Bensín Dropinn getur verið dýr.
Bensín Dropinn getur verið dýr. — Morgunblaðið/Kristinn
„Ég heyrði þessa auglýsingu fyrst á mánudag fyrir viku síðan [3. júní sl.

„Ég heyrði þessa auglýsingu fyrst á mánudag fyrir viku síðan [3. júní sl.] og svo héldu þeir áfram að birta hana og það þrátt fyrir að vera með fjórða lægsta verðið á tímabili,“ segir Jón Páll Leifsson, framkvæmdastjóri Dælunnar, við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til eldsneytisauglýsingar Atlantsolíu sem birt var á netinu. Þar sagði: „Lægsta eldsneytisverð landsins í Kaplakrika og á Sprengisandi.“ Auglýsing þessi er ekki lengur í birtingu á netinu.

Jón Páll segir auglýsinguna mjög villandi fyrir neytendur. „Atlantsolía hefur ekki boðið lægsta verð á Íslandi í að ég held níu ár,“ segir hann og bætir við að hann hafi leitað til Neytendastofu vegna auglýsingar Atlantsolíu.

Sama dag og Jón Páll segist hafa orðið var við auglýsinguna greindi mbl.is frá því að bensínstríð væri skollið á á höfuðborgarsvæðinu. Lækkaði þá Atlantsolía eldsneytisverð sitt á Sprengisandi til samræmis við verðið við Kaplakrika, sem lengi hefur verið lægsta verð fyrirtækisins, en sú stöð er mjög nálægt bensínstöð Costco. Í kjölfarið lækkuðu aðrar stöðvar.

Hjá Atlantsolíu fengust þær upplýsingar að auglýsingin væri farin úr birtingu. Er nú auglýst: „Lægsta verðið er hjá Atlantsolíu Kaplakrika og Sprengisandi.“