Davíð Hjálmar í Davíðshaga yrkir um „Skólaforðun“: Skrópið í skóla var forðun, skömmin mun fylgja mér æ. Það kallar menntafólk morðun marhnút þá dró ég úr sæ en nú lýkur bið eftir borðun; bjúgu í kvöldmat ég fæ.

Davíð Hjálmar í Davíðshaga yrkir um „Skólaforðun“:

Skrópið í skóla var forðun,

skömmin mun fylgja mér æ.

Það kallar menntafólk morðun

marhnút þá dró ég úr sæ

en nú lýkur bið eftir borðun;

bjúgu í kvöldmat ég fæ.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði:

Séra Fúsi á Felli

á freistinga hálu svelli

oft syndugur féll

og sínum þann skell

kenndi brotlegum belli.

Helgi R. Einarsson yrkir „eina úr sveitinni“:

Aumingja Gutti' er nú geldur,

því greddu var ofurseldur.

Staðfasta stoltið

af stallinum oltið.

Hitt vildi' ann miklu heldur.

Ingólfur Ómar skrifaði í Leirinn í tilefni af sjómannadeginum:

Fyrir hreysti, dug og dáð

drengjum hampa góðum,

í stormi og byljum hildi háð

þeir hafa á ránarslóðum.

Hræðast ekki hættu og nauð

hetjur sóknardjarfar,

út á sjóinn sækja auð,

sannir landsins arfar.

Fía á Sandi var á öðrum nótum: „Við notuðum sjómannadaginn til að skreppa eina ferð á sandinn með kerru. Aflinn var sæmilegur, lítið um bændaplast í dag en þess meira frá sjómönnum svo sem litríkar kúlur og blá plastrifrildi. Það stefnir í ferð í gáminn.“

Þeir er sjóinn sækja fast

í sól og líka í hretum

færa okkur fagurt plast

og fullt af rifnum netum.

Gústi Mar svaraði:

Þó strákar mígi í saltan sjó,

á sænum oft þó busli,

hélt þeir væru hættir þó

að henda í sjóinn rusli.

Fía sagði, að sumt væri reyndar hætt að sjást:

Ekki munu úti á sjó

allir vera að gæta sín.

En eitthvað breytist alltaf þó,

aldrei rekur brennivín,

– lengur, né flöskur undan því.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is