Hefðbundin meðganga tekur níu mánuði og það var nákvæmlega sá tími sem sænski fótboltaþjálfarinn Erik Hamrén þurfti til að geta byrjað að brosa fyrir alvöru eftir að hann tók við íslenska karlalandsliðinu.
Hefðbundin meðganga tekur níu mánuði og það var nákvæmlega sá tími sem sænski fótboltaþjálfarinn Erik Hamrén þurfti til að geta byrjað að brosa fyrir alvöru eftir að hann tók við íslenska karlalandsliðinu.

Hamrén lenti í miklum hremmingum með liðið í haust, í Þjóðadeildinni og vináttuleikjunum, og íslenskir fótboltaáhugamenn hafa verið lengi að taka hann í sátt.

En eftir sex stig í „tvíhöfðanum“ gegn Albaníu og Tyrklandi síðustu daga getur Svíinn borið höfuðið hátt. Hann er kominn með betri stöðu en landi hans, hinn vinsæli Lars Lagerbäck, var með eftir fjóra fyrstu leiki sína í undankeppni stórmóts haustið 2012. Níu stig gegn sex.

En það er magnað að sex af þeim leikmönnum sem hófu fyrsta leikinn hjá Lalla í september 2012, gegn Noregi, voru í byrjunarliðinu gegn Tyrklandi í gærkvöld.

Ísland er orðið eitt reyndasta landslið heims. Níu af þeim ellefu sem hófu leik í gærkvöld hafa spilað 60 landsleiki eða meira. Leikjahæsti Tyrkinn lék sinn 56. landsleik og sex í byrjunarliði Tyrkja eiga færri landsleiki en Hjörtur Hermannsson sem spilaði sinn tólfta landsleik og var lang reynsluminnstur íslenskra.

Til viðbótar kom Kolbeinn Sigþórsson inn á og spilaði sinn 50. landsleik.

Þessi gríðarlega reynsla skilaði sér inni á vellinum í gærkvöld gegn ungum Tyrkjum. Ásamt því hungri sem er enn til staðar í íslensku landsliðsmönnunum sem eru greinilega tilbúnir til að fórna öllu fyrir málstaðinn og eitt stórmót í viðbót.