Hætta Gróðureldar eru ekki algengir hér á landi. Þeir geta verið hættulegir ef þeir ná sér á strik og ógnað lífi fólks og eignum.
Hætta Gróðureldar eru ekki algengir hér á landi. Þeir geta verið hættulegir ef þeir ná sér á strik og ógnað lífi fólks og eignum. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Vegna mikilla þurrka á Suðurlandi beina Brunavarnir Árnessýslu þeim tilmælum til sumarhúsaeigenda og íbúa að fara varlega með eldfæri úti í náttúrunni. Gróðurinn er orðinn svo þurr að aukin hætta er á gróðureldum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Vegna mikilla þurrka á Suðurlandi beina Brunavarnir Árnessýslu þeim tilmælum til sumarhúsaeigenda og íbúa að fara varlega með eldfæri úti í náttúrunni. Gróðurinn er orðinn svo þurr að aukin hætta er á gróðureldum. Ástandið er ólíkt því sem ríkti á rigningarsumrinu á síðasta ári.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir að slökkviðið hafi verið kallað út nokkrum sinnum vegna gróðurelda í sumar. Allir hafi þeir verið litlir „en lítil útköll verða stundum stór“, eins og Pétur tekur til orða og því þurfi að hafa varann á.

Glóð frá grillum og sígarettum

Hann segir að mikil sina sé enn í gróðurbotninum og lítið megi út af bera til þess að sinueldar breiðist út. „Það er full ástæða til að minna fólk á og fá það í lið með okkur. Við þurfum að hjálpast að við þetta verkefni. Það er ekki nóg að hringja í slökkviliðið þegar eitthvað bjátar á, við þurfum að taka ábyrgð á okkar gerðum,“ segir Pétur.

Hann segir algengast að gróðureldar myndist út frá sígarettum og einnota grillum. „Það er ótrúlegt hvað fólk getur gleymt sér, í augnabliks hugsunarleysi. Þegar búið er að grilla og borða gleymist grillið stundum þegar staðurinn er yfirgefinn. Það getur líka gerst þótt fólk helli kolunum úr og taki bakkann með sér að ekki sé gengið nógu vel frá glóðinni. Glóð frá kolum eða sígarettum getur lifað lengi í sverðinum og orðið að eldi löngu eftir að fólk er komið heim til sín. Þess vegna er mikilvægt að setja kolin í sand eða á annað gott undirlag og stein yfir. Það er líka umhverfismál,“ segir Pétur.

Hættulegir eldar

Fólk og mannvirki geta verið í hættu þegar gróðureldar ná sér á strik, eins og hægt er að sjá á fréttum frá öðrum löndum. „Ef það kviknar í gróðri utarlega í sumarhúsabyggð og vindurinn stendur á byggðina getur myndast 20-30 metra eldveggur sem fer með gönguhraða yfir byggðina. Versta sviðsmyndin er að svæðið brenni allt og sumarhúsin með. Það fer að vísu eftir þurrki og vindátt,“ segir Pétur.

Gróðureldar eru ekki algengir hér á landi og ekki hefur oft orðið eignatjón. Nýlegasta dæmið eru sinueldar á Mýrum vorið 2006, Mýraeldar. Þar brunnu 68 ferkílómetrar lands en slökkviliði og bændum tókst með mikilli vinnu að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu eldanna og að þeir bærust í mannvirki. Þó eru Mýraeldar taldir mestu sinueldar á síðustu öldum og jafnvel einhverjir mestu gróðureldar hér á landi frá landnámi.

Aðstæður eru öðruvísi á Mýrum en í helstu sumarhúsabyggðum sunnanlands og vestan. Lággróður einkennir Mýrarnar en skógur og mun meiri gróður er í sumarhúsabyggðunum. Því er enn meiri eldsmatur í hverfunum.

Hugað að forvörnum

Í tilkynningu Brunavarna Suðurlands eru sumarhúsaeigendur og íbúar hvattir til að vera á varðbergi og hafa garðslöngur klárar og sinuklöppur til að geta brugðist hratt við ef gróðureldar kvikna.

Starfsmenn Brunavarna Suðurlands hafa að undanförnu haldið fyrirlestra fyrir búnaðarfélög og sumarhúsafélög til að fara yfir hætturnar. Þá vísar Pétur slökkviliðsstjóri á ágæta upplýsingasíðu, grodureldar.is. Þar má meðal annars finna upplýsingar um forvarnir og viðbrögð við gróðureldum.