Myndin sýnir ítalska sjómenn sem hafa, í tilraunaskyni, tamið sér að safna öllu plastrusli sem berst um borð með fiskinum.
Myndin sýnir ítalska sjómenn sem hafa, í tilraunaskyni, tamið sér að safna öllu plastrusli sem berst um borð með fiskinum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Það heyrir til undantekninga að íslensk skip tapi netum og í Suður-Kóreu er verið að þróa efni fyrir veiðarfæri sem brotnar niður á nokkrum mánuðum.

Daglega má lesa fréttir um plastmengun í hafi, enda alvarlegur og vaxandi vandi sem lífríki sjávar stafar hætta af. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að allstórt hlutfall plastúrgangs í hafinu má rekja til sjávarútvegs. Þannig sýna tölur frá Ástralíu að 11% plastefna í hafi séu úrgangur frá fiskveiðum og -vinnslu, og í þýskri rannsókn á samsetningu plasts í sjó á hafnarsvæðum kom í ljós að net, snæri og reipi mynduðu samanlagt um 34% af þeim úrgangi sem fannst. Til samanburðar mynduðu plastpokar 4% af sorpi í sjó í þýsku rannsókninni, og 1% af þyngd plasts í sjó umhverfis Ástralíu.

Þá er eftir að nefna þann skaða og þjáningu sem veiðarfæri geta valdið skepnunum í hafinu ef þau glatast, enda halda svokölluð „drauganet“ áfram að veiða fiska og gildrur halda áfram að fanga sjávardýr.

Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir góðu fréttirnar þær að íslenskum sjávarútvegi virðist hafa auðnast að ná nokkuð góðum tökum á vandanum og t.d. orðið fátítt að veiðarfæri tapist í sjó. Þá er von á nýjum reglum sem munu bæta aðhald og eftirfylgni og gera kleift að rekja uppruna veiðarfæra frá skipum. Loks er verið að þróa ný efni fyrir net og gildrur sem myndu brotna niður í sjó á tiltölulega skömmum tíma og þannig valda lífríkinu minni skaða.

Sjá botninn betur

„Það er mun fátíðara í dag en það var áður að sjómenn týni veiðarfærum, og ef þau slitna frá þá geta flest skip fundið veiðarfærin aftur og náð þeim upp úr sjó með þar til gerðum slæðara,“ segir Haraldur. Hann bætir við að það sé skráningarskylt atvik ef veiðarfæri tapast en vísbendingar séu um að skráningum sé áfátt. „Lögin skylda sjómenn til að reyna til þrautar að ná veiðarfærum aftur úr sjó en annars tilkynna atvikið til Landhelgisgæslunnar með sem ítarlegustum upplýsingum um staðsetningu.“

Það hjálpar til að forða því að veiðarfæri glatist að skipstjórar hafa í dag mun fullkomnari tæki til að greina lögun sjávarbotnsins og sjá nákvæma staðsetningu veiðarfæra eigin skips og annarra. Haraldur segir helstu ástæðu þess að netabátar missi net að margar fisktegundir uni sér best í námunda við ójöfnur á sjávarbotni, s.s. í kringum kletta og kóralrif, og þar geti jafnframt verið sterkari hafstraumar sem þýða að vandasamt kann að vera að draga netin þannig að þau festist ekki í einhverju á botninum. Með samviskusamlegri skráningu geta sjómenn líka hjálpað hver öðrum að forðast þá staði þar sem mest hætta er á að eitthvað kræki í veiðarfærin. Eru slíkar skráningar til hjá nágrannaþjóðum Íslendinga og mikilvæg gögn sem sjómenn nýta sér í hag.

„Hvað varðar ónýt eða gömul veiðarfæri þá er frágangur þeirra hjá mörgum útgerðum til fyrirmyndar, og myndar það sterkan hvata að greitt er skilagjald af veiðarfærum sem send eru til endurvinnslu. Er svo komið í dag að ófá íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru með sínar eigin flokkunarstöðvar þar sem net og annar úrgangur eru hreinsuð og flokkuð til að fá sem hæst skilaverð fyrir,“ útskýrir Haraldur. „Þessu til viðbótar eru sjómenn mjög vel meðvitaðir um mikilvægi þess að henda ekki rusli í sjóinn og er komið með allan úrgang aftur að landi þar sem honum er fargað eða hann endurunninn á ábyrgan hátt.“

Rafmerki áhugaverður kostur

Að sögn Haralds er ný reglugerð væntanleg sem kveða mun á um að öll veiðarfæri skuli vera merkt og rekjanleg. Væri þá skipsnúmerið sýnilegt á viðeigandi stöðum á veiðarfærunum. „En það mætti jafnvel ganga enn lengra með rafmerkjum sem myndu senda svar til baka ef hafsbotninn er skimaður með hljóðsjá svo að auðveldara verði að staðsetja veiðarfærin og ná þeim aftur upp. Eru slík merki þegar í þróun.“

Betri merking veiðarfæra þýðir líka að byrja má að greina af nákvæmni uppruna neta og lína sem finnast í fjörum. „Í dag vitum við ekki með vissu hvort netaleifar og annar úrgangur sem berst að landi koma frá íslenskum skipum, norskum eða jafnvel rússneskum. Vandlega merkt veiðarfæri hjálpa okkur að sjá hvernig hafstraumar bera þennan úrgang á milli staða og þá vonandi rekja slóðina að uppruna vandans svo grípa megi til viðeigandi ráðstafana.“

Um notkun nýrra efna í veiðarfæraframleiðslu segir Haraldur að vísindamenn í Suður-Kóreu hafi náð forskoti við þróun sterkra efna sem brotna engu að síður niður eftir ákveðinn tíma í sjó. „Bakteríuflóran í hafinu vinnur á þessum efnum á nokkrum mánuðum svo að minni hætta verður á að stærri sjávarlífverur festist í gildrum, eða í netum og veiðarfærin orðin nær skaðlaus að fáum mánuðum liðnum,“ útskýrir hann. „Þetta bitnar ekki mikið á notagildi veiðarfæranna enda vaninn að t.d. dæmigerð fiskveiðinet dugi í hluta vertíðar eða eina vertíð áður en þarf að skipta þeim út.“