[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Í dag er ár liðið frá fyrsta fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með Kim Jong-un, leiðtoga einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu, þegar þeir hétu því að vinna að kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Í dag er ár liðið frá fyrsta fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með Kim Jong-un, leiðtoga einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu, þegar þeir hétu því að vinna að kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga. Fátt bendir til þess að fundurinn hafi verið jafnmikið afrek og Trump lét í veðri vaka, að mati stjórnmálaskýrenda sem telja að vonirnar sem forsetinn og fleiri bundu við leiðtogafundinn hafi verið óraunhæfar og einkennst af óskhyggju.

„Strax eftir leiðtogafundinn í Singapúr reið yfir okkur bylgja óraunhæfra væntinga, næstum því hjákátlegra,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Andrei Lankov, sérfræðingi í málefnum Kóreuríkjanna og prófessor við Kookmin-háskóla í Seoul. „Svo gerðu menn sér grein fyrir því sem hefur alltaf verið augljóst – Norður-Kóreumenn ætla ekki að afsala sér kjarnavopnum.“

Undarleg ofurbjartsýni

Fundinum í Singapúr lauk með því að leiðtogarnir undirrituðu yfirlýsingu með mjög óljósu loforði um að löndin ynnu að „algerri kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga“. Trump lýsti árangrinum af viðræðunum sem miklu afreki og sagði jafnvel eftir leiðtogafundinn að engin hætta stafaði lengur af kjarnavopnum Norður-Kóreu.

Fyrir fundinn hafði Trump lýst sér sem afburðasnjöllum samningamanni. Hann kvaðst telja að Kim hefði verið „mjög hreinskilinn“, „mjög heiðvirður“ og „mjög einlægur“ í viðræðunum um afvopnun. Hann talaði um að samband sitt við einræðisherrann í Norður-Kóreu væri „dásamlegt“ og stuðningsmenn hans sögðu að forsetinn hefði náð meiri árangri gagnvart Norður-Kóreu með tísti sínu og stóryrðum á Twitter en forverar hans með hefðbundnari aðferðum síðustu áratugi. Fylgismenn hans í Bandaríkjunum voru farnir að tala í spjallþáttum sjónvarps- og útvarpsstöðva um að Trump verðskuldaði friðarverðlaun Nóbels fyrir að knýja einræðisherrann að samningaborðinu.

Þessi ofurbjartsýni í aðdraganda leiðtogafundarins var furðuleg í ljósi sögu einræðisstjórnar Norður-Kóreu sem gerði tvo samninga um að hætta kjarnorkutilraunum sínum og sveik þá báða. Svo virðist sem Trump hafi vanmetið viðsemjandann, ekki gert sér grein fyrir hversu flóknar samningaviðræðurnar yrðu, og ofmetið hæfileika sína sem samningamanns.

Leiðtogarnir héldu annan fund í Víetnam í febrúar en viðræðunum var slitið vegna ágreinings um hvað stjórn Norður-Kóreu þyrfti að gera til að refsiaðgerðum gegn henni yrði aflétt. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið í viðræðunum um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa krafist þess að Bandaríkjastjórn slaki á viðskiptaþvingunum þegar í stað en Bandaríkjastjórn hefur neitað því og sagt að ekki komi til greina að gera það fyrr en Norður-Kóreumenn eyði kjarnavopnum sínum. Talið er að einræðisstjórnin vilji öryggistryggingar sem bandarísk stjórnvöld hafa aldrei léð máls á. Þegar leiðtogar Norður-Kóreu tala um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans hafa þeir sett þau skilyrði að bandarísku hersveitirnar í Suður-Kóreu verði fluttar þaðan og stjórnin í Washington skuldbindi sig til að beita ekki kjarnavopnum til að vernda landið. Margir fréttaskýrendur eru efins um að einræðisstjórnin sé í raun tilbúin að afsala sér kjarnavopnum nú þegar hún hefur orðið sér úti um slík vopn og smíðað langdrægar eldflaugar. Þeir telja að hún sé staðráðin í að öðlast viðurkenningu sem kjarnorkuveldi og notfæra sér þessa stöðu sína út í ystu æsar, m.a. til að binda enda á refsiaðgerðirnar gegn landinu.

Taldar geta borið kjarnaodda

AFP hefur eftir embættismönnum í Washington að fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafi ekki átt neina fundi með embættismönnum Norður-Kóreu eftir leiðtogafundinn í Víetnam. Einræðisstjórnin í Pjongjang hefur krafist þess að tveimur af helstu samstarfsmönnum Trumps í öryggismálum verði vikið frá störfum, þeim Mike Pompeo utanríkisráðherra og John Bolton þjóðaröryggisráðgjafa. Norður-Kóreumenn hafa einnig skotið á loft meðaldrægum eldflaugum í tilraunaskyni en Trump hefur gert lítið úr hættunni sem stafar af þeim.

Talið er þó að eldflaugarnar geti borið kjarnaodda og hægt væri að skjóta þeim á bandarískar herstöðvar í Suður-Kóreu, að því er The Wall Street Journal hefur eftir suðurkóreskum sérfræðingum í öryggismálum. Eldflaugarnar eru taldar líkjast rússneskum Iskander-flaugum. „Ég tel ekki að her Suður-Kóreu eða bandarísku hersveitirnar séu með nógu öflugar eldflaugavarnir til að geta verndað landið gegn norður-kóreskum Iskander-flaugum,“ hefur blaðið eftir Cheon Seong-whun, fyrrv. embættismanni Þjóðaröryggisráðs Suður-Kóreu.

Hálfbróðir einræðisherra N-Kóreu sagður hafa veitt CIA upplýsingar

Kim Jong-nam, hálfbróðir einræðisherra Norður-Kóreu, var í tengslum við bandarísku leyniþjónustuna CIA áður en hann var myrtur í Malasíu árið 2017, að því er bandaríska dagblaðið The Wall Street Journa l hefur eftir heimildarmönnum sínum. Einn þeirra sagði að Kim Jong-nam hefði átt nokkra fundi með njósnurum bandarísku leyniþjónustunnar og veitt þeim upplýsingar. „Það voru tengsl á milli hans og CIA.“

Myrtur með eiturefni

Kim Jong-nam var elsti sonur Kim Jong-ils, fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu, og um tíma talinn líklegur eftirmaður hans. Jong-nam féll þó í ónáð árið 2001 eftir að hann var handtekinn á flugvelli í Japan með falsað vegabréf þegar hann hugðist skemmta sér í Disneylandi í Tókýó. Hann fór í útlegð árið 2003, gagnrýndi einræðisstjórnina í Norður-Kóreu og hvatti til umbóta í landinu að kínverskri fyrirmynd.

Jong-nam var myrtur með eiturefninu VX sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem gereyðingarvopn og er öflugasta taugaeitur sem vitað er með vissu að hafi verið framleitt. Stjórnvöld í Malasíu og Suður-Kóreu saka einræðisstjórnina í Norður-Kóreu um að hafa fyrirskipað morðið en hún neitar því.

Tvær ungar konur voru handteknar og ákærðar fyrir að hafa nuddað klút á andlit Jong-nams í innritunarsal alþjóðaflugvallarins í Kúala Lúmpúr 13. febrúar 2017 skömmu áður en hann dó. Konurnar sögðu að óþekktir menn hefðu ginnt þær til að gera árásina og talið þeim trú um hún væri aðeins hrekkur sem sýndur yrði í sjónvarpsþætti. Yfirvöld í Malasíu féllu frá ákærunum og konurnar voru leystar úr haldi fyrr á árinu.