Stoltenberg Segir framlag Íslands til NATO mikils metið og finnst hann vera „smá heima“ þegar hann kemur hingað.
Stoltenberg Segir framlag Íslands til NATO mikils metið og finnst hann vera „smá heima“ þegar hann kemur hingað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir mikilvægt að hafa í huga að friður í aðildarríkjum bandalagsins sé síður en svo sjálfsagður.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir mikilvægt að hafa í huga að friður í aðildarríkjum bandalagsins sé síður en svo sjálfsagður. Horfast þurfi í augu við að aldrei verði að fullu komið í veg fyrir hryðjuverk og þegar aðildarríki NATO verði fyrir slíkum árásum leiti hann í persónulega reynslu sína síðan hann stóð frammi fyrir hryðjuverkunum í Útey og Ósló í júlí 2011, þegar hann var forsætisráðherra Noregs og þurfti að hughreysta þjóð sína. Hann segir að mikilvægi ríkjanna á Norðurslóðasvæðinu fyrir NATO fari vaxandi og að Ísland gegni mikilvægu hlutverki innan bandalagsins á margan hátt.

Stoltenberg var staddur hér á landi í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær þar sem hann átti vinnu- og samræðufundi með Katrínu og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Síðar um daginn hélt hann erindi á opinni málstofu á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ, utanríkisráðuneytisins og Varðbergs og eftir þann fund gaf hann sér tíma til að setjast niður til viðtals með blaðamanni Morgunblaðsins. Stoltenberg var kátur eftir fundinn sem hann sagði einkar vel heppnaðan og hann væri síður en svo þreyttur eftir öll fundahöld dagsins. „Ég er kornungur maður og það þarf meira en þetta til að þreyta mig,“ sagði hann hlæjandi. „Allir þessir fundir minna mig á kosningabaráttuna í gamla daga.“

Heimsóknir sem þessar eru talsverður hluti af starfi Stoltenbergs, en hann segir að nærri láti að hann heimsæki eitt NATO-ríki í hverri viku. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mig til að öðlast skilning á afstöðu þeirra til mismunandi verkefna NATO. Ríkin eru vissulega 29 talsins, en það er síður en svo þannig að öll hafi þau sama sjónarhornið.“

Tvískipt samband við Rússa

Áðurnefndur fundur var haldinn undir yfirskriftinni NATO og Ísland í 70 ár: Öflug samvinna á óvissutímum. Spurður um hvaða óvissu NATO-ríkin búi við núna, 70 árum eftir stofnun bandalagsins, segir Stoltenberg að hún felist fyrst og fremst í ófyrirsjáanleika. „Á tímum kalda stríðsins tókust austur og vestur á á ýmsan hátt. Að hluta til var það ástand fyrirsjáanlegt; það var auðvelt að bera kennsl á hætturnar því þær komu fyrst og fremst úr einni átt; frá Sovétríkjunum. Ástandið í dag er brotakenndara og flóknara ekki síst vegna framferðis Rússa en einnig vegna ýmissa hryðjuverkasamtaka víðs vegar í heiminum og ný tækni spilar þar inn í. Þetta er áskorun fyrir NATO og það verður sífellt erfiðara að spá fyrir um hvaða ógnir við þurfum að fást við á morgun. Fáir hefðu getað spáð fyrir um hryðjuverkin í Bandaríkjunum 9/11, vöxt ISIS eða netárásir sem gerast á hverjum einasta degi.“

Hvernig skilgreinirðu samband NATO við Rússland? „Ég held að því verði best lýst með því að segja að það sé tvískipt. Við þurfum að sýna styrk og samheldni og senda skýrt út þau skilaboð að ef ráðist er á eitt ríki, þá muni allt bandalagið bregðast við. En á sama tíma sendum við út skýr skilaboð um að við séum tilbúin í að bæta samskiptin með samtölum.“

Fordæmalaust í sögunni

Stundum er sagt að ef Rússland væri ekki til, þá væri lítil þörf fyrir NATO. „Á meðan einhverjar mögulegar ógnir eru til staðar gagnvart aðildarríkjum NATO, þá þurfum við á bandalaginu að halda. Við megum ekki gleyma því að nú höfum við á Vesturlöndum búið við 70 ára samfelldan frið. Þetta má m.a. þakka því að eftir síðari heimsstyrjöldina var komið á fót alþjóðasamtökum þjóða sem höfðu það meginverkefni að varðveita friðinn, þetta voru Sameinuðu þjóðirnar og NATO. Svona langt friðartímabil er fordæmalaust í sögunni, þessu ber að fagna en á sama tíma þurfum við að hafa í huga að þetta er ekki sjálfsagt. Friður er ekki sjálfsagður og það eru alltaf nýjar áskoranir, ný verkefni m.a. með tilkomu uppgangs hryðjuverkasamtaka, breytingu á valdajafnvægi í heiminum og tölvuárásum.“

Þú nefnir þær áskoranir sem mæta NATO. En það eru ekki síður áskoranir innan NATO sem þú hlýtur að þurfa að fást við. Til dæmis hefur verið talsverð umræða um að smærri aðildarríkin þurfi að leggja meira af mörkum til bandalagsins. Hver er staða smáríkis á borð við Ísland innan NATO? „Ísland er vissulega lítið, á því er enginn vafi,“ svarar Stoltenberg og hlær. „En stærðin skiptir ekki alltaf öllu máli og framlag Íslands er mikils metið. Við megum ekki gleyma því að Ísland var eitt af stofnríkjum NATO árið 1949, það var nákvæmlega jafn herlaust þá og í dag og litlu sem engu fé var þá ráðstafað til varnar- eða öryggismála. Landfræðileg staða landsins í miðju Atlantshafinu er mikilvæg, t.d. hefur flugvöllurinn í Keflavík skipt miklu máli í eftirliti í lofti á norðurslóðum, ekki síst þar sem fleiri rússnesk loftför, skip og kafbátar fara nú um Norður-Atlantshafið en fyrir nokkrum árum. Þá leikur Ísland mikilvægt hlutverk við ýmsa þjálfun innan NATO, m.a. í Afganistan og Kósóvó.“

Hefur mikilvægi Íslands aukist í takt við aukna áherslu á norðurslóðasvæðið? „NATO sinnir ýmsum verkefnum á því svæði og fimm af átta aðildarþjóðum norðurskautsráðsins eru NATO-ríki. Ísland gegnir stóru hlutverki þar og með aukinni áherslu á þetta svæði eykst að sama skapi mikilvægi ríkjanna á svæðinu.“

Höldum fast í okkar gildi

22. júlí 2011 voru fordæmalaus hryðjuverk framin í Útey og Ósló. Stoltenberg var þá forsætisráðherra Noregs og æðrulaus viðbrögð hans, raunar norsku þjóðarinnar allrar, vöktu aðdáun og virðingu víða um heim. Spurður um hvort hann leiti í eigin reynslu í núverandi starfi sínu þar sem sífellt meiri athygli beinist að hryðjuverkum segir hann svo vera . „Ég hef hitt leiðtoga ýmissa landa þar sem hryðjuverk hafa verið framin. Ég hef getað deilt reynslu minni frá Noregi og það sem ég legg áherslu á fyrst og síðast er að við stöndum fast við okkar gildi. Það sem hryðjuverkamenn vilja öðru fremur er að ráðast á okkar opnu og frjálsu samfélög; að grafa undan lýðræðinu okkar og því trausti sem við berum hvert til annars. Besta svarið við því er að standa fast við það sem við trúum á og vernda þau samfélög sem við höfum byggt upp.“

Fáum aldrei 100% tryggingu

Varla líður sá dagur án þess að við heyrum af nýjum hryðjuverkaógnum og hugmyndaauðginni í þeim efnum virðast fá takmörk sett. Verða hryðjuverkamenn ekki alltaf einu skrefi á undan? „Það sem hefur einkennt NATO í gegnum tíðina er hæfileiki til að bregðast við nýjum aðstæðum. Þegar heimurinn breytist, þá breytist NATO.“ En er þessi breyting nógu hröð? „Já, það tel ég vera og rökstyð það með þeirri staðreynd ekki hefur verið ráðist á neitt NATO-ríki undanfarin 70 ár. En við verðum að horfast í augu við að við munum aldrei hafa 100% tryggingu fyrir því að verða ekki fyrir hryðjuverkaárás; stundum eru þær gerðar af „einmana úlfum“ sem vinna algerlega einir, stundum er þeim beint gegn almennum borgurum, stundum gegn stofnunum. Það sem við getum gert er að hækka þröskuldinn eins og við mögulega getum með þeim leiðum sem okkur eru færar og bregðast við eins hratt og við mögulega getum. Staðreyndin er sú að NATO hefur komið í veg fyrir fjölmörg hryðjuverk og mun halda því áfram.“

Blaðamaður fær nú merki frá fjölmiðlafulltrúa NATO um að þeim tíma, sem úthlutaður var til viðtalsins, sé að ljúka og einungis tími fyrir eina örstutta spurningu í viðbót.

Saknarðu hringiðu stjórnmálanna í Noregi?

„Að mörgu leyti er ég enn þá stjórnmálamaður því ég hitti og ræði við svo marga slíka um sameiginlega hagsmuni. Ég get ekki beint sagt að ég sakni þess að vera stjórnmálamaður, en ég sakna fólksins úr stjórnmálunum. Margt þeirra var samstarfsfólk mitt í mörg ár og urðu góðir vinir mínir,“ svaraði Stoltenberg og bætti við að hann væri afar þakklátur fyrir þær móttökur sem hann fékk hér á landi. „Mér finnst ég alltaf vera „smá heima“ þegar ég kem til Íslands.“

Meira sameiginlegt en nokkru sinni fyrr

• Verði viðbúin að kjarnorkuvopnasamkomulagið falli úr gildi Fullt var út úr dyrum í sal Norræna hússins í gær þegar Jens Stoltenberg talaði þar á opnum fundi Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Varðbergs. Svo fór að opna þurfti hliðarsal svo allir þeir sem áhuga höfðu gætu fylgst með fundinum.

Stoltenberg sagði bandalagið kljást sérstaklega við þrjú viðfangsefni sem skiptu sköpum fyrir framtíð bandalagsins og aðildarríkjanna allra. „Menn eru að setja spurningarmerki við styrkleika NATO, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.“ Einnig væru margir ósammála beggja vegna Atlantshafsins um „tollamál, viðskipti, Íran og loftslagsmál,“ svo fátt væri nefnt.

Mikið væri rætt um ósamræmi og sundrungu, en aðildarríkin væru nú að gera meira sameiginlega en nokkru sinni fyrr. „Margir telja að Bandaríkin séu að yfirgefa Evrópu, en Bandaríkin hafa aukið viðveru sína í Evrópu og fjárfestingar í innviðum og búnað um 40% frá því að Trump varð forseti.“

Verði ekki átakasvæði

„Í öðru lagi er það áskorun er snýr að Íslandi. Hvernig getum við tryggt að norðurslóðir verði ekki átakasvæði? Við ættum að halda áfram að vinna í þá átt. En við verðum að horfast í augu við að það er verið að auka hervæðingu, fjölga herstöðvum, kafbátum og flugvélum,“ útskýrði Stoltenberg.

„Í þriðja lagi er það eftirlit með vopnasölu og takmörkun á útbreiðslu gereyðingavopna,“ sagði Stoltenberg og vísaði til þess að Rússland hafi með nýjum kjarnorkueldflaugum brotið gegn INF-samningnum sem var gerður í þeim tilgangi að stöðva fjölgun kjarnorkuvopna.

„Bandarísk stjórnvöld, undir stjórn Obama og Trump, hafa ítrekað reynt að ræða málið við Rússa án árangurs. Við verðum að vera undir það búin að sú staða geti komið upp að INF-sáttmálinn sé ekki lengur í gildi,“ bætti hann við og ítrekaði mikilvægi þess að Rússar komi aftur að samningaborðinu og undirgangist samninginn sem gerður var í kjölfar Reykjavíkurfundarins árið 1986.

annalilja@mbl.is, gso@mbl.is

Jens Stoltenberg
» Fæddur í Ósló 1959, sonur Thorvald Stoltenberg sem var utanríkisráðherra 1987-'89.
» Hagfræðingur frá Óslóarháskóla 1987.
» Var kosinn á þing fyrir norska Verkamannaflokkinn árið 1991.
» Iðnaðar- og orkumálaráðherra 1993-'96.
» Fjármálaráðherra 1996-'97.
» Forsætisráðherra 2000-'01 og '05-'13.
» 2014 varð hann 13. framkvæmdastjóri NATO.