Halldór Friðrik Þorsteinsson
Halldór Friðrik Þorsteinsson
Eftir Halldór Friðrik Þorsteinsson: "Það að bera breytingar á útvistun og val á ólíkum tilboðum mögulegra rekstraraðila undir ársfund er til þess fallið að gera starfsemina óskilvirka og kostnaðarsama."

Á aðalfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins sem fram fer í dag í Arion banka verður lögð fram tillaga mín um breytingu á grein 4.9. í samþykktum sjóðsins. Tillagan skerpir á sjálfstæði sjóðsins, kveður á um starf framkvæmdastjóra sem nýlega var ráðinn af sjóðnum og veitir stjórn heimild að gera rekstrarsamning við fjármálafyrirtæki um daglegan rekstur sjóðsins í heild eða að hluta og er áskilið að rekstrarsamningurinn skuli birtur á vefsíðu sjóðsins.

Þegar þessi tillaga mín var kynnt í stjórn á síðasta stjórnarfundi þá gerði meirihluti stjórnar tillöguna að sinni en bætti við nýrri málsgrein um að breytingar á rekstrarfyrirkomulagi og rekstraraðila þurfi að bera undir sjóðfélagafund og öðlist aðeins gildi með auknum meirihluta, 2/3.

Með þeirri viðbót er verið að viðhalda óbreyttu vistarbandi sjóðsins hjá Arion banka og gera nýjar samþykktir jafn íþyngjandi og núverandi, jafnvel þó að nafn bankans sé farið úr samþykktum. Eðlilegra hefði verið að sjóðfélagar hefðu fyrst kosið um rekstraraðila áður en hann væri festur í sessi.

Stjórn lífeyrissjóðs ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins samkvæmt lögum og ætti að hafa svigrúm til að leita hagkvæmustu leiða til útvistunar á einstaka þáttum rekstursins í heild eða hluta. Það að bera breytingar á útvistun og val á ólíkum tilboðum mögulegra rekstraraðila undir ársfund er til þess fallið að gera starfsemina óskilvirka og kostnaðarsama.

Ársfundurinn í dag markar þau tímamót að bankinn hættir að tilnefna stjórnarmenn. Það færi vel á því að á sama fundi fengi stjórn sjóðsins eðlilegt frelsi til athafna og gæti valið rekstraraðila að undangengnu útboði. Þannig mætti lækka kostnað sjóðsins sem er meiri en sambærilegra sjóða.

Höfundur er í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins.