Björn segir innlend og erlend fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi þurfa að hlíta sömu leikreglum.
Björn segir innlend og erlend fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi þurfa að hlíta sömu leikreglum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Krefjandi verkefni bíða Björns Víglundssonar í nýju starfi sem framkvæmdastjóri Iceland Travel og viðeigandi að hann sé vanur að hlaða rafhlöðurnar með fjallahjóla- og skíðaferðum um íslenska náttúru.

Krefjandi verkefni bíða Björns Víglundssonar í nýju starfi sem framkvæmdastjóri Iceland Travel og viðeigandi að hann sé vanur að hlaða rafhlöðurnar með fjallahjóla- og skíðaferðum um íslenska náttúru.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Það ekkert leyndarmál að greinin er að ganga í gegnum ákveðna aðlögun eftir mörg ótrúleg vaxtarár. Ísland sem áfangastaður er þó ekki á neinni útleið, að mínu mati. Við bjóðum gestum okkar upp á ótrúlega lífsreynslu og ánægja ferðalanga með heimsókn sína til Íslands er mjög mikil. Ég er því mjög bjartsýnn á að okkur takist að endurskipuleggja okkur á næstu mánuðum og misserum og þannig mun ferðaþjónustan áfram verða einn mikilvægasti hornsteinninn í efnahagslegu tilliti.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar?

Ég man ekki til þess að nein ein bók hafi haft afgerandi áhrif á það hvernig ég starfa. En ég tek þó alltaf eitthvað með mér úr hverju sem ég les. Ætli ég hafi þó ekki nýtt mest bókina The four disciplines of execution eftir Covey, Huling og McChesney. Hún hefur kennt mér ágætlega að einfalda markmiðasetningu og mæla árangur.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Íslendingar eru frábærir í að takast á við breytingar í rekstrarumhverfi, það höfum við margoft sýnt. Ferðaþjónustan fann vel fyrir því á uppgangstíma og nú tökumst við á við breytingar í hina áttina. Ég held að aðlögunarhæfni fólksins okkar sé því á meðal okkar helstu kosta.

Gallarnir eru auðvitað einnig til staðar. Stærsta áskorunin er og verður, að mínu mati, að takast á við breytingar gjaldmiðilsins gagnvart helstu viðskiptalöndum.

Hvað gerirðu til að fá

orku og innblástur í starfi?

Fjölbreytt hreyfing er auðvitað frábær hvíld frá daglegum önnum. Sú hreyfing sem ég stunda kallar oft á smá ferðalög og því fæst innblástur í starfið auðveldlega í tengslum við áhugamálin. Að hjóla á fjallahjóli í Landmannalaugum er t.d. ágætis leið til þess að fá innblástur.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Ég hef þá almennu trú að draga eigi úr flækjustigi hins opinbera og einfalda laga- og regluverk eins og kostur er. Hvað ferðaþjónstuna varðar myndi ég vilja tryggja það að allir sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu, hvort sem við erum að tala um innlend eða erlend fyrirtæki, sitji við sama borð. Það gengur einfaldlega ekki að erlend fyrirtæki komist upp með að stunda hér rekstur án þess að búa við sömu leikreglur t.d. hvað varðar skattskil og önnur vinnumarkaðsmál.

Hin hliðin

Nám: Verslunarskóli Íslands 1987 til 1991; BSc í stjórnun frá University of Tampa 1996.

Störf: Framkvæmdastjóri markaðssviðs P. Samúelsson ehf./Toyota 1996 til 2005; framkvæmdastjóri vátryggingasviðs Tryggingamiðstöðvarinnar 2005; framkvæmdastjóri markaðssviðs Fjarskipta hf. / Vodafone 2005 til 2009, þá framkvæmdastjóri einstaklingssviðs 2009 til 2013; framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs 2013 til 2017; framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn hf. / Stöð 2 2017 til 2019. Framkvæmdastjóri Iceland Travel frá 2019.

Áhugamál: Áhugamaður um golf og almenna útivist. Skíði stunduð af kappi þegar snjóar og fjallahjólið notað á sumrin eins mikið og færi gefst.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra. Við eigum þrjú börn: Andreu Öldu, Unni og Ara Björn.