Áhorfendaverðlaun Hrafnhildur Gunnarsdóttir hæstánægð með Einarinn.
Áhorfendaverðlaun Hrafnhildur Gunnarsdóttir hæstánægð með Einarinn.
Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, fór fram á Patreksfirði í þrettánda sinn um hvítasunnuhelgina og voru 14 íslenskar heimildarmyndir frumsýndar og sex verk í vinnslu voru kynnt.

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, fór fram á Patreksfirði í þrettánda sinn um hvítasunnuhelgina og voru 14 íslenskar heimildarmyndir frumsýndar og sex verk í vinnslu voru kynnt. Hátíðinni lauk með hefðbundnum hætti þegar gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni sýningu lokamyndar og síðustu mynd og atkvæðagreiðslu hátíðargesta. Áhorfendaverðlaunin, Einarinn, hlaut heimildamyndin Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur sem fjallar um vídeólistamennina og frumkvöðlana Steinu og Woody Vasulka.

Heimildarmyndin Í sambandi ( In Touch ) eftir Pawel Ziemilski hlaut dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann. Hún fjallar um pólska íbúa á Íslandi og hvernig þeir halda tengslum við sína nánustu, samkvæmt tilkynningu.

Dómnefnd var skipuð leikstjóranum Hafsteini Gunnari Sigurðssýni, Margréti Örnólfsdóttur handritshöfundi og Önnu Þóru Steinþórsdóttur, tvöföldum sigurvegara frá hátíðinni í fyrra og höfðu þau m.a. þetta að segja um verðlaunamyndina: „Þetta er hrífandi, úthugsað, djarft og frumlegt verk sem skapar sitt eigið tungumál og miðlar stórri sögu á áhrifamikinn hátt. Leikstjórinn býr yfir næmni og hefur mikil og góð tök á miðlinum.“

Leikstjórinn átti ekki heimangengt og tók meðframleiðandi myndarinnar, Anton Máni Svansson, því við verðlaununum.