Ef af verður mun framleiðslugeta Brauðs & Co aukast verulega. Um er að ræða 300 fermetra rými en vörur bakarísins seljast iðulega upp.
Ef af verður mun framleiðslugeta Brauðs & Co aukast verulega. Um er að ræða 300 fermetra rými en vörur bakarísins seljast iðulega upp. — Morgunblaðið/Eggert
Pétur Hreinsson peturh@mbl.is Bakaríið Brauð & Co stendur í viðræðum við Ó. Johnson og Kaaber um leigu á stóru framleiðsluhúsnæði í Kópavogi. Einnig stendur til að opna þar útsölustað sem verður sá fyrsti í því bæjarfélagi.

Viðræður standa nú yfir hjá bakarínu Brauði og & Co við Ó. Johnson og Kaaber, um leigu þess fyrrnefnda á framleiðsluhúsnæði þess síðarnefnda við Nýbýlaveg 18 en þar stendur nú kaffihús Kruðerís, sem hefur verið rekið af Kaffitári, sem aftur er í eigu Ó. Johnson og Kaaber. Þetta staðfesti Ágúst Fannar Einarsson, eigandi Brauðs & Co við ViðskiptaMoggann en um er að ræða 300 fermetra rými ásamt tækjum og tólum til baksturs. Ef af verður mun þetta rými að sögn Ágústs Fannars auka framleiðslugetu Brauðs & Co umtalsvert en fyrirtækið hefur hingað til verið með framleiðslu á fjórum stöðum sem hefur sett framleiðslu bakarísins skorður. Að sögn Ágústs hafa vörur fyrirtækisins oft verið uppseldar á „stórum dögum“.

„Ég er ekki að fara að taka baksturinn úr bakaríunum en mögulega að fara að framleiða einhverja vöruliði undir einu og sama þakinu, keyra þá í bakarí og baka þá þar,“ segir Ágúst Fannar.

Bakaríin verði sjö talsins

Óljóst er um nákvæma útfærslu en líklegt er að Brauð & Co muni opna þar útsölustað og deila rými með Kaffitári. Ef af verður mun Brauð & Co þar með opna sinn fyrsta útsölustað í Kópavogi. „Þetta verða tvö aðskilin fyrirtæki í sama rými og svipar til þess fyrirkomulags sem við höfum hjá Gló,“ segir Ágúst Fannar í samtali við ViðskiptaMoggann. Verður þetta þar með sjötti útsölustaður fyrirtækisins en einnig stendur til að opna útsölustað Brauðs & Co við Hrísateig í Laugardal í byrjun júlí. Þar eru framkvæmdir hafnar.

Brauð & og Co hefur vaxið afar hratt á síðustu árum. Rekstrartekjur fyrirtækisins í fyrra námu 707 milljónum króna í samanburði við 410 milljónir króna árið 2017. Félagið skilaði 7 milljóna króna hagnaði í fyrra í samanburði við 24,7 milljóna hagnað árið áður.