Elsa Jóhanna Óskarsdóttir fæddist að Hvammi í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu 2. september 1936. Hún lést á sjúkrahúsinu á Blönduósi 18. maí 2019.

Foreldrar hennar voru Óskar Þorleifur Jóhannesson frá Móbergi, f. 21. júní 1897, d. 15. júlí 1988, og Guðrún Magnea Magnúsdóttir, f. 17. apríl 1913, d. 27. júní 1993.

Árið 1963 giftist Elsa Gunnari Sig. Sigurðssyni húsasmíðameistara, f. 16. janúar 1942. Börn þeirra eru:

1) Kristín, f. 22 mars 1963, maki Lúðvík Vilhelmsson, þau eiga þrjú börn. Dagbjart Gunnar, Erlu Guðrúnu og Elsu Kristínu. 2) Óskar, f. 12. janúar 1965. 3) Sigurður, f. 4. febrúar 1970, maki Jóhanna Kjartansdóttir, þau eiga tvö börn. Ástu Lilju og Baldvin Frey.

Elsa ólst upp í Fagranesi í Langadal en flutti til Blönduóss 1962 og bjó þar fram til síðasta dags. Skólaganga var í farskóla sveitarinnar og síðan kvennaskóli Blönduóss. Hún vann fyrst við þjónustu og iðnað en lengst af við umönnun á Héraðshæli Austur-Húnvetninga. Útför hennar fór fram frá Blönduóskirkju 1. júní 2019.

Elsku amma, nærveran þín, ástúð og kærleikur hafa alla tíð veitt okkur hlýju og öryggi. Rétt eins og innilega faðmlagið þitt. Þótt við kveðjum þig núna með sorg í hjarta og grátbólgin augu, stóru ömmubörnin þín, þá erum við líka ómælanlega þakklát fyrir stundirnar okkar saman og allar fallegu minningarnar. Þær munu verma okkur út lífið.

Þegar við vorum lítil örkuðum við linnulaust inn og út af heimilinu ykkar afa, þar sem við vorum öllum stundum svo velkomin. Við nutum þess að eiga þig að, þótt við hefðum ekki á þeim árum verið sérstaklega meðvituð um gæfuna sem okkur hafði verið gefin.

Út æskuna okkar barstu alla kosti sem kalla má ömmulega. Heitar kleinur, prjónaðar peysur, gráar krullur og endalausa þolinmæði. Þegar við uxum úr grasi urðum við líka svo lánsöm að fá að kynnast þér betur sem manneskju og sem vin – lífsreynslunni þinni, styrk og beinskeytta húmornum. Þegar við sátum langstundum að skrafi, yfir kaffibolla eða sérrí, og þú sagðir okkur frá löngu liðinni tíð. Aldrei sastu heldur á skoðunum þínum, það var ekki þinn bragur. Þú veittir Erlu líka öll þau ráð og stuðning sem hún þurfti í gegnum sjúkraliðanámið sitt. Þú varst og verður alltaf stóra fyrirmyndin hennar á því sviði. Eftir að við bjuggum okkur síðan eigin heimili, í öðrum landshlutum og öðrum löndum, fækkaði samverustundunum okkar en þær urðu fyrir vikið bæði nánari og hlýrri.

Síðustu árin þín nýttuð þið afi ósköp vel. Þið fóruð saman á húsbílnum yfir landið þvert og endilangt og meira að segja yfir hafið líka. Við systkinin ræddum okkar á milli hversu mikið það gladdi okkur að þið skylduð eiga þessar gæðastundir saman.

Við óskum einskis heitar en að þú hafir vitað hvað þú skiptir okkur miklu máli. Hversu þakklát við erum fyrir að hafa notið samvista þinna. Hversu mikið það hryggir okkur að kveðja þig, elsku amma. Þú elskaðir okkur svo mikið og við elskum þig líka, endalaust.

Takk fyrir hlýjuna, hláturinn og öll innilegu faðmlögin.

Dagbjartur Gunnar, Erla Guðrún og Elsa Kristín.