Hlutabréf Marels voru á föstudag tekin til viðskipta í Amsterdam.
Hlutabréf Marels voru á föstudag tekin til viðskipta í Amsterdam.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin ákvörðun liggur fyrir um hugsanlega afskráningu félagsins á Íslandi.

Eftir nýtt hlutafjárútboð Marels samhliða skráningu félagsins í Euronext-kauphöllina í Amsterdam hefur alþjóðlegt eignarhald á hlutafjár félagsins vaxið úr 3% í 30% á 18 mánuðum. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins, segir mikilvægt að hafa í huga að um sama flokk hlutabréfa er að ræða í Amsterdam og í Reykjavík og ekki eigi að skipta máli hvora kauphöllina fjárfestar velji.

„Þetta er sami flokkur bréfa með sömu réttindi og þau eru fullflytjanleg á milli markaða. Fyrir 18 mánuðum var einungis 3% alþjóðlegt eignarhald í Marel. Fyrir skráninguna voru það tæp 15%. Eftir útboðið er það nálægt 30%. Íslenskir fjárfestar eiga 45%, þeirra á meðal eru lífeyrissjóðirnir, fjárfestasjóðir og einstaklingar sem hafa fylgt okkur lengi. Ein fjölskylda hefur til dæmis verið í hluthafahópnum frá árinu 1992. Eyrir Invest á svo 25% hlut í félaginu en samanlagt frjálst flæði bréfa fyrir utan kjölfestufjárfestinn er 75%,“ segir Árni.

Hann segir tímann einan geta leitt í ljós hvernig eignarhald bréfa félagsins mun þróast.

„Þetta er það magnaða við hlutabréfamarkaði. Hlutabréfamarkaður gengur út á að fólk myndi sér skoðun á verði á hverju einasta augnabliki en bréfin eru að fullflytjanleg milli þessara tveggja markaða, og markaðurinn verður svo að skera úr um það hvernig hluthafaskráin lítur út,“ segir Árni. Í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann segir Árni að engin ákvörðun liggi fyrir um mögulega afskráningu félagsins á Íslandi.