Með betri innviðum mætti rafmagns- eða vetnisvæða skoðunarferðirnar.
Með betri innviðum mætti rafmagns- eða vetnisvæða skoðunarferðirnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Arctic Adventures og Kolviður efna til samstarfs um að kolefnisjafna starfsemi ferðaþjónustufyrirtækisins að stórum hluta.

„Það er af ásetningi gert að við kolefnisjöfnum okkur ekki til fulls. Við viljum ekki bara borga fyrir að núlla út útblástur frá starfseminni og láta þar við sitja, heldur frekar vinna markvisst að því að draga úr koltvísýringslosun okkar,“ segir Kristín Þóra Sigurðardóttir en hún er gæða-, öryggis- og umhverfisfulltrúi Arctic Adventures.

Fyrr í mánuðinum gerði Arctic Adventures samning við kolefnissjóðinn Kolvið um gróðursetningu 10.000 trjáa í Kolviðarskógum en með því tekst að kolefnisjafna 46% af útblæstri fyrirtækisins.

Arctic Adventures er í hópi stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins og býður upp á skoðunarferðir um allt land, jöklaferðir og göngur, flúðasiglingar, köfun og hvalaskoðun svo nokkur dæmi séu nefnd. Reiknast Kristínu til að um 300.000 erlendir ferðamenn hafi keypt ferð hjá Arctic Adventures á síðasta ári.

Það mun taka Kolviðar-trén um 60 ár að binda jafngildi helmings þess koltvísýrings sem floti Arctic Adventures losar og segir Kristín fyrirhugað að halda áfram á sömu braut með árlegri gróðursetningu. „Við ætlum líka að gera tilraun þar sem við bjóðum viðskiptavinum að kolefnisjafna ferðir sínar að fullu með 200 kr. viðbótargreiðslu, sem dugar fyrir einu tré.“

Sjálfbær ferðaþjónusta

Kolefnisjöfnunin mun kosta Arctic Adventures tvær milljónir króna árlega og segir Kristín þessi útgjöld eðlilegan hluta af því að starfrækja sjálfbært ferðaþjónustufyrirtæki. Það samræmist hagsmunun Arctic Adventures að vernda náttúru og umhverfi og að auki geti það gefið fyrirtækinu samkeppnisforskot að sýna ábyrgð í verki enda megi greina vitundarvakningu hjá viðskiptavinum, og spurn eftir umhverfisvænni þjónustu.

Aðspurð hvaða leiðir mætti fara til að draga úr útblæstri Arctic Adventures segir Kristín t.d. hægt að lágmarka lausagöngu bifreiða fyrirtækisins. „Við vitum að það þarf að hita bílana á köldum morgnum en höfum sett reglur um hversu lengi má láta vélina ganga. Þá sjáum við langtímatækifæri í því að hvetja til sparaksturs og vitaskuld fjárfesta í ökutækjum sem ganga fyrir hreinum orkugjöfum.“

Hafa Arctic Adventures þegar eignast tvo litla rafbíla sem notaðir eru til að flytja starfsfólk á milli staða en rútur sem ganga fyrir rafmagni eða vetni virðast ekki enn orðnar hentugur kostur. „Setur þar m.a. strik í reikninginn að innviðina skortir á vinsælum áfangastöðum ferðamanna til að t.d. hlaða rútu á meðan gestirnir skoða náttúruna. Innviðir fara þó batnandi og eygjum við möguleika á að gera tilraunir með nýjar tegundir ökutækja á ákveðnum akstursleiðum.“