Blikastaðir Hið nýja atvinnusvæði mun rísa við hliðina á Vesturlandsvegi, allt að 100 þúsund fermetrar. Mikil skógrækt er í hlíðum Úlfarsfellsins.
Blikastaðir Hið nýja atvinnusvæði mun rísa við hliðina á Vesturlandsvegi, allt að 100 þúsund fermetrar. Mikil skógrækt er í hlíðum Úlfarsfellsins. — Mynd/Reitir
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Reitir og Mosfellsbær undirrituðu fyrir helgina viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu atvinnusvæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reitir og Mosfellsbær undirrituðu fyrir helgina viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu atvinnusvæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ. Um er að ræða 15 hektara svæði sem afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðavegi og sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Reitir fasteignafélag er stærsta félagið í útleigu atvinnuhúsnæðis á Íslandi.

Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar er landnotkun svæðisins skilgreind sem blönduð landnotkun fyrir léttan iðnað, verslanir og þjónustustarfsemi. Svæðið liggur að fyrirhugaðri íbúðabyggð í Blikastaðalandi og gert er ráð fyrir að borgarlínan liggi í gegnum svæðið í framtíðinni.

Þegar svæðið verður að fullu uppbyggt má gera ráð fyrir því að húsnæði fyrir atvinnustarfsemi hafi tvöfaldast í Mosfellsbæ en aðalskipulag bæjarins gerir ráð fyrir að þarna geti risið allt að 100 þúsund fermetrar af húsnæði fyrir þjónustu og verslun. „Þetta svæði er afskaplega vel í sveit sett og vel staðsett og verður án efa mikil lyftstöng fyrir atvinnulíf í Mosfellsbæ sem og höfuðborgarsvæðið allt,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, í frétt á heimasíðu Reita.

„Atvinnukjarninn mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi en ekki síður vegna góðra tenginga við gatnakerfið og öflugar almenningssamgöngur seinna meir. Atvinnukjarni á Blikastöðum opnar nýjan möguleika í húsnæðismálum fyrir framsýn fyrirtæki og stofnanir. Viljayfirlýsingin í dag rammar inn þá vegferð sem nú er hafin og hlökkum við til samstarfsins við Mosfellsbæ,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita, í fréttinni.

Reitir eignuðust landið árið 2017. Seljendur voru Arion banki og LT lóðir ehf. og kaupverðið var 850 milljónir króna.

Nýtt Íslandsmet í þátttöku

Kosningu í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019 er lokið. Metþátttaka var í kosningunni sem stóð frá 17. til 28. maí eða 19,1% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi. Jafnvel gæti hér verið um heimsmet að ræða, sem ekki er þó staðfest. Tæplega 1.800 manns tóku þátt í kosningunni.

Hægt er að sjá yfirlit yfir öll verkefni og fylgjast með gangi framkvæmda inni á www.mos.is/okkarmoso. Þar er nokkur fjöldi verkefna sem fóru ekki í kosningu en munu samt sem áður fá verðskuldaða umfjöllun í stjórnkerfi bæjarins, segir á heimasíðunni.

Ærslabelgur á Stekkjarflöt fékk flest atkvæði eða 962. Skíða- og brettaleiksvæði í Ullarnesbrekku fékk 715, flokkunarruslafötur 646 og merkingar á toppum bæjarfella og fjalla 614 atkvæði.