Munaðarvara? Túrtappar eru einn af þeim vöruflokkum sem væntanlega munu lækka í verði á næstunni í kjölfar lagabreytingarinnar.
Munaðarvara? Túrtappar eru einn af þeim vöruflokkum sem væntanlega munu lækka í verði á næstunni í kjölfar lagabreytingarinnar. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Samþykkt var að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum og getnaðarvörnum kvenna úr 24% í 11% á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum.

Baksvið

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Samþykkt var að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum og getnaðarvörnum kvenna úr 24% í 11% á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum. Nær frumvarpið til allra einnota og margnota tíðavara, svo sem dömubinda, túrtappa og tíðabikara auk allra tegunda getnaðarvarna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, aðalflutningsmaður frumvarpsins, segir lagabreytinguna nauðsynlegt skref til að jafna bilið milli kynjanna þegar kemur að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum.

Smokkar í lægra skattþrepi

Segir Þórhildur að með lögunum verði vörur af þessu tagi ekki lengur flokkaðar sem lúxusvörur. Hún segir þetta skref í að afnema hinn svokallaða „bleika skatt“, þ.e. þau gjöld sem konur greiði aukalega fyrir vörur og þjónustu sem karlar þurfi ekki að greiða. Þórhildur bendir á að nauðsynlegar hreinlætisvörur eins og bleyjur séu í lægra virðisaukaskattþrepi en dömubindi og að getnaðarvarnir karla hafi auk þess verið í lægra þrepi virðisaukaskatts en getnaðarvarnir kvenna um nokkurt skeið. Hún fagnar því að með lögunum verði aukið jafnrétti kynjanna hvað varðar getnaðarvarnir.

„Konur bera alla jafna ábyrgð á getnaðarvörnum. Því er um að gera að við njótum að minnsta kosti sömu skattakjara og karlarnir þegar kemur að þeim, þótt þær varnir séu almennt dýrari en karlanna,“ segir Þórhildur. „Auðvitað á þetta helst að vera ókeypis og ég vonast til að sjá einhverja þingmenn berjast fyrir því, sérstaklega þá sem höfðu áhyggjur af þungunarrofum kvenna. Aukið aðgengi að getnaðarvörnum mun væntanlega minnka þörfina á þeim.“

Þórhildur segir að frumvarpið hafi fengið góðar umsagnir, m.a. frá Femínistafélagi Háskóla Íslands. „Þar er meðal annars talað um það sem kallað er „túrfátækt“ sem felur í sér að konur sem eru tekjuminni eigi jafnvel erfitt með að taka þátt í athöfnum daglegs lífs á meðan þær eru á túr, vegna þess að vörurnar eru svo dýrar,“ segir Þórhildur. „Sömuleiðis eru getnaðarvarnir kvenna svo mismunandi og hafa misalvarleg áhrif svo konur þurfa stundum að fara í gegnum nokkrar til að finna getnaðarvörn sem hentar þeim og það getur verið kostnaðarsamt. Nú erum við að lækka kostnaðinn við þetta.“

Samstaða meðal þingmanna

Þórhildur segist hafa fundið fyrir mikilli samstöðu meðal þingmanna um frumvarpið. „Ég tók sterkt eftir því í annarri umræðu um málið fyrir helgi að mörgum þingmönnum fannst löngu kominn tími á að gera þetta og að margir furðuðu sig raunar á því að það væri ekki löngu búið að þessu. Það væri svo eðlilegt að hafa þetta jafnt. Við fögnum þessu bara. Það er mjög mikill stuðningur við þetta,“ segir Þórhildur. Hún tekur fram að gert sé ráð fyrir að lögin taki formlega gildi 1. september næstkomandi til að gefa þar til bærum aðilum rými til að bregðast við breyttu kerfi.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að áætlað tekjutap ríkisins vegna skattalækkunarinnar séu um 37,9 milljónir króna á ári vegna sölu tíðavara og 4 milljónir króna vegna getnaðarvarna en þar er tekið fram að á móti skili bætt lýðheilsa sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

Þriðja tilraun frumvarpsins

» Lagabreytingin felur í sér að allar tíðavörur og getnaðarvarnir færist úr efra í neðra þrep virðisaukaskatts.

» Þetta er í þriðja skipti sem frumvarp um skattalækkun á tíðavörum er lagt fram fyrir Alþingi. Róbert Marshall, fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar, lagði fyrst fram tillögu 2015, og Oktavía Hrund Jónsdóttir, varaþingkona Pírata, endurflutti málið 2017.

» Hingað til hefur virðisaukaskattur á tíðavörum verið einn sá hæsti í Evrópu.

» Með lögbreytingunni mun Ísland færast nær þeirri þróun í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum.