Baldvin Rúnarsson fæddist á Akureyri 15. janúar 1994. Hann lést á heimili sínu 31. maí 2019 eftir rúmlega fimm ára baráttu við krabbamein.

Foreldrar Baldvins eru Ragnheiður Jakobsdóttir framkvæmdastjóri, f. 28.10. 1968, og Rúnar Hermannsson vélfræðingur, f. 17.6. 1968. Bróðir Baldvins er Hermann Helgi, f. 2.8. 2000. Foreldrar Ragnheiðar eru Jakob Kristinsson, f. 15.3. 1945, d. 29.6. 2010, og Jóhanna Maríanna Antonsdóttir, f. 30.4. 1946. Foreldrar Rúnars eru Hermann Jónsson, f. 17.10. 1939, og Helga Hilmarsdóttir, f. 3.11. 1948, d. 19.1. 2000.

Baldvin hóf skólagöngu sína í Oddeyrarskóla á Akureyri fyrstu þrjú skólaárin og flutti síðan yfir Glerána og var í Glerárskóla frá 2003 til 2010. Baldvin lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 2014. Baldvin stundaði háskólanám í Auburn University of Montgomery í Alabama í Bandaríkjunum og í Esbjerg Business Academy í Danmörku, en þurfti frá að hverfa heim til Íslands úr báðum skólum vegna veikinda sinna.

Baldvin var mikill áhugamaður um fótbolta og harður Þórsari. Hann spilaði fótbolta með Þór Akureyri frá sjö ára aldri til tvítugs. Baldvin spilaði knattspyrnu með Magna Grenivík hluta úr sumri 2014.

Allt frá unglingsárum til mars 2019 þjálfaði hann yngri flokka Þórs í knattspyrnu. Baldvin var mikill félagsmaður og vann mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf fyrir félagið allt fram til síðasta dags.

Útför Baldvins fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. júní 2019, klukkan 13.30.

Elsku besti Baldvin okkar hefur farið í ferðalagið langa sem bíður okkar allra, allt of snemma. Það er svo óraunverulegt að eiga ekki eftir að heyra fallegu ljúfu röddina hans aftur og fá knús frá honum.

Mottóin hans lífinu voru einföld „Gerðu það sem þér þykir skemmtilegt sama hvað öðrum finnst“ og „stressaðu þig ekki á hlutum sem þú færð engu um ráðið“.

Með þetta að leiðarljósi voru uppátækin mörg og sum þeirra fengu okkur foreldrana til að svitna, en í dag eru skemmtilegar minningar.

Veikindin sem poppuðu upp hjá honum fyrir rúmlega fimm árum, þá á fjórða ári í menntaskóla, lét hann ekki stoppa sig, kallaði þau smá hraðahindrun. Hann tæklaði þau á einstakan hátt, vildi enga vorkunn og ætlaði ekki að láta þau marka líf sitt. Þetta tókst honum á einstakan hátt með miklu æðruleysi og hélt gleðinni áfram í lífinu.

Litla fjölskyldan, mamman með strákana sína þrjá, höfum verið samheldin og dugleg að vera saman og þakklát fyrir hverja mínútu. Ferðirnar okkar núna síðustu ár, Malta, London, siglingin um Karíbahafið, New York, EM í París, Rostov í Rússlandi og Þjóðhátíð í Eyjum, eru svo dýrmætar í minningabankanum okkar.

Takk Baldvin fyrir að vera þú, ákveðinn, ljúfur, skemmtilegur, hvatvís, kurteis, hugrakkur, æðrulaus, hreinskilinn og svona getum við endalaust talið upp.

Takk fyrir komuna, elsku besti Baldvin okkar.

Mamma og pabbi.

Það er sárt að horfa á eftir stóra bróður og mínum besta vini.

Baldvin kenndi mér gríðarlega mikið á þessari stuttu lífsleið okkar saman. Hann kenndi mér allra helst hvernig ég ætti að haga mér, koma fram og spila fótbolta.

Að minni eigin sögn tókst honum ágætlega til með að kenna mér þessa hluti. Baldvin nefndi það nefnilega oft að mamma og pabbi hefðu ekki alið mig upp, heldur hann sjálfur.

Að hugsa til þess að ég muni aldrei sjá Baldvin aftur er óendanlega sárt. Glottið þegar hann var að atast í mér, hláturinn hans, skilaboðin frá honum eftir hvern einasta leik hjá mér og pirringssvipurinn hans þegar ég loksins náði að vinna hann, er nokkuð sem ég mun sakna og hugsa til á hverjum degi.

Takk fyrir allt Baldvin, ég sakna þín.

Þú ert fyrirmyndin mín.

Hermann Helgi.

Elsku Baldvin okkar kvaddi þennan heim 31. maí síðastliðinn eftir erfiða baráttu við krabbamein í faðmi fjölskyldunnar. Minningarnar hafa farið í gegnum huga okkar síðustu daga og við höfum hlegið og grátið þegar við hugsum til Baldvins og samverustunda okkar.

Baldvin hefur kennt okkur margt þrátt fyrir ungan aldur sem við munum aldrei gleyma. Jákvæðni var eitt að því sem einkenndi Baldvin og þegar hann var spurður „hvernig hefur þú það?“, fengum við alltaf svarið „ ég hef það fínt, en þú?“ þó við vissum það var ekki alltaf þannig. Baldvin lét veikindin aldrei einkenna sig og mætti hann þeim með æðruleysi og jákvæðni. Baldvin lifði lífinu til fulls og gerði það sem veitti honum hamingju. Baldvin var ófeiminn að fara óhefðbundnar leiðir í lífinu sem leiddu hann í ýmis ævintýri, ferðalög og upplifanir. Fjölskylda okkar er mjög samheldin og fjölskylduboðin verða aldrei eins og áður án hans. Það er Baldvini að þakka að við fjölskyldan fórum saman í hans síðustu utanlands ferð til Tenerife núna á þessu ári.

Baldvin bar mikla umhyggju fyrir öðrum og var alltaf þakklátur fram á síðasta dag. Þakklætið lýsti sér vel því hann þakkaði alltaf öllum fyrir komuna. Það var alltaf mikil gleði og húmor í kringum hann sem smitaði út frá sér til fjölskyldu og vina. Frá unga aldri hafði hann mikinn áhuga á fótbolta og lagði sig allan fram fyrir félagið sitt Þór, bæði innan sem og utan vallar. Hann lagði mikið upp úr fótboltanum sem varð til þess að fótboltaáhuginn varð mikill innan fjölskyldunnar. Baldvin var góð fyrirmynd fyrir frændsystkin sín og voru það forréttindi og heiður að hann gat þjálfað hluta af þeim í fótboltanum. Við erum þakklát fyrir að Baldvin og fjölskyldan hans kynntu okkur félagið Þór og við skiljum núna slagorðið D.F.K. (Deyja fyrir klúbbinn) sem hann gerði alla leið til síðasta dags.

Baldvin var vinamargur og var góður við fjölskyldu og vini en oft var stutt í góðlátlega stríðni. Baldvin og Steinunn, tvö elstu systkinabörnin, voru oft saman í sumarbústaðnum okkar í Hrísey þegar þau voru lítil. Eitt skipti þegar þau voru ein hjá ömmu og afa í Hrísey stendur þetta í dagbókinni 21. júlí árið 2000 : „Steinunn (4 ára) og Baldvin (6 ára) voru góð að leika sér saman, hann stríddi henni lítið og Baldvin svaf einn í herbergi í neðri kojunni. Ég (amma) fór með Baldvini og Steinunni í sund, Baldvin var mjög kaldur í sundi, einum of svo ég hafði nóg að gera með þau bæði.“

Baldvin var einn sterkasti einstaklingur sem við þekkjum en kvaddi þennan heim allt of snemma. Þrátt fyrir illvígan sjúkdóm barðist hann eins og hetja fram á síðasta dag. Söknuðurinn er endalaus og enginn kemur í hans stað en við trúum því að ömmur hans og afar hafi tekið vel á móti brosandi stráknum sínum á nýjum stað. Við munum halda minningu þinni á lofti og þökkum þér fyrir allar dýrmætu stundirnar saman. Guð geymi þig elsku Baldvin okkar.

Jóhanna, Steinunn,

Lilja, Anna, Kristinn

og fjölskyldur.

Elsku Baldvin okkar.

Það er erfitt að kveðja. En nú þurfum við að halda áfram án þín.

Við erum búnar að þekkja þig síðan þú fæddist, það var eins og að eignast lítinn bróður. Við bjuggum öll á Eyrinni, þú í Sólvöllunum og við í Norðurgötunni. Við vorum mjög samrýnd. Við erum þakklátar fyrir allar minningarnar sem við eigum, öll jólin, afmælin, spilakvöldin, gistikvöldin, ferðirnar í sumarbústaðinn hans afa og ferðirnar í Hrísey, svo fátt eitt sé nefnt.

Oftar en ekki vorum við búin að velja einhverja góða spólu, kaupa nammi eða snakk fyrir gott gistikvöld og það klikkaði ekki að þú varst sofnaður í auglýsingunum. Þú varst nú ekki stressaður yfir því.

Við fluttum meira að segja sama ár af Eyrinni, þú í Þorpið og við á Brekkuna. Þú varst reyndar svo mikill Þórsari að þú keyrðir ekki á Brekkunni nema með lokaða glugga og skrúfað fyrir miðstöðina. En það breytti engu, tengslin voru alltaf til staðar, sama hversu margar heimsálfur skildu okkur að.

Eitt af því sem gerði þig svo einstakan er hversu ákveðinn þú varst. Þú tókst alltaf allt alla leið. Þegar við vorum lítil voru til dæmis alls konar kóktappa-safnanir og við rembdumst við að safna töppum fyrir frisbídisk, en á meðan varst þú búinn að leita uppi alla tappa í hverfinu eða fá Rúnar og Ragnheiði til að kaupa kókbirgðir til næstu ára svo þú gætir fengið fyrsta vinning, hoppuprik! Það var ekta þú, meðalmennska var ekki til í þinni orðabók, aldrei. Það er heldur engin tilviljun hversu margir vildu alltaf vera í kringum þig. Þú varst í mörgum vinahópum, sannur vinur vina þinna sem treystu á þig og þú á þá.

Þegar þú veiktist mátti ekki vorkenna þér, þú hafðir það bara alls ekki slæmt. Þú komst og hjálpaðir til við flutninga í miðri geislameðferð.

Þú fórst einn hinum megin á hnöttinn í mánuð til að losna við áhyggjufulla fjölskyldu eftir eina af stóru aðgerðunum. Þú hljópst maraþon. Engin áskorun var of stór.

Við erum búnar að fylgjast með hverju einasta skrefi í baráttunni þinni við veikindin síðustu ár en aldrei upplifað þig veikan, ekki fyrr en mjög nýlega. Síðustu mánuðir hafa þar af leiðandi verið mjög erfiðir, en að sama skapi ómetanlegir. Við nýttum tímann vel við að rifja upp góða tíma, skoða gamlar myndir, spjalla og hlæja. Fyrst og fremst vera saman.

Það er óendanlega sárt að samverustundirnar verði ekki fleiri, en við trúum því að þér líði vel, hvar sem þú ert og að amma Helga og afi Kobbi taki vel á móti þér. Nú skulum við passa Hermann Helga fyrir þig.

Andrea og Helga.

Elsku besti vinur.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvort ég ætti að skrifa þessa minningargrein. Einhvern tímann höfum við rætt um tilgangsleysi minningargreina enda varst þú alltaf harður á því að fólk segði hlutina við hvert annað umbúðalaust og augliti til auglitis. Sem betur fer gátum við alltaf átt svoleiðis samskipti um bæði mikilvæg og léttvæg mál. Það var alltaf hægt að leita til þín; þínar ráðleggingar hjálpuðu mikið og hafa haft mikil áhrif í mínu lífi. Ég veit að þetta gildir um marga fleiri í kringum þig.

Það eru ekki til nein orð sem fá því lýst hversu mikið ég sakna þín en samt ætla ég að skrifa þessa grein.

Þú varst besti vinur sem hægt er að hugsa sér. Enda varstu vinamargur með eindæmum; lagðir alla tíð mikla áherslu á að rækta öll þessi fjölmörgu vinatengsl og gerðir það fáranlega vel. Þú gafst þér samt alltaf tíma fyrir fjölskylduna þína og duldist engum hversu stoltur þú varst af þeim Röggu og Rúnna. Svo ekki sé nú minnst á Hermann Helga. Þú varst ekki síður stoltur af honum og vildir þú reyndar meina að hann væri bróðurbetrungur í flestöllu.

Mína fyrstu minningu af þér tengi ég við 7D. Við áttum það sameiginlegt að 7D var okkar annað heimili á uppvaxtarárunum. Mig minnir reyndar að ég hafi ekki alveg verið að kaupa snilli þína í fyrstu og um tíma varstu bara pirrandi vinur Orra, litla bróður Atla. Það breyttist fljótt enda kom það snemma í ljós að við ættum ýmislegt sameiginlegt. Badda og Siggi sáu alltaf til þess að okkur vanhagaði ekki um neitt og við nutum góðs af því hve matgrannir þeir bræður hafa alltaf verið þegar við tæmdum hvern baukinn á fætur öðrum sem jafnan voru fullir af Böddukökum og öðrum gersemum.

Við deildum ástríðu á fótbolta og öllum málum tengdum Þór. Þú hafðir miklar hugmyndir og sterkar skoðanir á öllu starfi félagsins og varst tilbúinn að gera allt til þess að hjálpa Þór að vaxa og dafna. Það er ómetanlegt að við skyldum taka að okkur þjálfun 5. flokks karla haustið 2018. Þar naust þú þín í botn og lést veikindin ekki stöðva þig í að búa til grjótharða Þórsara framtíðarinnar. Tilveran á hliðarlínunni er tómlegri án þín.

Þú varst þrjóskari en gengur og gerist og við gátum endalaust deilt um ýmis menn og málefni en gátum jafnan sæst á að vera sammála um að vera ósammála. Við vorum samt sammála um hvar væri langbest að vera sem sést á okkar fyrstu fasteignakaupum þar sem rétt rúmir 100 metrar voru á milli íbúðanna okkar í hjarta Þorpsins. Við ætluðum að eiga miklu miklu fleiri ár saman í Þorpinu og við ræddum líka oft hvað við ætluðum að hafa það gott í ellinni.

Ég er þakklátur fyrir fjöldann allan af stórkostlegum stundum sem við áttum með okkar vinahópi. Tene, Frakkland, allar Námuhelgarnar og allt tjillið í 7D stendur upp úr af mörgu góðu. Skarð þitt verður aldrei fyllt en við munum halda minningu um einstakan dreng á lofti um ókomna tíð. Minning þín mun lifa í 603 og víðar, en fyrst og fremst 603 því þér var nokk sama um flest annað.

Arnar Geir Halldórsson.

Minn allra besti frændi fallinn frá og langt fyrir aldur fram. Vil byrja á því að þakka þér fyrir allar samverustundirnar sem við áttum saman. Ógleymanlegar ferðir okkar erlendis standa upp úr og sú síðasta í haust þegar þú heimsóttir mig til Tallinn. Lífsviðhorf þitt síðustu ár þrátt fyrir veikindin hefur verið ótrúlegt. Þú barðist í gegnum hvert áfallið með bros á vör og hélst alltaf þínu striki sama hvað á bjátaði. Þú lést veikindin aldrei stoppa þig og hélst ótrauður áfram að ferðast um heiminn eins og þér einum er lagið. Ég mun sakna klukkutíma samtalanna okkar um daginn og veginn, aðalumræðuefnið var yfirleitt fótboltinn sem við ræddum frá morgni til kvölds. Ég mun ævinlega vera þakklátur fyrir síðasta spjallið okkar áður en þú kvaddir þennan heim. Takk fyrir að bíða eftir mér og leyfa mér að kveðja þig.

Ég veit hversu stoltur þú varst af Hermanni bróður þínum og framvegis munt þú fylgjast með honum í kóngastól að ofan meðan hann reimar á sig skóna í Þorpinu. Grunar nú að fljótlega verði flestir orðnir rauðir og hvítir þarna uppi ef ég þekki minn mann rétt. Eftir standa minningar um frábæran einstakling, sem kenndi mér svo margt í lífinu. Hvíldu í friði, minn kæri, sjáumst síðar.

Elsku Ragga, Rúnar og Hermann, hugur minn er hjá ykkur.

Ágúst Þór Ágústsson.

Fallinn er frá mikill eðaldrengur, Baldvin Rúnarsson, frændi okkar. Baldvin var elstur barnabarnabarna Rögnu og Tona á Ránargötunni, ömmu og afa okkar.

Stórfjölskylda Rögnu og Tona eins við köllum okkur hefur í gegnum tíðana verið einstaklega samheldin og mikill samgangur á milli fjölskyldna. Einn af hápunktum ársins er spurningakeppnin í þorrablóti stórfjölskyldunnar. Baldvin hefur haft yfirumsjón með keppninni síðustu ár og gert það með miklum myndarbrag. Okkar leggur hennar Ingu, ömmusystur Baldvins, hefur lagt mikla áherslu að hún haldist í hans umsjá, enda vitað að okkar möguleikar á sigri væru mun meiri þar sem hann gat þá ekki tekið þátt fyrir Hönnu legg. En því miður setur hann ekki saman fleiri keppnir og það verður mikið ábyrgðarhlutverk fyrir þann sem tekur það að sér.

Þegar maður er 19 ára og fær þá frétt að maður sé með krabbamein þá gæti maður látið sjúkdóminn hægja á sér og farið að öllu með gát. Eða bara ákveðið að lifa lífinu til fulls, halda áfram með plönin sín og líta á veikindin sem smá hliðarverkefni. Það gerði Baldvin og rúmlega það. Háskólanám á fótboltaskólastyrk í USA, háskólanám í Danmörku, heimsreisa, kaup á sinni fyrstu íbúð, hlaupa hálfmaraþon og safna metfé, fara á alla leiki Íslands á EM, fara á alla leiki Íslands á HM er bara svona það sem kemur fyrst upp í hugann.

Baldvin hafði einstaklega gaman af fótbolta og öllu sem að honum sneri. Hann var Þórsari og United-maður alla leið. Þó svo að veikindin hafi sett strik í reikningin á vellinum þá var hann á fullu utan vallar og starfaði meðal annars við þjálfun og lýsingu og úrslitaþjónustu fyrir alþjóðlegar getraunasíður. Hann var líka einstaklega glúrinn í því að finna leiki út um allan heim þar sem mögulega væri hægt að taka inn smá aur, þannig séð atvinnumaður í fótbolta sem er draumur flestra yngri fótboltaiðkenda.

Baldvin var einstaklega glaðlyndur, með mátulega svartan húmor og hafði sterkar skoðanir á því hvernig hann ætlaði að koma sér áfram. Smá sletta af kæruleysi í bland við ofangreint og trú á eigin getu getur komið manni langt. Í okkar huga hefði hann haft meiri tíma með okkur þá hefði Baldvin komist lengra en flestir.

Í fimmtugsafmæli Ragnheiðar mömmu sinnar fyrir nokkrum mánuðum tók Baldvin að sér veislustjórn og gerði það með miklum sóma. Gerði góðlátlegt grín að mömmu sinni og pabba og sagan og leikrænir tilburðir um það hvernig hann ímyndaði sér þeirra fyrstu kynni fyrir tíma samskipta- og samfélagsmiðla var frábær. Þá var ekki á honum að sjá að hann myndi kveðja okkur nokkrum mánuðum seinna.

Elsku Ragnheiður, Rúnar og Hermann, Hanna og Hermann eldri, skarðið sem Baldvin skilur eftir sig verður seint fyllt. Við ætlum koma þar fyrir yndislegum minningum um frábæran dreng sem kvaddi okkur allt of snemma.

Baldvin, við sjáumst seinna!

Þínir frændur,

Baldvin, Arinbjörn,

Anton og Árni.

Vinátta er eitt af því fallegasta

sem þú getur eignast

og eitt af því besta sem þú getur orðið.

Vinur er lifandi fjársjóður

og ef þú átt einn slíkan,

þá átt þú eina verðmætustu gjöf

lífsins.

(Höfundur ókunnur)

Vinur Orra, vinur Atla, vinur okkar og allra hinna. Vina- og kunningjahópurinn risastór og hafa mörg tár fallið undanfarið.

Baldvin, vinurinn okkar með fallega brosið sem náði til augnanna og dillandi hláturinn. Þú kvaddir þegar bjart er allan sólarhringinn, það kemur ekki á óvart.

Við kynntumst þegar þú varst lítill snaggaralegur prakkari að æfa fótbolta með Þór. Þið Orri breyttust í samlokur á núll einni og Atli og vinir hans tóku ykkur undir sinn verndarvæng. Úr varð stór og samhentur hópur sem brallaði ýmislegt. Þið orðnir ungir menn og við héldum að framtíðin væri björt og ykkur allir vegir færir. En fyrir rúmum fimm árum veiktist þú og við horfðum á hvernig þú tókst á við þetta risaverkefni með ótrúlegum dugnaði, kjarki, baráttu og bjartsýni. Þetta er vont en það venst var það neikvæðasta sem við heyrðum þig segja um veikindin. Við sáum hvaða toll þau tóku en að gefast upp var ekki í þinni orðabók. Þú lést ekkert stoppa þig í að lifa lífinu lifandi. Skurðaðgerðir, lyfjagjafir og geislar, ekkert stoppaði þig. Þú tókst eitt skref í einu (ókei, stökkst) að næsta ævintýri. Fyrir tveimur vikum sagðir þú: „Við Orri verðum að fara að henda í eina ferð.“ Ferðalögin þín innan- og utanlands með vinum og eða fjölskyldu voru ótalmörg og einnig fórstu einn (þá fór nú um okkur). Ekkert var ómögulegt í þínum huga og við horfðum á eftir þér nánast beint af skurðarborðinu og út í heim í leit að nýjum ævintýrum. Lífið er núna átti vel við um þig. Nú komið er að kveðjustund, elsku Baldvin hetjan okkar. Við eigum sannarlega margar og góðar minningar um þig sem við munum rifja upp um ókomin ár. Það gerum við í þínum anda skellihlæjandi og látum brosið ná til augnanna.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Við munum sakna þín út yfir endimörk alheimsins.

Samúðarkveðjur til fjölskyldu Baldvins, hann var einstakur.

Bjarney og fjölskylda Steinahlíð.

Baldvin minn, elsku litli frændi og vinur, er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Það má eiginlega segja að við höfum kynnst allt of seint í þessu lífi. Ég man ennþá eftir mómentinu á goðamótinu 2010 þegar þú röltir upp að mér og tilkynntir mér að við værum náskyldir frændur, eftir stutt spjall fattaði ég það að við ættum mikla samleið og værum með nákvæmlega sömu áhugamál og í kjölfarið byrjuðum við að rækta okkar frábæru vináttu. Þrátt fyrir að vera þremur árum yngri en ég leið mér alltaf eins og þú værir stóri frændi minn þar sem þú varst töluvert skynsamari og greindari en ég.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér á lífsleiðinni og öll frábæru ráðin sem þú gafst mér. Jákvæðni var þitt aðalsmerki og það voru aldrei vandamál, heldur bara lausnir. Ég mun aldrei gleyma öllum utanlandsferðunum okkar og sérstaklega ekki þeirri síðustu til Rússlands þegar við fórum að sjá okkar menn í íslenska landsliðinu spila og ég man svo innilega þegar þú sagðir við mig eftir leikinn gegn Nígeríu: „hvað er fólk að velta sér upp úr úrslitunum hérna, það er bara rugl að við séum að spila við þessar þjóðir“ og fórst svo að hlæja.

Ég er ævinlega þakklátur fyrir okkar síðustu stund saman þegar við hringdum í Ágúst bróður til Eistlands á facetime og faðmlagið okkar áður en ég kvaddi þig og lagði af stað heim til Reykjavíkur. Hvíldu í friði, Baldvin minn, sjáumst síðar.

Elsku Ragnheiður, Rúnar og Hermann. Hugur minn er hjá ykkur.

Hrafnkell Freyr Ágústsson.

Elsku vinur, þetta eru skilaboð sem við vildum ekki þurfa að senda þér, við vitum reyndar að þú ert að lesa þetta og ert 100% skellihlæjandi yfir því að við séum í svona miklum vandræðum að skrifa þetta, en við tökum það á kassann og hlæjum með. Það er nefnilega það sem þú kenndir okkur, að hafa bara gaman að öllu og taka þessu blessaða lífi ekki of alvarlega því við eigum jú bara eitt líf og þú sagðir okkur að njóta þess á meðan við getum. Við munum reyna að gera það fyrir þig. Þessi skilaboð hefðu frekar átt að snúast um skipulag á næstu þvæluferð, en svona virðist lífið vera og það er eins og það er.

Þú varst sá traustasti í bransanum, gæinn sem hver og einn gat treyst fyrir nákvæmlega öllu. Með heilan haug af leyndarmálum og við erum rosalega þakklátir fyrir það því mikið var af vitleysunni sem við brölluðum saman og er líklega fyrir bestu að þú liggir á þeim. Alltaf varstu jafn harður og tókst ekki einu sinni í mál að þú værir veikur. Ætli það sé ekki út af því að þú leyfðir okkur ekki að halda það og varst fljótur að gefa okkur gula spjaldið ef við töluðum eitthvað um það. Þú varst alltaf sannur sjálfum þér. – Sama hvað bjátaði á, þá varstu alltaf Bassi Rú. Bassinn okkar allra. Sameiningartákn svo ótal margra. Sannur vinur og ein raunverulegasta manneskja sem við höfum kynnst. Þú varst sannkallaður meistari æsingsins og varst ávallt tilbúinn að æsa menn upp í alls konar umræður og pota í það og sjá hvernig það brást við. Hvernig veistu hvað virkilega býr innra með öðrum ef þú skoðar ekki?

Þú elskaðir að fá fólk upp á tærnar því að þá virkilega sýndi fólk sitt rétta andlit. Þú varst alltaf þú sjálfur og skildir ekki hvers vegna allir voru ekki alltaf sannir sjálfum sér. Ef þú ert ekki þú sjálfur, hver ertu þá?

Þú þoldir ekki leikþátt. Þú hataðir hann.

Þú gerðir bara allt og lifðir lífinu nákvæmlega eins og þú vildir. Hver fer hinum megin á hnöttinn rétt kominn úr erfiðri lyfjameðferð og það einn síns liðs? Tekur bara þátt í maraþoni og pakkar því saman, fer á alla leikina hjá landsliðinu á EM og HM, kaupir sér racer í stofuna til þess að halda sér í formi, skipuleggur allar utanlandsferðir hjá okkur strákunum, vinnur eins og skepna og þjálfar með, flytur einn til Ástralíu rétt eftir aðgerð. Varst alltaf tilbúinn að vera með fjölskyldu og vinum sama hvað bjátaði á og hvernig líðan þín var. Það er bara einn maður og það er Baldvin Rúnarsson, kóngurinn í þorpinu. Alltaf varstu samkvæmur sjálfum sér og alltaf vinur vina þinna, hvað sem bjátaði á og sama hvað hver sagði. Þegar við hugsum út í það þá varstu í raun aldrei mannlegur og í raun ekki hægt að bera þig við neinn. Þú áttir það til að vísa í góðvin þinn Zlatan: „Lions don't compare themselves to humans“ og það átti ansi vel við um þig.

Við erum ofboðslega þakklátir fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Þú kenndir okkur þrautseigju og þú kenndir okkur lífsreglurnar. Fyrir það munum við ávallt minnast þín. Takk fyrir allt, elsku vinur. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar allra að eilífu.

Birgir Viktor Hannesson,

Egill Örn Gunnarsson,

Finnur Heimisson,

Finnur Mar Ragnarsson,

Guðmundur Oddur

Eiríksson,

Halldór Kristinn Harðarson,

Ingólfur Árnason,

Jónas Björgvin

Sigurbergsson,

Róbert Ingi Tómasson,

Sölvi Andrason,

Örnólfur Hrafn Hrafnsson.