Marel telur um 40% af íslensku kauphöllinni og taldi Árni að rökrétt skref væri að skrá félagið á markað erlendis.
Marel telur um 40% af íslensku kauphöllinni og taldi Árni að rökrétt skref væri að skrá félagið á markað erlendis. — Ljósmynd/Sveinbjörn Úlfarsson
Pétur Hreinsson peturh@mbl.is Íslenska fyrirtækið Marel var tekið til viðskipta í Euronext-kauphöllinni í Amsterdam á föstudaginn síðastliðinn, sem stofnuð var árið 1602. Stefnt hefur verið að skráningunni í langan tíma að sögn Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra félagsins, sem segir Marel leika mikilvægt hlutverk á tímum örrar fólksfjölgunar þar sem lykilatriði er að auka nýtingarhlutfallið í matvælaframleiðslu á heimsvísu.

Pétur Hreinsson

peturh@mbl.is

Íslenska fyrirtækið Marel var tekið til viðskipta í Euronext-kauphöllinni í Amsterdam á föstudaginn síðastliðinn, sem stofnuð var árið 1602. Stefnt hefur verið að skráningunni í langan tíma að sögn Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra félagsins, sem segir Marel leika mikilvægt hlutverk á tímum örrar fólksfjölgunar þar sem lykilatriði er að auka nýtingarhlutfallið í matvælaframleiðslu á heimsvísu.

Hægt er að færa góð rök fyrir því að föstudagurinn 7. maí árið 2019 sé á meðal stærstu daga í 40 ára sögu íslenska fyrirtækisins Marels sem þann dag var skráð á markað í Amsterdam í 417 ára gamalli kauphöllinni þar í borg, sem nú er kennd við Euronext. Aldrei fyrr höfðu jafn tíð viðskipti með hlutabréf félagsins átt sér stað og þennan dag og veltan nam tæplega 31 milljón evra, eða um 4,3 milljörðum króna. Aðdragandinn hefur verið langur. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, kom fyrst að fyrirtækinu árið 2004, þá sem fjárfestir, en varð stjórnarformaður ári síðar. Strax á þeim tíma var skráning á erlendan markað á dagskrá. 19 árum síðar sló Árni í gongið í kauphöllinni í Amsterdam sem stofnuð var af hollenska Austur-Indíafélaginu. Þó ekki í það mitt þrátt fyrir að slíkt geti verið freistandi því þá yrði ekkert hljóðið heldur utar og heyrðust lætin út um alla kauphöll við mikinn fögnuð viðstaddra. Sem var kannski táknrænt því viðskiptin með bréf félagsins sem stóðu fjárfestum í Amsterdam til boða fóru af stað með látum og hækkuðu fljótt upp úr 3,7 evru útboðsgengi um 8% og yfir 4 evrur.

Eftir lokun markaða á fyrsta viðskiptadegi nam gengi bréfa Marels um 3,9 evrum eða um 5% yfir útboðsgenginu. Efst í huga Árna á þessum tímamótum er gríðarlegt þakklæti.

„Þakklæti til starfsmanna og viðskiptavina félagsins. Án þeirra væri þetta ævintýri, sem vöxtur og velgengni Marels er, ekki mögulegt. Einnig mikið þakklæti til hluthafa sem hafa stutt vel við félagið í gegnum árin og notið ríkulegrar ávöxtunar. Það er okkur mikil ánægja að bjóða nýja hluthafa velkomna í hópinn.“

Stöðugt minnt á upprunann

Í samtali við ViðskiptaMoggann steig Árni þó varlega til jarðar þegar hann var spurður hvort um stærsta dag í sögu fyrirtækisins væri að ræða. Það væri ávallt nútíminn sem skipti mestu máli hverju sinni.

„Við skulum fyrst líta til þess að við byrjuðum sem rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands í samvinnu við íslenska fiskvinnslu fyrir um 40 árum. Það sem hefur áorkast síðan þá er að nýtingarhlutfallið í fiskvinnslum á Íslandi hefur hækkað úr 60% í 80%. Sem þýðir að við þurfum að veiða þrjá fiska í staðinn fyrir fjóra til að fæða sama fjölda. Næsta stóra skref var stigið þegar fyrirtæki utan um Marel var stofnað árið 1983 og ímyndaðu þér hversu stórir sigrarnir voru sem unnust á þeim tíma þegar tveimur árum seinna er farið í útrás til Kanada að stofna söluskrifstofu. Og síðar til Noregs og Rússlands. Síðar meir, til þess að flýta því að verða alþjóðlegur leiðtogi, höfum við notað yfirtökur og samþætt meðal annars Scanvaegt í Danmörku og Stork Food Systems í Hollandi, og haldið áfram á okkar braut að bjóða upp á heildarlausnir í kjöti, kjúklingi, og fiski. Það eru því margir stórir dagar í sögu Marels en vissulega er þetta mikill áfangi að skrá okkur í alþjóðlega kauphöll,“ segir Árni og bætir því við hversu hollt það hafi verið Marel að fá sýn utanaðkomandi fjárfesta á fyrirtækið. Glöggt er gestsaugað.

„Í ferlinu öllu vorum við stöðugt minnt á uppruna okkar og af hverju við erum að gera þetta. Það eru margir heillaðir af sögu Marels og það er ekkert skrýtið,“ segir Árni.

Talið berst nú að máli málanna; skráningu Marels í Amsterdam. Árni byrjar þó að taka það fram hversu vel íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi stutt við Marel. Hvetur hann raunar þau félög sem eru mögulega að skoða skráningu eindregið að gera það. Það auki agann í rekstri en gefur félögum ekki síst tækifæri til þess að nota ekki einungis skuldsetningu við yfirtökur og vöxt heldur geti þau þannig haft sterkt eiginfjárhlutfall og sveigjanleika til vaxtar.

„Það hefur reynst Marel mjög vel. Nú er það einfaldlega svo að við höfum vaxið þannig að við teljum hátt í 40% af íslensku kauphöllinni. Við erum orðin hlutfallslega of stór fiskur í lítilli tjörn. Við höfum séð það oft í sögunni að það er ekki hollt fyrir neinn, hvorki okkur né hagkerfið. Það er skref í áhættuminnkun fyrir Ísland og tæki og tól fyrir okkur að halda áfram að vaxa að horfa út á við,“ segir Árni.

Frumkvöðlarnir lögðu sterkan grunn

En hvers vegna er mikilvægt að hafa alþjóðleg hlutabréf í höndunum? Eftir hlutafjárútboðið þar sem boðnir voru til sölu 100 milljón nýir hlutir, sem samsvara 15% af útgefnu hlutafé, eru alþjóðlegir fjárfestar nú orðnir eigendur að 30% hlutafjár í Marel. Stærstir eru hornsteinsfjárfestarnir í nýafstöðnu útboði, Blackrock, stærsti fjárfestir í heimi, og Robotics-sjóðurinn hjá Credit Suisse eftir því sem heimildir ViðskiptaMoggans segja.

„Stór hluti af okkar vexti er að sameinast öðrum félögum eða taka þau yfir. Þetta eru mjög oft fjölskyldufyrirtæki þar sem þriðja kynslóðin er að reka félögin. Þetta eru mjög oft fyrirtæki sem voru stofnuð af öfum og ömmum núverandi eigenda, stuttu eftir seinni heimsstyrjöld, um 1950. Þessi félög eru mun minni en Marel. Þau eru kannski með um 30-200 milljónir evra í veltu. Þau eru kannski með mjög góða vöru en ekki heildarlausn. Mjög góða vöru sem passar inn í vöruframboð okkar sem viljum bjóða upp á heildarlausn,“ segir Árni og heldur áfram.

„Markaðurinn er að breytast mjög mikið. Nýir virkir neytendur eru að koma inn á markaðinn í Suður-Ameríku, Asíu, Kína og Afríku. Þessar breytingar gera það að verkum að þessi fyrirtæki standa nú frammi fyrir þeirri áskorun að þau verða að stækka til að geta þjónað stækkandi markaði. Á þeim tímamótum er gott að sameinast fyrirtæki eins og Marel sem hefur alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sem hefur verið byggt upp á síðustu áratugum og nær í dag til allra heimshorna. Þessi minni fjölskyldufyrirtæki hafa það ekki heldur nota þau umboðsmenn og það verður bara að segjast að umboðsmenn eru ekki góðir þjónustuaðilar,“ segir Árni en raunar eru 35% af tekjum Marel í dag þjónustutekjur og hefur það hlutfall farið vaxandi undanfarin ár.

„Viðskiptavinir okkar meta gæði lausna okkar, áreiðanleika lausna okkar og hversu vel við getum þjónustað þær. Ímyndaðu þér flæðilínu þar sem 15 þúsund kjúklingar renna í gegn á einni klukkustund og kostnaðinn sem myndast ef flæðið stoppar. Við verðum að vera með góða þjónustu sem er nálægt viðskiptavinum okkar og þess vegna telja þessi fjölskyldufyrirtæki mjög gott að sameinast Marel og okkar alþjóðlega sölu- og þjónustuneti. Án þessarar tengingar við það er ekki hægt að halda áfram með það sem afinn og amman stofnuðu á sínum tíma,“ segir Árni og nefnir auk kynslóðaskiptanna og alþjóðavæðingarinnar hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu eða hina stafrænu byltingu. Marel fjárfestir á hverju ári um 6% í nýsköpun sem m.a. er nýtt í að undirbúa fyrirtækið fyrir fjórðu iðnbyltinguna. Það geta fjölskyldufyrirtækin ekki gert ein síns liðs að mati Árna. Hann vísar á ný í uppruna Marels og Sjóvogina, fyrstu vöruna sem Marel kom á markað, sem gat vigtað afla sjómanna á hafi úti og þótti mikil bylting.

„Við verðum að muna að Marel var stofnað í Háskóla Íslands. Sjóvogin var ekki bara að mæla augnablikin, heldur safna gögnum, dreifa gögnum og nota gögnin, sem er það sem kallast „internet of things“ í dag þar sem allir hlutir eru tengdir og safna gögnum. Frumkvöðlarnir í Marel lögðu mjög sterkan grunn fyrir framtíðina og voru í raun langt á undan sínum tíma. Þessi gagnaöflun og áhersla á hana er grunnurinn að því sem Marel er í dag,“ segir Árni.

Sami flokkur bréfa

Spurður á ný um skráningu Marels á markað og hversu stór hluti bréfa Marels verður í eigu fjárfesta í Amsterdam miðað við Reykjavík segir Árni mikilvægt að hafa í huga að sami flokkur hlutabréfa verður í Amsterdam og Reykjavík. Ekki er um að ræða skráningu á afleiðum eins og mörg félög hafa ákveðið að gera.

„Þetta er sami flokkur bréfa með sömu réttindi og þau eru fullflytjanleg á milli markaða. Fyrir 18 mánuðum var einungis 3% alþjóðlegt eignarhald í Marel. Fyrir skráninguna voru það tæp 15%. Eftir útboðið er það nálægt 30%. Íslenskir fjárfestar eiga 45%, þeirra á meðal eru lífeyrissjóðirnir, fjárfestasjóðir og einstaklingar sem hafa fylgt okkur lengi. Ein fjölskylda hefur til dæmis verið í hluthafahópnum frá árinu 1992. Eyrir Invest á svo 25% hlut í félaginu en samanlagt frjálst flæði bréfa fyrir utan kjölfestufjárfestinn er 75%,“ segir Árni sem segir að tíminn einn muni leiða í ljós hvernig eignarhaldið muni þróast.

„Þetta er það magnaða við hlutabréfamarkaði. Hlutabréfamarkaður gengur út á að fólk myndi sér skoðun á verði á hverju einasta augnabliki en bréfin eru að fullflytjanleg milli þessara tveggja markaða, og markaðurinn verður svo að skera úr um það hvernig hluthafaskráin lítur út,“ segir Árni.

Hin nýju hlutabréf í Marel eru öll skráð í Amsterdam og segir Árni að starfsfólk Marels hafi legið lengi og vel yfir ákvörðuninni um fjöldann sem gefa átti út. 15% taldi Árni aftur á móti nauðsynlegt til þess að tryggja verðmyndun og viðskipti með bréfin. Spurður hvort verðmyndun með bréfin verði ekki virkari í Amsterdam heldur en á Íslandi segir Árni:

„Aðgengi erlendra fjárfesta er takmarkað að Íslandi. Það er bara þannig. Við erum því miður flokkuð sem „frontier“ markaður. Næsta stig er „developing“ markaður. Svo er það þróaður markaður. Það er í rauninni alveg óskiljanlegt að við séum flokkuð þannig ennþá þegar fólk gengur um götur Reykjavíkur og sér hversu framarlega þjóðin er. Enda býst ég nú við því að það muni breytast fljótlega. Markaðurinn í Amsterdam er alþjóðlegur með að meðaltali 90% alþjóðlegu eignarhaldi á meðan markaðurinn í Reykjavík hefur 10% alþjóðlegt eignarhald,“ segir Árni. Spurður hvort verðmyndunin gæti orðin frábrugðin á milli þessara tveggja markaða segir Árni:

„Almennt séð þá vinna fjölmargir á fjármálamarkaði. Ef það eru hagnaðarfæri án þess að taka áhættu, að kaupa og selja samtímis, þá gerist það óskaplega fljótt og verðið jafnast því fljótt á milli markaða,“ segir Árni. Hann segir Blackrock og Credit Suisse vera langtímafjárfesta sem muni eiga um 3-4% í Marel eftir hið nýafstaðna útboð. Aðrir nýir hluthafar eru einnig virkir og þekktir langtímafjárfestar. Kvikari fjárfestum fjölgaði einnig og loks þrefaldaðist einnig sá fjöldi einstaklinga sem eiga í Marel, sem eru nú 7.500 manns, bæði Íslendingar og Hollendingar.

Fóru óvanalegri leið

Marel hélt nokkuð þétt að sér spilunum er varðaði valið á erlendri kauphöll. Árni segir þó að Amsterdam hafi verið nokkuð augljós kostur. Til að mynda vinni einn þriðji hluta starfsmanna Marels í Hollandi og þá eru hlutabréfin hér skráð í evrum, en evra er uppgjörsmynt Marels.

„Við fórum óvanalegri leið. Við báðum ekki um kynningar heldur réðum við alþjóðlega og óháða ráðgjafa með okkur. Við sendum spurningalista sem við vildum svör við til allra kauphallanna og síðan fórum við að tala við bankann og aðra ráðgjafa og þrengdum valkostina, skref fyrir skref. Niðurstaðan var val á milli þriggja frábærra kauphalla í Danmörku, London og Amsterdam þar sem Amsterdam varð að lokum fyrir valinu. Til að bæta við þá hef ég sjálfur verið að vinna og verið með annan fótinn í Hollandi síðan 2006. Fjölskyldan hefur verið mikið hérna. Ég get alveg sagt að það er léttir að hafa valið Amsterdam þegar við ákváðum það. Það er að verða okkur nokkuð kært að vera hér eins og það er nú sætt að komast heim til Íslands líka,“ segir Árni.

Eins og áður segir hefur skráning í erlenda kauphöll lengi verið að dagskrá hjá Marel. Í ljósi þess að nú hefur alþjóðlegt eignarhald í Marel vaxið úr 3% í 30% á 18 mánuðum mætti halda að það hafi verið ákveðinn þröskuldur sem Marel hafi þurft að fara yfir til þess að virkja alþjóðlega fjárfesta. Árni tekur undir það að vissu leyti en leggur áherslu á að Marel hafi þurft að sýna þolinmæði.

„Kauphöllin á Íslandi er býsna góð kauphöll. Ég varð stjórnarformaður Marels 2005 og skráning á erlenda markaði hefur alla tíð verið á dagskrá. Núverandi stjórn Marels hefur svo verið mjög áfram um að hleypa þessu verkefni af stokkunum og undanfarin tvö ár hefur stjórnin unnið náið með framkvæmdastjórn Marels að þessu verkefni. Síðan árið 2005 hefur ýmislegt gerst. Marel hefur haldið áfram að vaxa og Marel hefur áfram skilað verðmætum. Það kom fjármálakreppa árið 2008 og 2009, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan. Það kom olíu- og matvælakreppa árið 2013 þegar olíuverð sexfaldaðist og kornverð hækkaði einnig mikið, sem er okkar meginuppistaða í að búa til kjöt, kjúkling og fisk. Samt sem áður hefur Marel haldið áfram að vaxa innri vexti um 6% á ári. Þrátt fyrir þetta framboð hefur jafnvægi í heimsbúskapnum aukist. Það er meira af virkum neytendum að koma inn og þörfin hefur aldrei verið meiri fyrir lausnir Marels. Það þarf samt að sýna þolinmæði og velja tímana þegar þeir eru réttir. Við teljum núna 40% af kauphöllinni heima og teljum þetta vera mjög rökrétt,“ segir Árni.

Spurður hvort útilokað sé að Marel verði afskráð úr kauphöllinni Íslandi segir Árni enga ákvörðun um það liggja fyrir.

„Við erum með mjög sterka hluthafa sem hafa verið að styðja við vöxt Marels. Nú var verið að tvíhliðaskrá og margir spurðu af hverju við afskráðum ekki bara félagið og skráðum erlendis. Það er valkostur hluthafa hverju sinni. Í dag er hluthafaskiptingin þannig að Eyrir Invest er kjölfestufjárfestir með 25%. Síðan eru 30% alþjóðafjárfestar sem eru margvíslegir, og síðan eru íslenskir lífeyrissjóðir og almenningur. Þeir hafa líka margvíslegar skoðanir. Annars myndu ekki eiga sér stað viðskipti á hlutabréfamarkaði. Það er engin ákvörðun um það á þessum tímapunkti. Það er tvíhliðaskráning og það mikilvægasta er að það er einn flokkur hlutabréfa. Ekki afleiða heldur einn flokkur hlutabéfa sem getur gengið frjálst fram og til baka. Síðan verðum við bara að sjá hvernig þróunin verður. Hún fer bara eftir því hvað hluthafar kjósa hverju sinni. Okkar vinna í að undirbúa þetta er að það eigi ekki að skipta máli hvor kauphöllin það er. Okkur er mjög umhugað um jafna upplýsingagjöf til hluthafa og að viðskipti séu byggð á sanngjörnum grunni,“ segir Árni.

Regluverkin orðin líkari

Spurður út í það hvort hertari kröfur til upplýsingagjafar eigi nú við um Marel eftir skráningu félagsins í Amsterdam segir Árni að regluverkið á Íslandi sé öflugt.

„Það eru allar kauphallir að verða mjög svipaðar. Við erum með leiðbeinandi reglur um stjórnskipan frá OECD. Ég kom nú fyrst sem stjórnarmaður í ýmsum félögum hér í Hollandi árið 2006. Það hefur margt breyst í Hollandi og það hefur margt breyst á Íslandi. En við höfum alltaf verið að færast nær og nær hvort öðru. Regluverkið á Íslandi er mjög sterkt og gott. Stundum finnst mér að framkvæmd reglnanna megi vera skýrari og skorinorðari á Íslandi af því að við leggjum okkur mikið fram við að vera innan rammans. En regluverkið á Íslandi er bara í línu við Norðurlönd. Norðurlönd og Holland eru mjög keimlík,“ segir Árni.

Inntur eftir því hvort alltaf hafi staðið til að ráðast í hlutafjárútboð samhliða skráningunni í Hollandi segir Árni að erfitt sé að gera það öðruvísi.

„Við mátum það sem svo að við þyrftum að gefa út 15% hlutafjáraukningu. Það er svolítið vel í lagt ef við horfum á gríðarlega sterka stöðu Marels og áframhaldandi sterkt sjóðstreymi en það þýðir hins vegar að fjárfestar verða að spyrja tveggja spurninga. Mun framkvæmdastjórninni og starfsfólki Marel takast að halda áfram að vaxa, taka yfir fyrirtæki og nota fjármagnið sem það hefur í höndunum? Hin spurningin er mun framkvæmdastjórnin og og munu stjórnendur félagsins halda áfram að sýna aga í yfirtökum? Þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Þetta eru lykilspurningar og við höfum opin stjórnkerfi. Æðsta valdið er hjá hluthöfum. Við birtum uppgjör ársfjórðungslega og síðan höfum við hluthafafundi. En ég held að þetta séu tvær lykilspurningar sem hluthafar munu spyrja okkur að,“ segir Árni og ítrekar á ný meginstefið í starfsemi Marels.

„Við erum með fullan fókus á það verkefni að halda áfram að umbreyta matvælaframleiðslu á heimsvísu í samvinnu við okkar viðskiptavini um allann heim. Starfsfólk Marels út um allan heim er að gera stórkostlega hluti sem gera matvælavinnslu skilvirkaði, hagkvæmari og sjálfbærari á heimvísu,“ segir Árni.

Ástæðan fyrir því að Marel er til

Dagskráin var að vonum stíf hjá Árna í Amsterdam. Eftir skráninguna tók hvert viðtalið á fætur öðru við. En mikill áhugi erlendis kemur honum ekki á óvart í ljósi þess sem Marel stendur fyrir. Að auka nýtingarhlutfall í matvælaiðnaði í heimi þar sem fólksfjölgun verður sífellt meiri.

„Það sem er að gerast í kjölfar samfélagsmiðla er að neytendur og almenningur eru að verða sífellt upplýstari. Við sjáum núna fréttaflutning af plastsjó úti um allt. Við verðum að ganga betur um auðlindir jarðar. Meginstef Marels er að auka nýtingarhlutfall í matvælaiðnaði. Minnka notkun á vatni og orku, og gera matvæli hagkvæmari í innkaupum. Fólk er að flytja úr sveit í borg. Eðlilega vekur þetta mikla athygli. Því til viðbótar er rekstur Marels traustur og fjárhagurinn og sjóðstreymið firnasterkt. Þegar þú hefur góða sögu fram að færa sem leiðir til góðs og hefur gert það skref fyrir skref, þá eðlilega hefur slíkt félag miklu meira aðdráttarafl en meðalfélag,“ segir Árni.

„Við jarðarbúar erum að upplifa stórkostlegar breytingar. Þegar afi minn fæddist árið 1892 vorum við einn milljarður manna. Nú erum við 7,5 milljarðar manna. Það búa fleiri í borg en í sveit í dag. Þegar þú flytur í borgina þarftu að kaupa mat. Verða fjölskyldunni úti um húsaskjól og mennta börnin þín. Við erum að vinna í því að nýta auðlindir jarðar betur,“ segir Árni.

Eitt af 17 sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna snýr að sjálfbærum neyslu- og framleiðsluháttum þar sem markmiðið er að helminga matarsóun fyrir árið 2030. Aðspurður segir Árni að Marel leiki þar lykilhlutverk en að jafnvel þó að mikill árangur hafi náðst á kjöt- kjúklinga- og fiskmarkaðanum, sem veltir um 1.200 milljörðum evra að meðaltali á ári þegar miðað er við neysluverðmæti, þá er áætlað að um 1/3 af þeirri tölu endi í ruslinu.

„Sóunin á sér stað í virðiskeðjunni og sóunin á sér stað heima hjá neytendum. Það verða allir að sýna ábyrgð. Ég hef hins vegar oft gagnrýnt það þegar er verið að tala um að neytendur sói miklu. Segjum t.d. að þú farir út í búð heima á Íslandi á fimmtudegi og kaupir bláber og sért búinn að bjóða vinum þínum í kvöldmat á laugardegi. Þegar þú ætlar svo að láta bláberin ofan á kökuna þá eru þau ekki í lagi. Það er ekki sóun neytandans. Það er virðiskeðjan sem klikkaði. Þetta er það sem við erum að vinna að. En neytandinn vill vita hvaðan varan er, hvernig varan ferðaðist, hvert næringarinnihald vörunnar er og hvað hann þarf að borga fyrir hana,“ segir Árni.

Hann nefnir hestafárið svokallaða í Evrópu frá árinu 2013, sem dæmi um það sem getur farið úrskeiðis og vinna þurfi gegn, þar sem matur var auglýstur sem nautakjötsafurð en innihélt í raun, stundum að öllu leyti, hrossakjöt í stað nautakjöts.

„Það eru nánast allir í þessari iðngrein og öðrum iðngreinum að leggja sitt af mörkum um að vera heiðarlegir og gera sitt besta. Því miður er alltaf einhver sem svindlar. Ímyndaðu þér tjónið í allri virðiskeðjunni þegar fólk hætti að borða lasagna sem búið var að búa til. Ef þú hefðir haft rekjanleika, sem við getum gert í Marel, til að sýna fram á að varan þín var upprunaleg og samkvæmt innihaldslýsingu þá hefðirðu forðað tjóni,“ segir Árni.

Spurður út í það hvort helstu ógnir Marels snúi hugsanlega að því hversu óumhverfisvæn kjötframleiðsla virðist vera samkvæmt ýmsum rannsóknum segir Árni:

„Það er nú ástæðan fyrir því að Marel er til. Við erum að nýta afurðina sífellt betur. Hvernig stendur á því, ef það er óumhverfisvænt að búa til nautakjöt, í heildina, en við viljum samt ná kreatíninu, próteinunum, kollageninu úr því og auk þess sem það er frábær matur, að við notum hluta af framleiðslunni í heiminum í dýrafóður? Það er af því að menn eru ekki að samþætta virðiskeðjuna. Marel er með tæki og lausnir til þess að mæla fituinnihald, til að finna bein og búa til frá upphafi til enda úrvalshamborgara sem þú getur t.d. keypt í Melabúðinni, eða á Hamborgarabúllunni,“ segir Árni.