Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Eftir Óla Björn Kárason: "Ekki eru allir hrifnir af séreignarstefnunni – frelsinu sem fylgir eignamyndun og fjárhagslegu sjálfstæði, svo merkilegt sem það er."

Eftir því sem árin líða hef ég áttað mig æ betur á því hversu auðvelt það er að flækja hluti sem eru í eðli sínu einfaldir. Oft virðist sem það sé einlægur ásetningur hins opinbera að gera einstaklingum og fyrirtækjum erfiðara fyrir en efni standa til, með því að gera einfaldleikann torskilinn. Sama má segja um okkur stjórnmálamennina. Okkur tekst ekki alltaf að setja fram hugmyndir og stefnu fram með einföldum og skiljanlegum hætti. Hugmyndafræðin getur verið margslunginn og tækniorðin óskiljanleg. Kannski er skýringin sú að stjórnmálamaðurinn hefur ekki alltaf fullan skilning á viðfangsefninu.

Við sem skipum þingmannasveit Sjálfstæðisflokksins þurfum að líta í eigin barm og viðurkenna að okkur hefur ekki alltaf tekist sérlega vel að koma hugsjónum á framfæri sem skiljanlegum hætti. Tækniorð hagfræðinnar og fjármálafræðinnar eru ekki besta söluvaran. Frasar – jafnvel innantómir – vekja meiri athygli. Og við sjálfstæðismenn erum lélegir í að smíða orðaleppa og klisjur.

Í grunninn er stefna Sjálfstæðisflokksins einföld; frelsi einstaklingsins til orðs og æðis og varðstaða um sjálfstæði landsins. Einstaklingurinn og fjölskylda hans er grunneining samfélagsins. Þess vegna líta sjálfstæðismenn á það sem skyldu sína að standa vörð um fjölskylduna og styrkja stoðir hennar. Alveg með sama hætti er Sjálfstæðisflokkurinn skuldbundinn til að tryggja viðskiptafrelsi, ryðja götu sjálfstæða atvinnurekandans, verja millistéttina, þá sem eldri eru og samborgara sem þurfa á aðstoð að halda. Þetta er einföld hugmyndafræði og oft hefur verið á brattann að sækja. En þrátt fyrir allt hefur tekist að hrinda hugmyndum sjálfstæðisstefnunnar í framkvæmd á flestum sviðum, en ekki öllum. Verst er bakslag í ýmsu á síðustu tíu árum. (Um það verður fjallað síðar).

Hornsteinn borgaralegs samfélag

Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu Sjálfstæðisflokksins er fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna. Sjálfstæðismenn eiga sér þann draum að gera alla að eignafólki og byggja undir fjárhagslegt öryggi.

Eignamyndun millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri laun stendur á tveimur meginstoðum. Annars vegar á lífeyrisréttindum og hins vegar á verðmæti eigin húsnæðis. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að gera sem flestum kleift að eignast eigið húsnæði. Við sjálfstæðismenn höfum kallað þetta séreignarstefnu og bent á að hún sé einn af hornsteinum borgaralegs samfélags. En séreignarstefnan er lítið annað en frelsisstefna – leið að því markmiði að launafólk búi við fjárhagslegt sjálfstæði.

Ekki eru allir hrifnir af séreignarstefnunni – frelsinu sem fylgir eignamyndun og fjárhagslegu sjálfstæði, svo merkilegt sem það er. Sósíalistar og margir vinstri menn hafa ímugust á séreignarstefnunni. Í huga þeirra er barátta einstaklinga og fjölskyldna við að eignast eigið húsnæði með gríðarlegri vinnu og eljusemi, háttur smáborgara sem þeir líta niður á. Draumurinn um eigið húsnæði er skilgetið afkvæmi markaðshyggju. Smáborgarar – sjálfstæði atvinnurekandinn og millistéttin eru ekki hluti af framtíðarsýn hins sósíalíska samfélags.

Valfrelsi

Auðvitað vilja ekki allir eignast eigið húsnæði. Margir kjósa fremur að leigja. Það er þeirra réttur og enginn getur tekið hann af þeim. Í húsnæðismálum er það hlutverk stjórnvalda að tryggja valfrelsi – reyna eftir fremsta megni að láta drauma almennings rætast. Og þá er ágætt að hafa í huga niðurstöðu könnunar sem Íbúðalánasjóður lét gera á síðasta ári: Um 86% leigjenda vilja eignast eigin íbúð. Þegar spurt var: „Ef nægjanlegt framboð væri af öruggu leiguhúsnæði og nægilegt framboð af húsnæði til kaups. Hvort myndir þú velja að búa í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði?“ Aðeins rétt rúm 14% völdu leiguhúsnæði.

Opinber umræða og áherslur flestra stjórnmálaflokka á undanförnum misserum og árum, hefur því miður einkennst fremur af því að ýta undir leiguhúsnæði en tryggja valfrelsi í húsnæðismálum. Fókusinn hefur með öðrum orðum verið á 14% en 86% hafa orðið hornreka.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess og raunar skynsemi að stjórnvöld stuðli að heilbrigðum leigumarkaði. En stefna í húsnæðismálum hlýtur að mótast með hliðsjón af óskum almennings. Ég hef alla tíð litið svo á að eitt stærsta verkefni borgaralegra stjórnmálamanna sé gefa einstaklingum raunverulega valkosti í húsnæðismálum. Séreignarstefnan er hluti af frelsisstefnu sem gefur launafólki tækifæri til eignamyndunar.

Skattar og séreign

Í liðinni viku var samþykkt frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að framlengja möguleika fólks til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða inn á höfuðstól íbúðalána. Þegar er í gildi réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst í tíu ár vegna kaupa á fyrstu íbúð. Frá því að þetta úrræði var kynnt til sögunnar árið 2014 – með samþættingu skattalækkunar og séreignarstefnu – hafa um 56 milljarðar króna runnið til öflunar húsnæðis. Að jafnaði hafa um 23 þúsund einstaklingar nýtt sér þessa heimild í hverjum mánuði. Þannig hefur verið stuðlað að eignamyndun fólks í íbúðarhúsnæði og það er kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Árangurinn er áþreifanlegur. Skuldaleiðréttingin og séreignarsparnaðurinn hefur skipt sköpum. Staða íslenskra heimila er mun betri en á öðrum Norðurlöndum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var eigið fé hér á landi, að undanskildum lífeyrisréttindum, um 157% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið hefur ekki verið hærra í tuttugu ár.

Skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu er um 75% á Íslandi en um 105% að meðaltali á öðrum Norðurlöndum. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru skuldirnar einnig lægri hér, eða tæplega 150% á móti liðlega 200%.

Þessar tölur eru ágætur vitnisburður um árangur séreignarstefnunnar frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 2013. Við sem skipum þingsveit Sjálfstæðisflokksins gerum okkur hins vegar fyllilega grein fyrir því að verkefninu er langt í frá lokið. Þess vegna höfum við m.a. lagt fram frumvörp um afnám stimpilgjalda af íbúðahúsnæði og fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað. Áfangasigrar við lækkun tekjuskatts einstaklinga hafa náðst og á komandi árum verða skattar lækkaðir enn frekar. Allt til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.