Tónleikar Helga Kvam píanóleikari, Þórhildur Örvarsdóttir og Pálmi Óskarsson í Hannesarholti.
Tónleikar Helga Kvam píanóleikari, Þórhildur Örvarsdóttir og Pálmi Óskarsson í Hannesarholti. — Morgunblaðið/GSH
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Helga Kvam píanóleikari og söngvararnir Pálmi Óskarsson og Þórhildur Örvarsdóttir hafa slegið í gegn með flutningi á sönglögum Jónasar og Jóns Múla Árnasona og á næstu tónleikum, sem verða í október, ætlar þríeykið að syngja lög eftir Davíð Stefánsson í tilefni þess að 100 ár eru frá því ljóðabók hans Svartar fjaðrir kom fyrst út.

Tónlistarfólkið fékk styrk frá Listasumri á Akureyri til þess að halda tónleikana „Einu sinni á ágústkvöldi“ í Hofi í fyrrasumar. „Upphaflega áttu aðeins að vera þessir einu tónleikar en þetta vatt upp á sig,“ segir Pálmi. Síðan hafa þau verið með dagskrána á Dalvík, Húsavík, Vopnafirði, Hvammstanga, Kópaskeri, fyrir eldri borgara á Akureyri og í Hannesarholti í Reykjavík ekki alls fyrir löngu. „Það var sérstaklega gaman að sjá fjölskyldur Jónasar og Jóns Múla á tónleikunum í Hannesarholti,“ segir Pálmi.

Þetta er reyndar ekki eina sameiginlega verkefni þeirra undanfarin misseri því síðastliðinn Valentínusardag, 14. febrúar, voru þau með „Ástarsögur“ í Hofi.

Á diski með syninum

Helga og Þórhildur hafa tónlist að atvinnu. Þær eru að ljúka tónleikaröðinni „María drottning dýrðar“ án Pálma, en hann er forstöðumaður bráðalækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Tónlist hefur engu að síður verið ríkur þáttur í lífi hans. Hann lærði á píanó sem strákur, söng á menntaskólaárunum og fór í söngnám hjá Hólmfríði Benediktsdóttur á Húsavík, kominn á fertugsaldur. „Söngurinn er fyrst og fremst áhugamál og hann er mjög gefandi,“ segir hann. Bætir við að auðvelt og gott sé að aðlaga hann starfinu. „Hann er góð tilbreyting og þetta fer mjög vel saman,“ segir Pálmi. „Það er líka gaman að syngja með þeim stöllum og á meðan Tumi, sonur minn, nennir að hafa mig með sér er ég alltaf tilbúinn að syngja með honum.“

Tumi er í hljómsveitinni Flammeus og var kjörinn bassaleikari Músíktilrauna 2019. Hann er á fullu í tónlistinni, gefur út disk með eigin efni á næstunni og verður með útgáfutónleika á Græna hattinum á Akureyri 27. júní. „Það er gaman að vera á kantinum hjá honum,“ segir Pálmi, sem syngur með Flammeus á disknum.

Nafnlausa tríóið ætlar að velja kvæði úr Svörtum fjöðrum til að spila og syngja á tónleikunum í haust. Pálmi segir að úr nógu sé að velja því mikið hafi verið samið við ljóð Davíðs. „En við verðum líka með ný lög,“ segir hann.

Sumarið er rétt að byrja og Pálmi segir að þar sem þau láti gjarnan kylfu ráða kasti geti vel verið að það bresti á með söng þeirra með skömmum fyrirvara. „Það er aldrei að vita hvað okkur dettur í hug að gera,“ segir Pálmi.