[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Golnaz Hashemzadeh Bonde. Páll Valsson þýddi. Bjartur, 2019. 222 bls.

Þ akkarskuld er flókin skáldsaga og grípandi þar sem dauðvona kona horfir yfir farinn veg og gerir upp líf sitt. Nahid, uppreisnargjörn ung stúlka, sem í byltingunni í Íran vill bjóða valdinu byrginn. Allt fer hins vegar á versta veg og að endingu flýr hún ásamt Masood, manni sínum, undan klerkastjórninni, sem tekur völdin eftir byltingu.

Rúmum tveimur áratugum síðar greinist Nahid með krabbamein og er sagt að það sé ólæknandi. Lýsir sagan samskiptum hennar við dóttur sína og hugleiðingum um það sem var og hefði getað orðið, beiskju og eftirsjá. Hún elskar dótturina en er stöðugt með ónot í hennar garð og ófær um að segja henni hugsanir sínar. Hið ósagða leikur stórt hlutverk í frásögninni, það sem hefði verið hægt að segja og gera og það sem var sagt og gert.

Í Íran sóttust Nahid og Masood eftir frelsi og lýðræði, en þegar það fer úrskeiðis er þeim ekki vært lengur. Í útlegðina fylgir þeim skugginn af andláti yngstu systur hennar, sem fylgdi þeim í mótmæli eitt kvöldið, hvarf og sneri aldrei aftur.

Samband þeirra er líka orðið eitrað og það brýst út í vægðarlausu heimilisofbeldi, sem Nahid heldur að hafi sprottið af því að þau hafi ekki getað grátið saman.

Í Svíþjóð bíður öruggara líf, en það reynist innantómt. Ræturnar eru annars staðar. „Ég velti nú fyrir mér hvort sé mikilvægara: Frelsi og lýðræði, eða fólk sem elskar þig. Fólk sem getur séð um barnið þitt þegar þú deyrð,“ hugsar Nahid.

Vonin er að dóttir hennar og afkomendur hennar fái þær rætur, sem Nahid fórnaði.

Höfundur bókarinnar, Golnaz Hashemadeh Bonde, fæddist í Íran 1983 og flúði með foreldrum sínum til Svíþjóðar þegar hún var barn að aldri. Það er engin ástæða til að gefa sér að Þakkarskuld sé sjálfsævisaga, en vitaskuld er hún vísun í reynslu, sem höfundur þekkir af eigin raun. Lýsingar hennar eru átakanlegar og grípandi og frásögnin kemst vel til skila í lipurri þýðingu Páls Valssonar.

Hún lýsir þeirri stöðu, sem margir eru í vegna ógnarstjórnar eða átaka heima fyrir. Þeir hrekjast brott frá heimkynnum sínum og vilja setjast að þar sem friður ríkir og lýðræði og mannréttindi. Þegar takmarkinu er náð er enga eirð að finna því að ræturnar eru annars staðar og það er næstu kynslóðar eða þar næstu að skjóta rótum á nýjum stað.

Karl Blöndal