Stoltenberg Í heimsókn sinni hér var hann á opnum fundi um samstarf Íslands og NATO.
Stoltenberg Í heimsókn sinni hér var hann á opnum fundi um samstarf Íslands og NATO. — Morgunblaðið/Hari
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Sá friður, sem ríkt hefur á Vesturlöndum undanfarin 70 ár er síður en svo sjálfsagður.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Sá friður, sem ríkt hefur á Vesturlöndum undanfarin 70 ár er síður en svo sjálfsagður. Atlantshafsbandalagið, NATO, stendur frammi fyrir nýjum áskorunum í breyttum heimi og horfast þarf í augu við það að aldrei verði komið að fullu í veg fyrir hryðjuverk.

Þetta segir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO í viðtali við Morgunblaðið, en hann var staddur hér á landi í gær í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Í viðtalinu ræðir hann meðal annars um hlutverk bandalagsins 70 árum eftir stofnun þess og mikilvægi Íslands fyrir samstarfið. Hann segir að ástand heimsmála sé brotakenndara og flóknara í dag en á tímum kalda stríðsins, þegar bandalagið var stofnað, og það sé ekki síst vegna framferðis Rússa. Beðinn um að lýsa sambandi NATO við Rússland segir hann að því verði best lýst með því að segja að það sé tvískipt. Sýna þurfi styrk, en á sama tíma vilja til að bæta samskiptin með samtölum.

Hann segir að í núverandi starfi sínu búi hann að þeirri sáru reynslu sem hann varð fyrir árið 2011 þegar hryðjuverkin voru framin í Útey og Ósló, þá var hann forsætisráðherra Noregs og vöktu æðrulaus viðbrögð hans og raunar allrar norsku þjóðarinnar aðdáun og virðingu víða um heim.

„Það er alveg klárt að okkar gildi eru betri en þeirra, frelsi er betra en helsi, lýðræði er betra en einræði og ástin mun alltaf sigra hatrið. Mér tókst að standa með eigin gildum þegar ég stóð frammi fyrir þessum hræðilegu atburðum árið 2011 og það eru þau skilaboð sem ég vil koma á framfæri sem framkvæmdastjóri NATO. Hryðjuverk eru grimmdarverk, þau eru skelfileg en þegar við stöndum frammi fyrir þeim þá virðist það besta í okkur koma fram; samstaða og kærleikur,“ segir Stoltenberg sem hefur deilt reynslu sinni og sýn með þjóðarleiðtogum í löndum þar sem hryðjuverk hafa verið framin.