Holt - Land - Rangárþing ytra - Hekla - Marteinstunga - Engilb Holt - Land - Rangárþing ytra - Hekla - Marteinstunga - Engilbert Olgeirsson - Elínborg - Guðmundur Daníelsson - Hekla - Hjallanes -
Holt - Land - Rangárþing ytra - Hekla - Marteinstunga - Engilb Holt - Land - Rangárþing ytra - Hekla - Marteinstunga - Engilbert Olgeirsson - Elínborg - Guðmundur Daníelsson - Hekla - Hjallanes - — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarson sbs@mbl.is Á malarbornum sveitavegum á Suðurlandi stendur rykmökkurinn aftan úr bílunum og sést langar leiðir.

Sigurður Bogi Sævarson

sbs@mbl.is

Á malarbornum sveitavegum á Suðurlandi stendur rykmökkurinn aftan úr bílunum og sést langar leiðir. Þetta gæti minnt einhverja á gamlan amerískan vestra, kvikmynd um kúreka í Ameríku sem spretta úr spori á gæðingum sínum og jóreykurinn svífur upp í himinblámann á víðlendum sléttunum.

Það er reyndar víðar en í Holtunum í Rangárvallasýslu, þar sem þessi mynd var tekin, sem þurrkur er orðinn til nokkurs ama, bæði hvað viðvíkur ryki úr vegum og eins hefur mikil áhrif á gróður jarðar þegar engin er vætan svo vikum skiptir. Og svona verður veðráttan áfram að minnsta kosti út líðandi viku, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Búast má við vætu og þokulofti út við ströndina norðanlands og eystra. Annars staðar verður ef að líkum lætur sólríkt og þurrt – og vegarykið áfram til ama.

„Veðráttan að undanförnu hefur skapað mikið vandræðaástand,“ sagði Guðmundur Guðbrandsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Selfossi, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Að undanförnu hefur eftir megni verið reynt að rykbinda malarvegina á Suðurlandi með salti. Veruleikinn er hins vegar sá að oft er lítil binding í vegunum og efnið fljótt að leysast upp og mynda rykmökk. „Rykbindingin sem við settum í vegi víða hér í sveitunum fyrir þremur vikum eða svo virðist farin. Slíkt er ansi blóðugt, því bindiefnið er rándýrt og við höfum ekkert úr of miklum peningum að spila. Eina ráðið sem við höfum núna er því að bleyta vegina með vatni af tankbíl, sem er lausn sem dugar í aðeins fáeinar klukkustundir. Í lágsveitum Flóans er líka bagalegt fyrir bændur að rykið leggst yfir tún og úthaga þegar svo bætist við að tjarnir og skurðir eru víða að þorna upp í þessari óvenjulegu þurrkatíð,“ segir Guðmundur Guðbrandsson.