Swedbank bættist núna síðast við hóp þeirra norrænu banka sem sakaðir eru um að hafa leyft grunsamlegum færslum að fara í gegnum útibú sín.
Swedbank bættist núna síðast við hóp þeirra norrænu banka sem sakaðir eru um að hafa leyft grunsamlegum færslum að fara í gegnum útibú sín. — AFP
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Norrænir bankar virðast hafa farið mjög óvarlega í viðskiptum sínum í Eystrasaltsríkjunum og beinast spjótin núna bæði að Nordea og Swedbank. Tíu manna teymi á að reyna að samræma aðgerðir gegn peningaþvætti innan ESB.

José Manuel Campa talaði tæpitungulaust í nýlegu viðtali við Financial Times. Hann sagði Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina (e. European Banking Authority, EBA) ekki hafa það umboð sem þarf til að geta stemmt stigu við peningaþvætti hjá evrópskum bönkum. Umboð EBA er þröngt afmarkað og snýr aðallega að því að samræma eftirlit innan álfunnar, en því fer fjarri að ríki Evrópu séu samstíga í því hvernig regluverki fjármálageirans er háttað og hvernig stofnanir haga eftirliti sínu.

Campa settist í forstjórastól EBA í maí og tekur ekki beinlínis við góðu búi. Evrópski bankageirinn er í uppnámi vegna meints 200 milljarða evra peningaþvættis hjá útibúi Danske Bank í Eistlandi og brestir eru að koma í ljós víða annars staðar. Þannig upplýsti Deutsche Bank fyrr í vikunni að alvarlegur galli hefði komið í ljós í kerfum sem áttu að skima eftir grunsamlegum færslum. Gallinn hafði leynst í eftirlitskerfi bankans í sex ár og uppgötaðist ekki fyrr en fyrir hálfu ári síðan. Blessunarlega virðist gallinn aðeins hafa náð til lítils hóps viðskiptavina bankans, og aðeins snert lítinn hluta af viðskiptum þeirra við útlönd, að því er FT greinir frá. Innra eftirlit bankans hefur fundið fleiri misbresti sem þykja svo alvarlegir að þeir gera peningaþvættisvarnir að engu fyrir tiltekin viðskipti. Telur eftirlitsteymi Deutsche að ágallarnir séu svo margir og alvarlegir að bankinn fullnægi hugsanlega ekki nýrri Evrópureglugerð, MLD4, sem sett var fyrir ári síðan til að efla varnir gegn peningaþvætti í álfunni.

Óvandaðir rússneskir viðskiptavinir

Fjárfestirinn Bill Browder gengur svo langt að segja að ballið sé rétt að byrja og að fleiri norrænir bankar en Danske hafi þvegið illa fengið fé.

Browder er einn af stofnendum sjóðsins Hermitage Capital Management og bakaði hann sér óvild rússneskra stjórnvalda á 10. áratugum fyrir að hafa margoft lekið í fjölmiðla upplýsingum um misferli bæði í einkaeiranum og hjá hinu opinbera. Rússnesk stjórnvöld vísuðu Browder úr landi árið 2005 með vísan til þjóðaröryggishagsmuna og voru uppspunnar sakir notaðar til að réttlæta húsleit á skrifstofu Hermitage í Moskvu tveimur árum síðar. Fljótlega þurfti Hermitage að halda uppi vörnum í undarlegu dómsmáli og lágu þá saman leiðir Browders og skattasérfræðingsins Sergei Magnitsky sem kafaði ofan í súpuna. Magnitsky svipti á endanum hulunni af víðtæku svindli embættismanna í samkrulli við rússneska mafíósa en uppskar það að vera stungið í fangelsi þar sem hann lét lífið undir grunsamlegum kringumstæðum, áður en mál hans var tekið fyrir. Browder hefur alla tíð síðan verið óþreytandi að þjarma að samverkamönnum óvina Magntisky og er um þessar mundir á ferðalagi um Norðurlönd til að þrýsta á embættismenn.

Browder lagði m.a. fram kæru á hendur finnska bankanum Nordea í október síðastliðnum. Hann vænir Nordea um að hafa leyft 234 milljóna dala virði af illa fengnu rússnesku fé að renna í gegnum útibú bankans í Finnlandi. Bráðabirgðaniðurstöður finnsku lögreglunnar benda hins vegar til að umrædd viðskipti hafi átt sér stað hjá útibúum Nordea í Litháen og Eistlandi, og því ekki finnskra yfirvalda að úrskurða í málinu. Þá séu meira en tíu ár liðin frá meintum brotum bankans og þau því fyrnd samkvæmt finnskum lögum, að því er Bloomberg greinir frá. Var kærunni á hendur Nordea vísað frá í gær.

Browder sakar einnig sænska bankann Swedbank um að hafa tekið þátt í að þvætta peninga sem tengdust Magnitsky-málinu, en hefur rekist á sams konar hindranir í Svíþjóð og í Finnlandi.

Swedbank virðist samt ekki ætla að sleppa jafn vel og Nordea og sætir núna rannsókn. Bloomberg segir grun leika á að jafnvirði allt að 100 milljarða dala af grunsamlegum færslum hafi fengið að streyma í gegnum Swedbank og nú síðast sakaði saksóknari í Svíþjóð Swedbank um að hafa leynt upplýsingum við rannsókn málsins. Bankastjóri Swedbank, Birgitte Bonnesen, tók pokann sinn í mars, og formaður stjórnar bankans fylgdi honum fast á hæla, mánuði síðar.

Carl Bildt, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar 1991 til 1994 og utanríkisráðherra 2006 til 2014 segir í viðtali við FT að þó að kastljósið hafi að undanförnu beinst að norrænum bönkum viti bankar annars staðar á Vesturlöndum upp á sig sökina. „Það sem gerðist í Svíþjóð og í Eystrasaltslöndunum eru bara smáaurar í samanburði við London. Var þetta allt illa fengið fé? Það er ekkert hægt að fullyrða um það. Á síðasta áratug 20. aldar var Rússland eitt stórt grátt svæði,“ sagði hann.

Byrji á skýrum, samræmdum reglum

Þó að greinilegt sé að bæði bankar og stjórnvöld í Evópu séu á varðbergi – og enginn vilji lenda í sömu sporum og t.d. Thomas Borgen, fyrrverandi bankastjóri Danske, sem fékk að vita það fyrr í mánuðinum að hann væri ákærður fyrir aðild sína að meintu peningaþvætti bankans – þá er ljóst að sameiginlegar stofnanir Evrópu eru ekki burðugar þegar kemur að samræmdu eftirliti með peningaþætti. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, er t.d. tiltölulega smá stofnun með um 160 starfsmenn. Fær EBA að ráða tíu manns til viðbótar til að vinna að samræmingu peningaþvættiseftirlits í Evrópu.

Campa hjá EBA segir gallann við regluverk ESB að aðildarríkjum sé veitt of mikið svigrúm þegar kemur að túlkun reglugerða, og áður en væri hægt að hefja vinnu við að t.d. koma á laggirnar nýrri samevrópskri eftirlitsstofnun þyrfti að breyta lagarammanum. „Það sem þarf, fyrst af öllu, er að samræma,“ segir hann. „Eftirlit með peningaþvætti hjá löndum ESB byggir á reglugerðum sem, eðli málsins samkvæmt, þýðir að útfærslurnar eru ekki þær sömu alls staðar. Ef nákvæmlega sömu reglur gilda í öllum löndum, þá fyrst má fara að skoða hvort ein stofnun ætti að vakta málaflokkinn.“