Forritið Oft er hægara sagt en gert að finna góðan mat á flugvöllum.

Forritið Oft er hægara sagt en gert að finna góðan mat á flugvöllum. Enda eru flugstöðvar risavaxin mannvirki og jafnvel ef ferðalangur veit að þar leynist veitingastaður sem selur þann mat sem mallinn kallar á, þá er allt eins líklegt að veitingastaðurinn sé á hinum enda flugvallarins, og heljarinnar ferðalag að ætla að arka þangað. Tíminn er yfirleitt af skornum skammti þegar út á flugvöllinn er komið og betra að spara orkuna og forðast óþarfa span á milli flugstöðvarbygginga með handfarangurinn í eftirdragi.

AtYourGate býður upp á áhugaverða lausn en um er að ræða n.k. heimsendingarforrit fyrir flugvelli.

Hvort sem notandinn vill fá eitthvað gott í gogginn, kaupa tímarit til að lesa í fluginu, ellegar vantar trefil fyrir kaldan áfangastað, þá má panta það allt í gegnum AtYourGate og fá sent upp að hliði.

Eins og stendur er þessi þjónusta aðeins í boði á sex flugvöllum í Bandaríkjunum. Þar af eru nokkrir flugvellir sem tengjast Íslandi, s.s. Portland, Minneapolis/St. Paul, Newark og flugstöðvar 7 og 8 á JFK (Icelandair notar 5 og 7 en Delta notar 2 og 4). ai@mbl.is