Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is ÁTVR berst með oddi og egg gegn því að ríkiseinkasala með áfengi verði afnumin. Um það vitna ávörp Ívars Árdal, forstjóra stofnunarinnar, í ársskýrslum hennar, mörg ár aftur í tímann.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

ÁTVR berst með oddi og egg gegn því að ríkiseinkasala með áfengi verði afnumin. Um það vitna ávörp Ívars Árdal, forstjóra stofnunarinnar, í ársskýrslum hennar, mörg ár aftur í tímann. Forstjórinn ver þessa skoðun sína hins vegar aldrei í fjölmiðlum því hann neitar að tala við þá, veitir engin viðtöl, tekur ekki einu sinni símann, þótt eftir því sé leitað.

En á sama tíma og barist er gegn því að færa íslenska verslun til nútímans stuðlar ÁTVR að því að íslenskir neytendur séu hafðir að féþúfu með viðskiptum sínum við stofnunina. Þannig kemur hún í veg fyrir að innflutningsaðili sem lýst hefur sig reiðubúinn til að selja Stella Artois-bjór á u.þ.b. 220 kr. (330 ml) fái aðgengi að versluninni. Þess í stað tryggir hún öðru fyrirtæki sem vill selja nákvæmlega sömu vöru á 350 kr. einkasölurétt gagnvart Íslendingum!

Sú einokun varir að minnsta kosti næstu níu mánuði og lengur ef reglum fyrirtækisins verður ekki breytt. Af hverju í ósköpunum tryggir ÁTVR ekki báðum innflutningsaðilum tiltekið pláss í versluninni þar sem annar getur boðið vöruna á 220 krónur og hinn á 350 krónur?

Væri það ekki upplagt til að kanna hug neytenda? Hætt er við að annar aðilinn þyrfti fljótt á meira plássi að halda en hinn.