Mælingar Akstur gegn rauðu ljósi.
Mælingar Akstur gegn rauðu ljósi.
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Alls óku 24 af hverjum 10.000 ökutækjum á móti rauðu ljósi yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar í Reykjavík í tveimur umferðarstraumum milli klukkan 16 og 19 á þriggja daga tímabili í desember í fyrra.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Alls óku 24 af hverjum 10.000 ökutækjum á móti rauðu ljósi yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar í Reykjavík í tveimur umferðarstraumum milli klukkan 16 og 19 á þriggja daga tímabili í desember í fyrra.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar, sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Vegagerðina um tíðni aksturs gegn rauðu ljósi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tíðni aksturs gegn rauðu ljósi á gatnamótum Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar er á sambærilegu bili og niðurstöður erlendra rannsókna. Þá sýndu þær einnig að algengara er að vinstri beygja sé ekin á móti rauðu ljósi.

Há tíðni árekstra á svæðinu

Gatnamót Kringlumýrar- og Háaleitisbrautar voru valin í verkefnið vegna hárrar tíðni árekstra vegna aksturs gegn rauðu ljósi. Notaðar voru upplýsingar úr umferðartölvu höfuðborgarsvæðisins frá Reykjavíkurborg. Út frá þeim upplýsingum var hægt að sjá hvenær dags umferðarljósin breyttust úr gulu yfir í rautt. Sjónræn myndgreining fól í sér að starfsmaður EFLU horfði á myndböndin og greindi hvort fremra dekk ökutækja var komið yfir eða var á stöðvunarlínu á því augnabliki sem rautt ljós byrjaði að loga.

Einstök rannsókn hérlendis

Rannsóknin er sú fyrsta á Íslandi sem rannsakar tíðni aksturs gegn rauðu ljósi með myndbandsgreiningu. Myndbandsbúnaði var komið fyrir á tveimur stöðum við gatnamótin þriðjudaginn 3. desember til föstudagsins 6. desember.

„Samtals óku 11 ökumenn gegn rauðu ljósi (þ.e. yfir stöðvunarlínu eftir að rautt ljós kviknaði) og 58 voru á stöðvunarlínu þegar rautt ljós kviknaði yfir talningartímabilið frá 16.00-19.00,“ segir í niðurstöðum EFLU.