Á sýningu Þýsk-pólski ljósmyndarinn Marzena Skubatz á sýningunni í Árbæjarsafni.
Á sýningu Þýsk-pólski ljósmyndarinn Marzena Skubatz á sýningunni í Árbæjarsafni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Sýningin HEIMAt – tveir heimar varpar ljósi á sérstakar aðstæður í fortíð og nútíð. Þar sýnir þýsk-pólski ljósmyndarinn Marzena Skubatz myndir sem veita innsýn í líf afkomenda Þjóðverja, aðallega þýskra kvenna, sem komu til Íslands eftir seinni heimsstyrjöld í leit að betra lífi. 70 ár eru liðin síðan en það voru á fjórða hundrað Þjóðverja sem hingað komu með strandferðaskipinu Esju og öðrum skipum.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Sýningin HEIMAt – tveir heimar varpar ljósi á sérstakar aðstæður í fortíð og nútíð. Þar sýnir þýsk-pólski ljósmyndarinn Marzena Skubatz myndir sem veita innsýn í líf afkomenda Þjóðverja, aðallega þýskra kvenna, sem komu til Íslands eftir seinni heimsstyrjöld í leit að betra lífi. 70 ár eru liðin síðan en það voru á fjórða hundrað Þjóðverja sem hingað komu með strandferðaskipinu Esju og öðrum skipum.

Vantaði fólk í landbúnað

„Það vantaði verkafólk í landbúnað vegna þess að það voru allir að flytja til Reykjavíkur. Fólk vissi að það var atvinnuleysi og hörmungar eftir stríðið í Þýskalandi og því var auglýst eftir fólki þar,“ segir Jóhanna Guðrún Árnadóttir, sýningarstjóri HEIMAt .

Á sýningunni verða einnig til sýnis sögulegar ljósmyndir sem veita innsýn í aðstæður Þjóðverjanna fyrir 70 árum. Annars vegar eru myndirnar af komu fólksins til landsins en ljósmyndari Morgunblaðsins, Ólafur K. Magnússon, frumkvöðull í blaðaljósmyndun hérlendis, var viðstaddur þegar Esja lagðist að bryggju í Reykjavík þann áttunda júní 1949. Hins vegar munu á sýningunni vera til sýnis myndir af kringumstæðunum í Þýskalandi sem margir Þjóðverjanna kusu að hverfa frá.

Báðir heimar dýpka efnið

„Þessar myndir eru mjög áhrifamiklar. Titillinn HEIMAt – tveir heimar vísar til þess að við séum með myndir af báðum stöðum. Það er því orðaleikur, að sýna Þýskaland og Ísland. Sögulegu ljósmyndirnar eru framlag safnsins til að dýpka efnið,“ segir Jóhanna. Þýska orðið „heimat“ útleggst ættjörð á íslenskri tungu.

„Marzena hefur verið að hitta þetta fólk, mestmegnis konur, sem settust hér að. Þær hafa auðvitað búið hér alla tíð og eiga afkomendur á Íslandi en þeir eru orðnir eitthvað vel á þriðja þúsund manns. Sýningin er mjög íslensk og það er ljóðrænn tilfinningablær yfir henni sem er mjög fallegt.“

Ljósmyndasýningin verður á Árbæjarsafni. Hún verður opin almenningi frá 13. júní og stendur til 31. október. Jóhanna segir að staðsetningin fyrir sýninguna sé táknræn þar sem Þjóðverjarnir komu flestir úr borgum og fóru yfir í íslenska sveit.

„Við erum svolítið að slá tvær flugur í einu höggi með því að hafa þetta hér. Konurnar kunna vel að meta staðsetninguna. Þær fóru allar í sveitir og við erum í raun sveit í borg hérna á Árbæjarsafni. Við horfum hérna á hesta og kindur og það rímar virkilega vel við efnið. Sýningin hefði getað verið í hvaða sýningarsal sem er en það passar mjög vel við sögu þeirra að hafa þetta hér.“

Forseti Þýskalands opnar

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, mun opna sýninguna 12. júní, daginn áður en sýningin verður opnuð almenningi.

„Hann vill endilega hitta þessar konur. Þessi opnun snýst að stórum hluta um það að hann geti sest niður og talað við þær og vottað þeim sína virðingu með því,“ segir Jóhanna.

Marzena komst á snoðir um þessa sérstöku sögu vegna vina sem hún á hérlendis. „Vinkona hennar á Íslandi þekkir eina af þessum konum svo þannig kviknaði áhuginn hjá Marzenu,“ segir Jóhanna.

Skilur þetta vel

Marzena hefur upplifað það að flytjast búferlum og hefur djúpan skilning á aðstæðunum fyrir vikið, að sögn Jóhönnu.

„Hún er sjálf fædd í Póllandi og flytur mjög ung yfir til Þýskalands svo hún skilur þetta með að rífa upp rætur og festa þær á nýjum stað. Sýningin er svo trúverðug vegna þess að hún skilur þetta vel. Þetta er eitthvað sem virkilega brennur á henni.“

Þýska sendiráðið vinnur nú að því að minnast tímamótanna.

„Þessi sýning er stór hluti af því. Svo fer hennar hluti, HEIMAt , á Listasafnið á Akureyri seinna á árinu og við ætlum að vera með einhverja viðburði fyrir afkomendur og gera eitthvað úr þessu,“ segir Jóhanna.