Slangan munduð Menn gátu staðið uppi á þaki á meðan eldur logaði í því, enda sterkbyggt. Allt tiltækt slökkvilið og meira til var kallað út í gær.
Slangan munduð Menn gátu staðið uppi á þaki á meðan eldur logaði í því, enda sterkbyggt. Allt tiltækt slökkvilið og meira til var kallað út í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson Þórunn Kristjánsdóttir „Þetta hús er mjög, mjög, mjög illa farið. Það er bara þannig,“ sagði Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla í Breiðholti í Reykjavík, síðdegis í gær. Þá var fjölmennt lið tiltekarmanna að störfum við að dæla vatni úr þeim hluta skólans þar sem eldur logaði í þaki í fyrrinótt.

Snorri Másson

Þórunn Kristjánsdóttir

„Þetta hús er mjög, mjög, mjög illa farið. Það er bara þannig,“ sagði Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla í Breiðholti í Reykjavík, síðdegis í gær. Þá var fjölmennt lið tiltekarmanna að störfum við að dæla vatni úr þeim hluta skólans þar sem eldur logaði í þaki í fyrrinótt.

Magnús sagði að á meðan mest lét hefði vatnið náð honum upp að ökkla inni í kennslustofum.

Eldur kom upp í millilofti í einu af nokkrum húsum skólans sem kallað er hús 4. Steypt þak þess húss hrundi ekki heldur hélt og sagði Magnús að um tíma hefði verið tvísýnt um hvort svo yrði. „Það sem fór niður var reykur og vatn, ekki eldur. Þannig að þakið hefur staðið sig,“ sagði hann. Ef þakið hefði hins vegar hrunið segir Magnús að voðinn hefði verið vís því þá hefðu eldtungurnar náð að breiða úr sér yfir í aðrar byggingar skólans. Í staðinn eyðilagði eldurinn aðeins bárujárnið sem lá ofan á steypuþakinu.

Í húsi 4 eru sex kennslustofur, nokkuð rúmgott miðrými og nokkrar sérkennslustofur. Ljóst var að nærri allir innanhúsmunir þar voru svo gott sem ónýtir. Þar á meðal var nýlegur tölvubúnaður, stólar og borð, bækur, örbylgjuofnar og fleira. Tjónið hleypur að minnsta kosti á tugum milljóna, taldi Magnús við fyrstu sýn en eftir er að meta það til fullnustu. Húsnæðið var allt mjög illa leikið. Ekki var unnt að mynda það vegna rannsóknarhagsmuna.

Í stuttu samtali við Morgunblaðið sagði talsmaður tryggingafélagsins VÍS, sem Reykjavíkurborg er tryggð hjá og þar með skólinn, að umfang tjónsins yrði metið í dag, mánudag, en fyrir lægi að það væri verulegt. Sú fullyrðing er í samræmi við eyðilegginguna sem blasti við á vettvangi en bara borð og stólar í eina kennslustofu sagði Magnús að kostuðu skólann 2-2,5 milljónir.

Komið út yfir velsæmismörk

Eldur kviknaði einnig í hluta skólans í mars. „Að fá svona fréttir með tveggja mánaða millibili er sláandi. Við höfum fengið loforð um að þetta verði virkilega skoðað og farið verði ofan í kjölinn á málinu. Eftirlitsaðilar borgarinnar og þeir sem taka út svona byggingar,“ sagði Magnús sem kvaðst vel skilja áhyggjur foreldra yfir að tvisvar hefði brunnið á sama ári í byggingum skólans.

Foreldrar barna við skólann hafa gagnrýnt að sökum plássleysis sé kennt á göngunum. Það hefur verið sagt gera flóttaleiðir ógreiðfærar. Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldri barns í Seljaskóla og formaður foreldrafélagsins, sagði í samtali við mbl.is í gær að brýnt væri að gera öryggisúttekt á skólanum. Hún segir að skólastjórnendur hafi ítrekað kallað eftir fjármagni frá yfirvöldum til að sinna viðhaldi en ekkert gerist. „Þetta er komið virkilega á þann stað að það er ekki hægt að sinna viðhaldi. Það þarf að setja umtalsvert fjármagn í viðhald. Þetta er komið svo langt út yfir öll velsæmismörk,“ segir hún.