Strætó mótar stefnu, en hvað með jarðtenginguna?

Um þrjú þúsund kvartanir hafa borist vegna starfsemi Strætó bs. á ári á síðastliðnum árum. Forsvarsmenn Strætó vilja reyndar frekar kalla þetta ábendingar, en þegar ábendingarnar snúa flestar að framkomu, aksturslagi og tímasetningum þá er sennilega óhætt að kalla þær kvartanir. Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi hefur vakið athygli á þessu og telur að pottur sé brotinn. Bendir meðal annars á að þetta sé tífalt hlutfallslega það sem þekkist í Lundúnum, sem verður að teljast allnokkuð og mun þá tæpast duga fyrir forsvarsmenn Strætó að benda á að þar séu vagnar rauðir og á tveimur hæðum, þó að ýmislegt sé tínt til í vörninni.

Á sama tíma og fréttir berast af þessu kynnir Strætó stefnumótun til næstu ára sem fyrirtækið vinnur nú að. Þar kemur meðal annars fram að gildi Strætó skuli vera þrjú, áreiðanleiki, samvinna og drifkraftur. Enn fremur að árið 2025 eigi Strætó að vera mikilvægur hlekkur í samgöngukeðju almennings, raunhæfur og mikilvægur valkostur á leið fólks í og úr vinnu.

Við þetta bætist að á vef Strætó er að finna ekki færri en 16 stefnur sem fyrirtækið hefur sett sér, þannig að ljóst er að ekkert vantar upp á stefnumótunina.

Á hinn bóginn virðist vanta nokkuð upp á jarðtenginguna þegar kemur að stefnumörkun fyrir Strætó. Fyrirtækið fékk fyrir allnokkrum árum mikið viðbótarfé til að fjölga þeim sem nýttu þennan ferðamáta. Árangur þeirra aðgerða hefur enginn orðið. Viðbrögð fyrirtækisins, og þeirra stjórnmálamanna sem bera ábyrgð á starfsemi þess, hafa verið þau að marka þá stefnu að setja margfalt meira fé í þessa starfsemi, stækka vagnana og fjölga þeim götum og akreinum þar sem þeir einir mega aka.

Getur nokkuð verið að þeir sem halda um stjórnvölinn hjá Strætó séu úti að aka?