Ný farþegaspá Isavia slær flesta illa. Það vita allir hvað felst í því þegar umsvif á mikilvægum mörkuðum minnka. Þar vegur þyngst að atvinnustigið dregst saman enda fyrirtækjum nauðugur sá kostur einn að rifa nokkuð seglin.

Ný farþegaspá Isavia slær flesta illa. Það vita allir hvað felst í því þegar umsvif á mikilvægum mörkuðum minnka. Þar vegur þyngst að atvinnustigið dregst saman enda fyrirtækjum nauðugur sá kostur einn að rifa nokkuð seglin. Tölurnar að þessu sinni eru alvarlegar að tvennu leyti. Það stefnir í talsverða fækkun milli ára í hópi þeirra ferðamanna sem hingað leggja leið sína og þá fækkar mjög þeim ferðalöngum sem nýta vilja Keflavík sem tengiflugvöll milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Fyrrnefnda talan hefur mest áhrif í íslensku hagkerfi og kallar á að ferðaþjónustuaðilar lagi sig að breyttum veruleika. Þar þurfa hótelrekendur og bílaleigur að sníða sér stakk eftir vexti, enda eftirspurn eftir þjónustu þessara aðila talsvert minni í pípunum en gert var ráð fyrir. Þá gefur samdrátturinn einnig ástæðu til að staldra við og spyrja hvað valdi hinum snöggu umskiptum. Þótt mestu ráði fall WOW air spila aðrir þættir inn í og um það vitna minni umsvif annarra flugfélaga sem draga nú úr framboði til og frá landinu. Ýmislegt veldur því en ein augljós ástæða er verðlagning á vöru og þjónustu hér á landi. Þegar ferðamenn upplifa Noreg sem ódýra kostinn í samanburði við Ísland er hætt við að samkeppnisstaða landsins sé orðin verulega slæm.

Síðarnefnda talan hefur ekki eins mikil og augljós áhrif á íslenskt hagkerfi en getur þó valdið þónokkrum breytingum þrátt fyrir það. Þannig hefur hinn mikli fjöldi skiptifarþega sem fara um Leifsstöð reynst grunnurinn að sífellt umsvifameira leiðakerfi flugfélaganna. Farþegaflutningar til og frá Íslandi gætu aldrei risið undir því að flytja fólk til tuga borga beggja vegna Atlantshafsins en flugfélögin sjá tækifæri í að opna þessar leiðir vegna þess mikla fjölda fólks sem tilbúið er að fljúga um Ísland, án þess að ætla sér sérstaka viðkomu í landinu.

Og skiptifarþegarnir skipta einnig máli í öðru tilliti. Ráðist hefur verið í gríðarlegar fjárfestingar á síðustu árum og flugstöðvarbyggingin og flughlöð blásið út. Enn eru í farvatninu fjárfestingar sem ekki hlaupa á tugum milljarða heldur hundruðum. Alvarlegt bakslag nú ætti að verða forsvarsmönnum vallarins, sem er að fullu og öllu leyti í eigu ríkisins sem varnaðarorð. Þar þarf að gæta varúðar í meira mæli en minni.