Árni Gunnarsson
Árni Gunnarsson
Eftir Árna Gunnarsson: "Gert er ráð fyrir að árið 2030 verði hlutfall eldri borgara af íbúafjölda á Íslandi allt að 19 af hundraði."

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi fyrir nokkrum dögum ræddu nokkrir þingmenn málefni eldri borgara og kváðust hafa umtalsverðar áhyggjur af slakri stöðu þeirra! Samtök eldri borgara hafa lýst þeirri skoðun að fyrir löngu hefðu stjórnvöld átt að grípa til aðgerða í málefnum ellilífeyrisþega á ýmsum sviðum. Í nýlegu sjónvarpsviðtali sagði þingmaður að of seint hefði verið í rassinn gripið í hagsmunamálum aldraðra.

Á 127. löggjafarþingi árin 2001 til 2002 lagði Ísólfur Gylfi Pálmason fram þingsályktun um könnun á áhrifum aldurshópabreytinga á Íslandi eftir árið 2010. Þar er skorað á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sérfræðinga til að kanna áhrif fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar eftir árið 2010 á eftirlauna- og lífeyrismál og á heilbrigðiskerfið.

Ísólfur Gylfi hafði sýnt þessum málaflokki áhuga. Ég fékk hann til að flytja tillöguna, sem var sameiginleg smíð okkar. Í grg. tillögunnar segir m.a. að frá árinu 1970 til 1995 hafi Íslendingum 65 ára og eldri fjölgað úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%. Í spá um þetta hlutfall til ársins 2030 er gert ráð fyrir fjölgun um allt að 19 af hundraði. Þessar miklu breytingar myndu kalla á umtalsverðar aðgerðir til að greiða fyrir hagsmunamálum lífeyrisþega.

Þá er þess getið í greinargerð að víða á Vesturlöndum hefðu farið fram rannsóknir á áhrifum þeirra aldursskiptinga sem fyrirsjáanlegar eru næstu áratugi. Sífellt fleiri nái háum aldri, m.a. vegna framfara í læknisfræði, betri heilbrigðisþjónustu og bætts aðbúnaðar. Þessi fjölgun hafi áhrif á kostnað við heilbrigðisþjónustu og aukin útgjöld lífeyriskerfisins.

Því má svo bæta við að þegar tillagan var flutt var fyrirsjáanlegt að stjórnvöld yrðu að starfa eftir áætlun um uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða, en þá þegar gat t.d. Landspítalinn ekki losað legurúm þar eð ekki var nægt rými í hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir aldraða. Nú er það orðið eitt stærsta vandamál spítalans.

Þessi þingsályktunartillaga var tilraun til að vekja athygli stjórnvalda á þeirri nauðsyn að hefja þegar í stað undirbúning til að mæta sífellt breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, þ.e. stöðugri og mikilli fjölgun eldri borgara. Áður hafði ég skrifað greinar um þessar tölulegu staðreyndir og nefnt þær á fundum.

Tillaga var lítillega rædd á Alþingi 9. apríl árið 2002. Málinu var síðan vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar en þar dagaði það uppi og var aldrei frekar rætt. Gera má ráð fyrir að hefði þessi tillaga verið samþykkt og vinnuhópur sérfræðinga valinn til að skoða málið og gera áætlun um viðbrögð, þá hefði staða eldri borgara á Íslandi verið önnur og betri í dag.

Það eru því heil 17 ára síðan reynt var að vekja athygli Alþingis á þeim vanda, sem þá var fyrirsjáanlegur, og hefur ekki gert annað en að vaxa hin síðari ár.

Höfundur er fv. alþingismaður. gunnsa@simnet.is

Höf.: Árna Gunnarsson