Sigurstemmning Aron Einar Gunnarsson fer fyrir fögnuði íslensku leikmannanna í leikslok á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Sigurstemmning Aron Einar Gunnarsson fer fyrir fögnuði íslensku leikmannanna í leikslok á Laugardalsvellinum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Gamla góða Ísland er mætt aftur til leiks.

Í Laugardal

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Gamla góða Ísland er mætt aftur til leiks. Eftir brösótt gengi á síðasta ári, hundleiðinlega og slaka frammistöðu í Þjóðadeildinni og í kjölfarið vondan skell á móti heimsmeisturum Frakka erum við farin að kannast við strákana okkar og sjá þá spila í líkingu við það sem þeir sýndu okkur í síðustu tveimur undankeppnum. Ísland vann sanngjarnan 2:1 sigur gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum í gærkvöld og eftir fjórar umferðir í riðlinum eru Íslendingar jafnir Tyrkjum og heimsmeisturum Frakka með níu stig og ljóst að baráttan um tvö efstu sætin og þar með farseðil í úrslitakeppni EM á næsta ári stendur á milli þessara þriggja liða.

Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson skorar ekki á hverjum degi fyrir íslenska landsliðið en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði bæði mörk Íslands með skalla í fyrri hálfleik eftir föst leikatriði og kappinn var ekki langt frá því að fullkoma þrennuna í seinni hálfleik þegar kollspyrna hans fór fram hjá markinu í góðu færi. Ragnar hefur þar með skorað fimm mörk fyrir íslenska landsliðið, einu marki minna en hinn frábæri miðvörðurinn í liðinu, Kári Árnason. Fyrri hálfleikurinn að hálfu íslenska liðsins var hreint út sagt magnaður og nánast fullkominn en það eina sem skyggði á glæsilega frammistöðu í fyrri hálfleik var mark Tyrkjanna sem leit dagsins ljós á 40. mínútu eftir hornspyrnu. Fram að því höfðu Íslendingar haft Tyrkina í algjörri spennitreyju, stjórnað leiknum og sýnt bestu takta í háa herrans tíð.

Síðari hálfleikurinn var í járnum. Íslenska liðið varðist vel og náði af og til ágætum skyndisóknum þó án þess að skapa sér nein dauðafæri. Tyrkir náðu nokkurri pressu síðasta stundarfjórðung leiksins en íslenska vörnin og Hannes Þór Halldórsson fyrir aftan hana stóðu vaktina vel sem og allir íslensku leikmennirnir og þegar pólski dómarinn flautaði til leiksloka í blíðunni í Laugardalnum ætlaði allt um koll að keyra.

Tyrkir kvörtuðu undan lítilli gestrisni Íslendinga við komuna til landsins eins og frægt er. Ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu en svo mikið er víst að íslensku leikmennirnir sýndu Tyrkjunum enga gestrisni þegar út á völlinn var komið frekar en áður þegar Tyrkirnir hafa mætt í Laugardalinn. Þar hafa þeir aldrei farið með sigur af hólmi. Eftir að hafa unnið sannfærandi sigur á móti Frökkum um síðustu helgi urðu Tyrkir hreinlega undir í baráttunni á móti frábæru og samhentu íslensku liði.

Breytingar til góða

Erik Hamrén gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum á móti Albaníu og að mínu mati voru þær breytingar til góða. Emil Hallfreðsson kom inn í liðið fyrir Rúnar Má Sigurjónsson og Jón Daði Böðvarsson tók stöðu Viðars Arnar Kjartanssonar. Emil og Aron Einar Gunnarsson voru þéttir fyrir á miðsvæðinu og skiluðu virkilega flottu dagsverki. Jón Daði lék í 65 mínútur og sá vann fyrir kaupi sínu. Selfyssingurinn gaf allt sem hann átti og lét varnarmenn Tyrkja svo sannarlega hafa fyrir hlutunum. Það var hvergi veikan hlekk að finna í íslenska liðinu. Liðsheildin var frábær og samheldnin, krafturinn, baráttan, sigurviljinn og vinnusemin var til mikillar fyrirmyndar. Þegar sá gállinn er á er okkar liði eru því allir vegir færir. Það var ekki að sjá að menn eins og Birkir Bjarnason, Jón Daði Böðvarsson og Emil Hallfreðsson séu búnir að spila sáralítið með félagsliðum sínum undanfarna mánuði. Þeir mættu tilbúnir til að fórna sér fyrir liðið og gefa allt sem þeir áttu og sá liðsandi sem við sáum í síðustu tveimur undankeppnum hefur verið endurvakinn. Þessir strákar ætla sér að komast á þriðja stórmótið í röð og með sigrinum í gærkvöld er það vel raunhæft.

Íslensku landsliðsmennirnir eru nú komnir í kærkomið frí en þráðurinn verður tekin upp í undankeppni EM 7. september þegar Moldóvar mæta á Laugardalsvöllinn. Ég set kröfu á okkar menn að landa þremur stigum í þeim leik og taka þar með eitt skref til viðbótar í átt að úrslitakeppni EM.

ÍSLAND – TYRKLAND 2:1

1:0 Ragnar Sigurðsson 21. með skalla úr markteignum vinstra megin eftir aukaspyrnu Jóhanns Bergs frá hægri.

2:0 Ragnar Sigurðsson 32. með skalla hægra megin úr markteignum eftir horn Gylfa frá vinstri og skalla Birkis Bjarnasonar.

2:1 Dorukhan Toköz 40. með skalla eftir hornspyrnu frá hægri.

Gul spjöld

Emil og Birkir (Íslandi), Toköz, Yilmaz, Ayhan og Celik (Tyrklandi).

Ísland : (4-5-1) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Hjörtur Hermannsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason (Hörður B. Magnússon 69). Miðja : Jóhann Berg Guðmundsson (Arnór Ingvi Traustason 80), Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Birkir Bjarnason. Sókn : Jón Daði Böðvarsson (Kolbeinn Sigþórsson 64).

Tyrkland : (4-5-1) Mark : Mert Günok. Vörn : Zeki Celik, Merih Demiral, Kaan Ayhan, Hasan Ali Kaldirim. Miðja : Hakan Calhanoglu, Dorukhan Toköz (Güven Yalcin 85), Irfan Kahveci (Abdülkadir Ömür 63), Ozan Tufan, Kenan Karaman (Yusuf Yazici 46). Sókn : Burak Yilmaz.

Dómari : Szymon Marciniak, Póllandi.

Áhorfendur : 9.680 (uppselt).

Frammistaða leikmanna Íslands

Hannes Þór Halldórsson gat ekkert gert við marki Tyrkja en sá annars um þær fáu tilraunir þeirra sem fóru á markið. Ekkert í leikjunum tveimur sem bendir til þess að hann missi sæti sitt í liðinu á næstunni.

Hjörtur Hermannsson lenti sjaldnast í vandræðum í varnarhlutverkinu en hefði mátt staðsetja sig betur í einstaka tilvikum. Tók lítinn þátt í sóknarleiknum.

Kári Árnason hefur oft tengt betur við samherja sína með löngum spyrnum úr vörninni. Nokkuð öruggur í varnarleiknum og ógnandi í föstum leikatriðum.

Ragnar Sigurðsson gerði mjög vel í báðum skallamörkum sínum. Öryggið uppmálað í varnarleiknum, las vel í sendingar Tyrkjanna og greip inn í, og angraði Yilmaz mikið.

Ari Freyr Skúlason hélt sig aftarlega og lenti aldrei í vandræðum. Varð að játa sig sigraðan eftir 70 mínútur enda ekki spilað í tvo og hálfan mánuð fyrir landsleikina tvo.

Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp mark með frábærri aukaspyrnu. Mjög ógnandi í fyrri hálfleik og skilaði alltaf sínu í vörn. Harkaði af sér í 80 mínútur þrátt fyrir kálfameiðsli.

Aron Einar Gunnarsson batt miðjuna vel saman og verndaði vítateiginn allan leikinn. Frískur framan af leik og tók sinn þátt í fjölda sókna Íslands í fyrri hálfleik.

Gylfi Þór Sigurðsson var stórkostlega vinnusamur, jafnvel á eigin mælikvarða. Átti margar hættulegar spyrnur, bæði sendingar og skot, og stóran þátt í seinna marki Íslands.

Emil Hallfreðsson tengdi vel við Aron á miðjunni, yfirvegaður með boltann og lét finna vel fyrir sér án hans. Valdi skynsamlega hlaup fram og hafði orku til að klára leikinn vel.

Birkir Bjarnason sýndi að hann ræður enn vel við tvo leiki í röð þrátt fyrir ekkert leikform. Afar duglegur, óheppinn að fá ekki víti og skallaði á Ragnar í marki tvö. Gult spjald og leikbann vegna óþarfs brots.

Jón Daði Böðvarsson skellihló að hugtakinu „leikform“ með frábærum leik; gríðarlegum dugnaði, endalausum hlaupum sem skiluðu miklu vegna styrks hans, tækni og útsjónarsemi. Vann mörg skallaeinvígi og opnaði svæði fyrir félaga sína.

Kolbeinn Sigþórsson kom inn á fyrir Jón á 64. mínútu. Ekki með sömu yfirferð og hafði hægt um sig.

Hörður B. Magnússon kom inn á fyrir Ara á 68. mínútu. Frekar óöruggur og komst illa í takt við leikinn.

Arnór Ingvi Traustason kom inn á fyrir Jóhann á 80. mínútu. Hljóp mikið og reyndi að búa eitthvað til.

Sumir búnir að afskrifa okkur

„Þetta var bara pot af línunni í mörkunum, en tvö mörk eru nóg. Þetta var alls ekki af æfingasvæðinu. Ég fer bara alltaf á fjær og þar er ég alltaf frír og ég var mættur á réttan stað,“ sagði Ragnar Sigurðsson eftir að hafa skorað bæði mörk Íslands í 2:1-sigrinum á Tyrkjum í undankeppni EM í gærkvöldi. „Það er mjög ljúft að vinna Tyrkina aftur. Við urðum að vinna þessa leiki við Tyrkland og Albaníu í baráttunni um að komast áfram. Þetta er sami neisti og hefur alltaf verið,“ sagði Ragnar.

„Sumir voru búnir að afskrifa okkur en það er nóg eftir í þessum hópi og við sönnuðum það í þessum leikjum. Við kunnum að takast á við þessi stóru verkefni, vitum nákvæmlega hvað þarf til þess að vinna og af hverju að breyta því?“ sagði Aron Einar Gunnarsson fyrirliði.

„Ég er hrikalega þakklátur öllum þeim sem komu á völlinn til þess að styðja við bakið á okkur og ég tel að það hafi gert gæfumuninn á örlagaríkum augnablikum í leiknum,“ sagði Emil Hallfreðsson.

*Frekari viðbrögð landsliðsmanna og þjálfara eru á mbl.is/sport.