Hmm Füzzelskir bíða spenntir eftir A+B.
Hmm Füzzelskir bíða spenntir eftir A+B.
Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi þá missi ég helst ekki af hinum hávandaða rokkþætti Füzz á Rás 2 á föstudagskvöldum.

Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi þá missi ég helst ekki af hinum hávandaða rokkþætti Füzz á Rás 2 á föstudagskvöldum. Þar síðast var eftirvæntingin óvenjumikil þegar ég hlammaði mér niður í koníaksstofunni á sveitasetri mínu og fíraði upp í kamínunni enda hafði komið fram að einn af föstu liðunum í þættinum, A+B, yrði með mínum gömlu vopnabræðrum í Iron Maiden. Fyrir þá sem ekki þekkja til Füzz þá er A+B vel valin smáskífa með Homeblest-heilkennið.

Svo beið ég og beið og beið og beið, eins og Laddi forðum. Og ekkert bólaði á Járnfrúnni. Þegar ég skoða atburðarásina af yfirvegun í samhengi þá er það íslenska kvennalandsliðinu í handbolta að kenna. Stelpurnar okkar voru að glíma við Spánverja sem varð til þess að sjónvarpsfréttum seinkaði sem aftur varð til þess að gestur kvöldsins í Füzz, Bogi Ágústsson, varð seinn en hann las fréttirnar þetta kvöld. Bunan stóð svo alllengi upp úr Boga með þeim afleiðingum að A+B hrökk út af borðinu. Bogi var að vísu bráðskemmtilegur, svo því sé til haga haldið.

Vissulega var þetta högg en það mildaði áhrifin að umsjónarmaður Füzz, Ólafur Páll Gunnarsson, lofaði að A+B kæmi bara næst. En hvað var a'tarna? Viku seinna kom ekki Iron Maiden heldur Clash. Köttur í bóli bjarnar. Óli Palli hlýtur að leiðrétta þessi mistök á föstudaginn kemur!

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson