Sigrún Elsa Smáradóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir
Eftir Sigrúnu Elsu Smáradóttur: "Af hverju tökum við ekki bara umræðuna um sæstrenginn núna?"

Hæ, hó, ég heiti Sigrún og ég hef efasemdir um þriðja orkupakkann. Þetta hljómar eins og kveðja á sjálfshjálparfundi sem maður hefur þurft að klúðra einhverju stóru í lífinu til að lenda á. En hér er ég og get ekki annað. Mér finnst það einkennilegt að samþykkja og „innleiða“ lög á þeim forsendum að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af regluverkinu þar sem „sennilega“ muni aldrei reyna á það. „Það verði enginn sæstrengur lagður nema með samþykki Alþingis“ – og þar með verði Ísland í raun ekki hluti af sameiginlegum orkumarkaði Evrópu, alla vegana ekki fyrr en Alþingi er búið er að samþykkja lagningu sæstrengs. Þessu er stungið upp í fólk sem hefur efasemdir um samþykkt laga og reglna á Íslandi sem gilda eiga um sameiginlegan raforkumarkað Evrópu.

Fyrir mér og mörgum öðrum er þetta öfugsnúið.

Ef við hugsum okkur að verið væri að samþykkja lög og reglur um rekstur spilavíta (eitthvað sem er ekki eins óáþreifanlegt og leiðinlegt og 3 orkupakkinn hljómar) og bæði þeir sem væru á móti og hlynntir rekstri spilavíta ætluðu að samþykkja reglurnar á þeim forsendum að ekki væri komið byggingarleyfi fyrir spilavíti og því þyrfti engar áhyggjur að hafa af áhrifum reglnanna, væri það í lagi?

Ég fæ ekki betur séð en að það séu margir mjög áhugasamir um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Evrópu. Flest ef ekki öll íslensku orkufyrirtækin hafa látið vinna fyrir sig úttektir um málið og Landsvirkjun er t.d. með á heimasíðu sinni sérstakan rökstuðning fyrir sæstreng til Bretlands https://www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/throunarverkefni/saestrengur. Svo berast fréttir af því að breskir fjárfestar hafi slíkar áætlanir fullfjármagnaðar og tilbúnar til framkvæmda fáist leyfi til lagningar sæstrengs.

Það að samþykkja regluverkið án þess að fyrir liggi hvort það muni eiga við eða ekki gerir að auki alla umræðu um málið brenglaða og útúrsnúningavæna. Af hverju tökum við ekki bara umræðuna um sæstrenginn núna? Viljum við hann eða ekki? Þá vitum við allavega betur hvaða áhrif það sem verið er að samþykkja mun hafa.

Mér finnst ekki ljóst hvort samþykkt þriðja orkupakkans mun auka eða minnka líkurnar á því að sæstrengur verði lagður en hitt er ljóst að ef/þegar Alþingi Íslands samþykkir á endanum lagningu sæstrengs þá mun íslenskur raforkumarkaður lúta þeim evrópsku reglum sem nú er verið að samþykkja (verði þær samþykktar) og því eðlilegt að spurt sé; erum við sátt við að þessar reglur gildi á Íslandi?

Þeir sem eru það alls ekki, eiga ekki að samþykkja þriðja orkupakkann. Þeir sem eru á móti lagningu sæstrengs ættu að velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þeir ættu að samþykkja reglur um eitthvað sem þeir vilja ekki að verði að veruleika og þeir sem eru hlynntir sæstreng ættu því aðeins að samþykkja reglurnar ef þær eru þær reglur sem þeir vilji að gildi um orkuviðskipti á Íslandi ef og þegar af honum verður.

Ég er það trúuð á ágæti Evrópusamvinnu að ég hef fulla trú á að hægt sé að tjónka við Evrópusambandið og samstarfsaðila í EES. Þetta á bara ekki við um Ísland, ekki fyrr en við höfum ákveðið að tengjast raforkumarkaði Evrópu og það getur ekki verið eðlileg krafa að þvinga Ísland til að taka upp regluverk um eitthvað sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um að sé hluti af því umhverfi sem við búum við, ekki frekar en um gasvinnslu eða annað sem ekki á við hér.

Já og nei ég er ekki gengin í Miðflokkinn. Það er landlæg þráhyggja á Íslandi að einhver flokkur eigni sér skoðun og allir sem komist að sömu niðurstöðu séu þá undir áhrifum frá þeim flokki „sem ber að forðast“. Þetta er svo bjánaleg afstaða að við hljótum einhvertímann að vaxa upp úr henni. Nú hef ég ekki kynnt mér málflutning Miðflokksins að öðru leyti en því að þeir eru á móti því að samþykkja þennan 3 orkupakka og veit því í sjálfu sér ekki í hverju þeirra andstaða fellst.

En ég hef reynt að kynna mér málið og þær opinberu álitsgerðir sem lagðar hafa verið fram og mér finnst ekki tímabært að innleiða lög og reglur á Íslandi um sameiginlegan orkumarkað Evrópu þar sem engin ákvörðun hefur verið tekin um að tengjast þeim markaði.

Það hlýtur að vera verra að samþykkja reglur um eitthvað sem maður vill ekki að verði að veruleika heldur en koma málum í farveg sem fellur að manns sannfæringu, jafnvel þó Miðflokkurinn „hafi eignað sér málið“.

Ég er ekki sjálf viss um hvort ég er með eða á móti lagningu sæstrengs, það eru mörg mikilvæg álitamál sem taka þarf tillit til, sem snúa m.a. að tekjuöflun, raforkuverði á Íslandi, atvinnustigi og loftslagsmálum í heiminum. En hitt er ég sannfærð um að ég vil að ef af lagningu sæstrengs verður þá muni samningar og reglur um þau viðskipti taka mið af þeim hagsmunum okkar sem þá blasa við. Sá tími er ekki núna.

Höfundur er sjálfstæður atvinnurekandi og áhugamanneskja um orkumál.

Höf.: Sigrúnu Elsu Smáradóttur