Bókin Illa virðist hafa gengið að finna almennilega íslenska þýðingu á orðinu „mentor“.

Bókin

Illa virðist hafa gengið að finna almennilega íslenska þýðingu á orðinu „mentor“. Allir vita þó hvað í orðinu felst, og allir vita líka vel að það gagnast bæði þeim sem gefur og þeim sem þiggur þegar reynslumeiri manneskja tekur einhvern lítt reyndan en efnilegan undir sinn væng til að veita leiðsögn á framabraut.

Sylvia Ann Hewlett segir samt enn betra að vera „bakhjarl“ (e. sponsor), og á þar við dýpra og lengra samband en það sem ríkir á milli „mentors“ og skjólstæðings hans.

Hewlett er höfundur bókarinnar The Sponsor Effect: How to Be a Better Leader by Investing in Others .

Bakhjarl reynir, með markvissum hætti, að raða í kringum sig öflugu fólki sem hann hlúir að af metnaði, og uppsker í staðinn tryggð þeirra og stuðning þegar takast þarf á við krefjandi verkefni. Að mati Hewlett eru leiðtogar í mjög góðri stöðu ef þeir hafa sinnt hlutverki bakhjarlsins vel. Þeir lyfta sínu fólki með sér upp metorðastigann og búa þannig að teymi sem fátt getur stöðvað.

Að vera bakhjarl er samt hægara sagt en gert og fjallar höfundur m.a. um gildrur sem varast þarf ef t.d. eldri maður tekur yngri konu upp á sína arma faglega. Bendir hún á að í ljósi #metoo-byltingarinnar þurfi allt að vera kristaltært og má bakhjarlinn ekki óafvitandi setja skjólstæðing sinn í óþægilega stöðu. Hewlett fjallar líka um mikilvægi þess að velja réttu manneskjuna til að veðja á. Bakhjarlinn leggur nefnilega mikið undir: tíma sinn, orku, tengslanet og orðspor. Skjólstæðingurinn þarf að vera manneskja sem stendur undir væntingum og hægt verður að treysta á þegar fram í sækir. ai@mbli.is