Töluvert hefur verið skrifað um ástæður þess að fyrirtæki fara á hausinn, bæði almennt og um fall einstakra fyrirtækja.

Töluvert hefur verið skrifað um ástæður þess að fyrirtæki fara á hausinn, bæði almennt og um fall einstakra fyrirtækja. Í fræðigreinum er markmiðið með skrifunum oftar en ekki að reyna að skilja undirliggjandi ástæður falls fyrirtækja með það að markmiði að geta reiknað gjaldþrotalíkur fyrirtækja í fullum rekstri.

Hagsveiflan hegðar sér á margan hátt líkt og öldurót í fjöruborði. Þótt lítil regla sé á stærð og tíðni öldutoppa þá er öruggt að á milli þeirra koma öldudalir, ýmist djúpir og langir eða stuttir og grunnir. Undanfarin ár höfum við búið við mikla uppsveiflu en nú er farið að harðna á dalnum og þótt erfitt sé að spá fyrir um það hversu stór öldudalurinn verður er ljóst að hann er þegar farinn að hafa afleiðingar, sem eiga eftir að fara vaxandi.

Í mikilli uppsveiflu er rekstur fyrirtækja frekar auðveldur og vandamálin oftar en ekki lúxusvandamál svo sem eins og að tryggja nægjanlega mönnun, gæta þess að taka ekki að sér meira en ráðið er við og tryggja tímanleg aðföng. Á slíkum tímum er auðvelt að missa fókusinn á hagkvæmni og viðskiptalíkan og ef gerð eru mistök gefst oftar en ekki gott ráðrúm til að leiðrétta þau. Þessu er hinsvegar yfirleitt öfugt farið í niðursveiflu, þar sem illa getur farið fyrir fyrirtækjum sem koma út úr góðærinu með of háan kostnað eða ólífvænlegt eða ekkert viðskiptalíkan.

Töluvert hefur verið skrifað um ástæður þess að fyrirtæki fara á hausinn, bæði almennt og um fall einstakra fyrirtækja. Í fræðigreinum er markmiðið með skrifunum oftar en ekki að reyna að skilja undirliggjandi ástæður falls fyrirtækja með það að markmiði að geta reiknað gjaldþrotalíkur fyrirtækja í fullum rekstri, en á slíkum útreikningum byggist meðal annars svokölluð lánshæfiseinkunn fyrirtækja. Gjaldþrotalíkur geta nefnilega verið til margra hluta gagnlegar, en meðal annars má nýta þær til að forðast að lána fyrirtækjum sem eru í hættu, til að meta áhættu heilla atvinnugreina eða sem ástæðu til að skoða vandlega eigin rekstur.

Í fræðilegum skrifum hafa ástæður fyrir falli fyrirtækja verið flokkaðar á ýmsa vegu, til dæmis í innri og ytri ástæður og ástæður sem hægt hefði verið að bregðast við og óviðráðanlegar ástæður. Það hefur þó gengið treglega að sýna fram á með óyggjandi hætti að einhver tiltekin flokkun auðveldi verulega eða geri áreiðanlegri útreikning á gjaldþrotalíkum. Það vill nefnilega þannig til að hjá raunverulegum fyrirtækjum er það iðulega flókið samspil ólíkra ástæðna sem veldur á endanum falli þeirra og oftar en ekki er það síðan samdráttur í hagkerfinu sem er kornið sem fyllir mælinn.

Þótt algengast sé að fyrirtæki falli vegna samspils ólíkra ástæðna kemur þó alltaf annað slagið fyrir að fyrirtæki falli fyrirvaralítið vegna einnar ástæðu, oft vegna alvarlegra stjórnunarmistaka, hamfara í ytra umhverfi, lögsókna eða óhappa. Það sem slík fyrirtæki eiga almennt sameiginlegt er að lítil eða engin merki um yfirvofandi vandræði er að sjá í uppgjörum fram að falli og því er erfitt að varast þau, en á móti kemur að þetta er tiltölulega sjaldgæft og síður tengt hagsveiflunni en hjá ofangreindum fyrirtækjum.

Það sem fyrirtæki eiga sammerkt sem á endanum falla vegna samspils margra ólíkra ástæðna er að merki um yfirvofandi vandræði byrja iðulega að koma fram í uppgjörum þeirra töluvert löngu áður en þau falla. Minnkandi tekjur, lækkandi arðsemi, minnkandi handbært fé, vaxandi skuldsetning og versnandi rekstrarfjármögnun eru þannig vísbendingar um versnandi stöðu og þegar þróunin er neikvæð yfir lengri tíma er ástæða til að hafa áhyggjur. Það er því almennt mikilvægt að fylgjast vel með eigin uppgjörum og uppgjörum annarra fyrirtækja sem skipta máli fyrir eigin rekstur og alveg sérstaklega mikilvægt þegar harðnar á dalnum.