Íris Björk Hlöðversdóttir fæddist 25. febrúar 1973. Hún lést 29. apríl 2019.

Útför Írisar Bjarkar fór fram 9. maí 2019.

Að þurfa að kveðja þig, elsku Íris mín, er mjög erfið stund, þar sem þú virtist vera tilbúin að taka ný skref í lífi þínu tek ég þung skerf við að fylgja þér til grafar.

Við eigum margar góðar minningar sem mér þykir óendanlega vænt um og eru þær allt frá því að við vorum krúttlegar stelpur að veiða fisk í matinn í klóakrörinu á Herjólfsgötu í að vera að fullorðnar stelpur að taka sig til í kjallaranum á Flókagötunni að fara á ball á Hótel Íslandi.

Við saumuðum á okkur eins kjóla, þú grænan og ég hvítan, og mikið vorum við fínar til að fara á ball í eins kjólum – Ekki fannst mér heldur leiðinlegt að nota þig sem förðunarmódel þegar ég var í þeim bransa og ég held að þér hafi ekki heldur fundist það leiðinlegt – brallið og brasið á okkur varðandi myndatökurnar var óborganlegt og þessar minningar, myndir og filmur mun ég varðveita vel.

En eins og gerist hjá mörgum þá fer fólk ólíkar leiðir í lífinu og leiðir skilur eins og gerðist hjá okkur en alltaf gátum við leitað hvor til annarrar ef eitthvað bjátaði á, og mikið var gott að getað leitað til þín, elsku Íris. Við gátum talað um allt án þess að vera með fordóma vegna annarra og horfðum á alla jafna, alveg sama hvar þeir voru staddir í lífinu.

Þú komst með mér í Skorradalinn síðastliðinn nóvember þar sem við töluðum saman um allt á milli himins og jarðar. Þú talaðir um börnin þín og hversu vel þeim gengi í lífinu og hversu stolt þú værir af þeim.

Einnig talaðir þú um hvernig líf þitt væri búið að vera og hvernig þú ætlaðir að rísa upp eins og fuglinn Fönix.

Elsku Íris mín, ég gæti skrifað margar síður um þig en margt vil ég geyma í hjarta mínu og geta rifjað upp með þér þegar ég þarf að tala við þig.

Elsku Finnbogi, Emelía, Hlöðver, Hulda, Kjartan, Pálmar og ykkar fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og megi ljós Guðs og styrkur gefa ykkur kraft á þessum erfiðu tímum.

Ég mun ávallt sakna þín, elsku Íris mín, og minning þín mun lifa í mínu hjarta.

Þín vinkona

Anna.