Úrslit.net hafa undanfarin ár veitt upplýsingar um nær alla knattspyrnuleiki.
Úrslit.net hafa undanfarin ár veitt upplýsingar um nær alla knattspyrnuleiki. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Úrslitaþjónustan Úrslit.net skipti á dögunum um eigendur. Áhersla er lögð á breikkun vöruúrvals og notendavænna viðmót.

Úrslitaþjónustan Úrslit.net sem sett var á laggirnir fyrir sjö árum hefur nú fengið nýja eigendur. Björn Þór Björnsson, Snorri Kristleifsson og bræðurnir Jóhannes og Steinn Þorkelsson hafa séð um rekstur úrslitaþjónustunnar undanfarin ár. Eigendaskiptin gengu í gegn á dögunum en fyrrgreindir aðilar höfðu séð um reksturinn síðustu fjögur ár. Nýir eigendur vefsíðunnar eru Sigurjón Jónsson, Ágúst Þór Ágústsson og Daði Laxdal Gautason.

Úrslit.net, sem notið hefur mikilla vinsælda meðal áhugafólks um íþróttir, er nú að skipta um eigendur í annað sinn. Mikill fjöldi fólks heimsækir síðuna á degi hverjum, en samkvæmt tölum frá Úrslit.net ríflega fimmfaldaðist fjöldi heimsókna á vefinn milli áranna 2014 til 2017. Alls námu heimsóknirnir á aðra milljón árið 2017 og ráðgera má að sú tala hafi hækkað talsvert síðustu 18 mánuði.

Talsverðar breytingar á döfinni

Sigurjón Jónsson, einn kaupenda Úrslit.net, segir að í farvatninu séu breytingar á vefnum. Þær felist einna helst í því að gera viðmót þjónustunnar notendavænna. „Við erum mjög ánægðir með kaupin og ætlum okkur að efla þá frábæru þjónustu sem Úrslit.net hefur veitt notendum sínum hingað til,“ segir Sigurjón og bætir við að á döfinni sé breikkun vöruúrvals, en hingað til hafa forsvarsmenn úrslitaþjónustunnar einblínt á að veita upplýsingar um knattspyrnuleiki. Að sögn Sigurjóns stendur til að breyta því en á næstunni er ráðgert að upplýsingar um fleiri íþróttir verði aðgengilegar á vefnum. „Það er í pípunum að bæta við fleiri íþróttum og nánari upplýsingum um kappleiki víðsvegar um heiminn,“ segir Sigurjón.