Í símanum Snjallsíminn hefur áhrif á samveru ungmenna með fjölskyldu og vinum. Krakkarnir á myndinni eru nemar í leiklist í grunnskóla í Kópavogi.
Í símanum Snjallsíminn hefur áhrif á samveru ungmenna með fjölskyldu og vinum. Krakkarnir á myndinni eru nemar í leiklist í grunnskóla í Kópavogi. — Ljósmynd/Þórhildur Stefánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Niðurstöður breskrar rannsóknar, sem birtar voru nýlega, benda til þess, að áhrif samfélagsmiðla á líf ungmenna séu takmörkuð og líklega afar lítil. Fjölskylda, vinir og skólar hafi mun meiri áhrif.

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Niðurstöður breskrar rannsóknar, sem birtar voru nýlega, benda til þess, að áhrif samfélagsmiðla á líf ungmenna séu takmörkuð og líklega afar lítil. Fjölskylda, vinir og skólar hafi mun meiri áhrif.

Rannsóknin var gerð á vegum Oxfordháskóla og voru niðurstöðurnar birtar í tímaritinu PNAS. Lagðar voru spurningar fyrir 12.672 börn á aldrinum 10 til 15 ára á árunum 2009 til 2017. Voru þau beðin að skrá tímann, sem þau vörðu á samfélagsmiðlum á venjulegum skóladögum og leggja einnig mat á það hve ánægð þau væru með ákveðna þætti í lífinu.

Markmiðið með rannsókninni var að kanna, hvort unglingar, sem nota samfélagsmiðla mikið væru almennt óánægðari með lífið en þeir sem nota slíka miðla minna, eða hvort unglingar, sem líður ekki vel, notuðu samfélagsmiðla meira en aðrir.

Niðurstaðan var sú, að í stórum dráttum væru afar lítil tengsl milli lífshamingju og samskiptamiðlanotkunar.

Andrew Przybylski, professor við Internetstofnun Oxfordháskóla, sem stýrði rannsókninni, segir við breska ríkisútvarpið BBC, að 99,75 af lífshamingju einstaklings tengist ekki með neinum hætti notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Áhrifin voru ívið meiri hjá stúlkum en drengjum en almennt væri sá munur ekki tölfræðilega marktækur.

„Foreldrar ættu ekki að hafa áhyggjur af því hvað börn þeirra verja miklum tíma á samfélagsmiðum – það er rangt að hugsa á þeim nótum,“ segir Przybylski við BBC. „Niðurstöðurnar benda ekki til þess að þetta sé mikið áhyggjuefni.“

Meira samtal og samvera

Að sumu leyti kallast þessar niðurstöður á við þær niðurstöður, sem Þórhildur Stefánsdóttir hefur komist að í háskólanámi sínu í hagnýtri menningarmiðlun. Þórhildur hefur rannsakað áhrif snjallsímanotkunar á unglinga og lokaverkefni hennar fólst í því, að hún hélt fyrirlestra og ræddi við nemendur í 8.-10. bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún fjallaði meðal annars um hvernig samfélagsmiðla- og tæknifyrirtæki geri allt til að halda notendum við efnið og auka notkunina.

Þórhildur segir, að krakkarnir hafi sýnt þessum fyrirlestrum mikinn áhuga og í ljós hafi komið að þau vildu gjarnan nýta tímann til annars en að vera stöðugt í símanum.

„Þetta er kynslóðin, sem nánast fæðist með símann í höndunum. En síðan kemur í ljós, að í þeirra huga er einkum þrennt sem þau óska sér. Það er að vera meira með vinum sínum, tala við fjölskylduna og verja meiri tíma í útiveru,“ segir Þórhildur.

Vilja aðgang að upplýsingum

Bresku vísindamennirnir segja, að nú sé mikilvægt að greina hvaða ungmenni séu í meiri hættu en önnur á að verða fyrir tilteknum áhrifum frá samfélagsmiðum og hvaða aðrir þættir hafi áhrif á velferð þeirra. Þeir áforma að hitta fulltrúa samfélagsmiðlaveitna og ræða við þá hvernig hægt sé að afla upplýsinga um hvernig fólk notar slíka miðla og smáforrit burtséð frá þeim tíma, sem það ver í slíka notkun. Aðgangur að slíkum upplýsingum sé lykillinn að skilningi á þeim margvíslegu hlutverkum, sem samfélagsmiðlar leika í lífi ungmenna.

Hitta fleiri og tala við fólk

Vera meira úti. Lesa. Hitta fleiri. Vera meira með fjölskyldu. Fara oftar út að hreyfa sig. Gera meira af því sem er skemmtilegt. Syngja meira í sturtu. Vera úti. Fara í sund. Sofa meira. Tala við fólk.

Þetta eru nokkur dæmi um það sem grunnskólanemar skrifuðu niður þegar Þórhildur Stefánsdóttir spurði hvað þeir vildu helst gera ef snjallsíminn og samfélagsmiðlar væru ekki þeir tímaþjófar, sem raun ber vitni og þau vildu nýta tímann til annars.