Með börnunum Sigfús, Alda, Dunna og Gréta ásamt Önnu á 80 ára afmæli hennar, árið 1998.
Með börnunum Sigfús, Alda, Dunna og Gréta ásamt Önnu á 80 ára afmæli hennar, árið 1998.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Helga Sigfúsdóttir fæddist 12. júní 1918 á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði sem var æskuheimili hennar. Hún var fjórða barn foreldra sinna en alls voru þau fjórtán systkinin.

Anna Helga Sigfúsdóttir fæddist 12. júní 1918 á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði sem var æskuheimili hennar. Hún var fjórða barn foreldra sinna en alls voru þau fjórtán systkinin.

Það var lítil skólaganga í boði, farandskóli sem hýsti nemendur sína í nokkrar vikur í senn. Kennsla fór fram á Kollsá, Kolbeinsá og svo í seinni tíma á Stóru-Hvalsá. Anna Helga fermdist á Prestbakka ári á eftir jafnöldrum því hún beið eftir Steingrími bróður sínum. Hún fór snemma að vinna, bæði heima á Hvalsá og svo var hún fengin að láni þar sem vantaði aðstoð, t.d. á Ljótunnarstöðum í sláturtíð og fleiri stöðum og fékk þá til dæmis flík að launum því ekki fékk hún kaup fyrr en við 18 ára aldur þegar hún var að vinna við þjónustustörf á Borðeyri.

Anna eignaðist sitt fyrsta barn, Grétu, í janúar 1943 og var á Stóru-Hvalsá í rúmt ár eftir það. Sumarið 1944 vann hún á Borgum og fór svo um haustið í Fornahvamm og var þar í eitt ár. Eftir það fór hún í Borgarfjörðinn að vinna sem ráðskona hjá Skrúði hf. í Reykholtsdal. Þar kynntist hún Jóni Rögnvaldssyni frá Þverdal í Saurbæ sem hún giftist og saman keyptu þau þriðjung í Skrúði hf. árið 1947. Þau eignuðust þrjú börn saman, Dunnu, Öldu og Sigfús.

Saman unnu Anna og Jón við garðyrkjuna, ræktuðu aðallega tómata í gróðurhúsunum en einnig gúrkur og annað grænmeti sem ræktað var utanhúss. Þegar Jón varð bráðkvaddur 18. desember 1959 voru þau að undirbúa að byggja ný gróðurhús og hélt Anna því áfram ein, hún byggði gróðurhúsin og vann af miklum dugnaði öll verk sem þurfti að vinna við rekstur garðyrkjustöðvarinnar. Þetta var hennar ævistarf sem hún vann við í 30 ár og þar af ein í tæplega 20 ár. Árið sem hún varð sextug flutti hún til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan.

Í Reykjavík vann Anna í leikskólanum Suðurborg þar til hún hætti að vinna þegar hún var 70 ára. Anna varð strax mjög virk í starfi eldri borgara í Gerðubergi og tók þátt í mörgu þar og um tíma voru þeir þrír kórarnir sem hún söng með. Hún hafði líka sungið í kirkjukór í Reykholti og blönduðum kór á meðan hún bjó í Skrúði enda hefur hún alltaf haft yndi af tónlist. Einnig hefur hún alltaf haft mikla ánægju af dansi, alveg frá því að hún var ung og þurfti að ganga eða fara á hesti langar leiðir á böllin og svo seinna dansaði hún á fullu í dansskóla Sigvalda í Reykjavík.

Fjölskylda

Eiginmaður Önnu var Jón Rögnvaldsson, f. 26.7. 1905, d. 18.12. 1959, garðyrkjubóndi. Foreldrar hans voru hjónin Rögnvaldur Jónsson, f. 11.9. 1864, d. 6.6. 1917, bóndi í Þverdal í Saurbæ í Dalasýslu og Guðrún Pálsdóttir, f. 4.10. 1873, d. 14.5. 1937, húsfreyja í Þverdal.

Börn: 1) Gréta Viðars Jónsdóttir, f. 30.1. 1943, fyrrverandi verslunarkona í Reykjavík. Maki: Guðjón Jónsson, f. 24.1. 1941, leigubílstjóri. Barnabörn: Jón Arnar Magnússon, f. 1964, Íris Hrönn Guðjónsdóttir, f. 1973, Óttar Orri Guðjónsson, f. 1977, Björn Ingi Guðjónsson, f. 1979; 2) Guðrún Rögn Jónsdóttir, f. 5.12. 1947, fyrrverandi félagsfræðingur í Reykjavík. Barnabörn: Anna Helga Bjarnadóttir, f. 1968, Inga Sif Kristjánsdóttir, f. 1972, Sindri Aron Viktorsson, f. 1988; 3) Sólbjörg Alda Jónsdóttir, f. 19.3. 1949, fyrrverandi móttökuritari í Reykjavík. Barnabörn: Ingirafn Steinarsson, f. 1973, Anna Dúna Steinarsdóttir, f. 1977; 4) Sigfús Kristinn Jónsson, f. 8.5. 1952, garðyrkjubóndi í Skrúði. Maki: Ragnhildur Guðnadóttir, f. 22.4. 1952, garðyrkjubóndi. Barnabörn: Ásdís Gunnarsdóttir, f. 1974, Anna Helga Sigfúsdóttir, f. 1979, Sigríður Hulda Sigfúsdóttir, f. 1982.

Systkini: Guðmundur, f. 1912, d. 2004, Hans Hallgrímur, f. 1913, d. 2008, Lárus, f. 1915, elstur núlifandi íslenskra karla, Steingrímur Matthías, f. 1919, d. 1976, Salóme Sigfúsa, f. 1920, d. 1920, Guðrún Sigríður, f. 1921, d. 1998, Eiríkur, f. 1923, d. 2008, Garðar, f. 1924, d. 1988, Haraldur Gísli, f. 1925, d. 2018, Sólbjörg, f. 1927, d. 1947, Guðbjörg María, f. 1929, d. 2004, Salóme Sigfríður, f. 1932, d. 2010, Þorbjörn Sigmundur, f. 1934, d. 2002.

Foreldrar Önnu voru hjónin Sigfús Sigfússon, f. 7.8. 1887, d. 29.1. 1958, bóndi á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði, og Kristín Gróa Guðmundsdóttir, f. 8.10. 1888, d. 15.2. 1963, húsfreyja á Stóru-Hvalsá.