um hafís sem Veðurstofan hélt áfram að gefa út.

Eiríkur var hár maður vexti, lengi vel spengilegur og vel á sig kominn. Þó hrjáðu hann ýmsir kvillar um dagana. Eiríkur var forvitinn að upplagi og urðu veikindi hans þess valdandi að veðurfræðingurinn var að mér fannst jafnlærður um mannslíkamann og veðrið sjálft.

Eiríkur var hvers manns hugljúfi, fróður um flest, viðræðugóður og stálminnugur. Stóð ég mig oft að því að bregða mér yfir til Eiríks fengi ég snúna fyrirspurn í síma um hafískomu á tilteknu skeiði eða aðra viðburði. Það var fljótlegra að fletta upp í Eiríki en leita uppi svarið sjálfur. Eiríkur fylgdist vel með landsmálum og tók oft hressilegar rispur skýrum rómi um hneykslanlega þróun í fjármálum stjórnvalda, banka eða athafnamanna. Ég hugsaði stundum að Eiríkur hefði orðið skæður stjórnmálamaður hefði hann haft skap til og áhuga.

Hér gefst ekki rúm til að orðlengja frekar um minn góða samherja og vin, harmonikkuleikarann sem skemmti á árshátíðum Veðurstofunnar, hinn góða son sem sinnti móður sinni af fórnfýsi til dauðadags hennar á hundraðasta og öðru ári o.fl.

Við Jóhanna konan mín vottum fjölskyldunni samúð við lát Eiríks frænda síns. Það er ekki ein báran stök því að skammt er síðan hún sá á bak ástkærum foreldrum, Eggerti og Ingu, er bæði létust óvænt síðasta misserið. Blessuð sé minning þeirra og Eiríks Sigurðssonar.

Þór Jakobsson.