Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sat í gær í panel á fréttamannafundi Press Association í London sem haldinn var í tengslum við mál Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sat í gær í panel á fréttamannafundi Press Association í London sem haldinn var í tengslum við mál Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Er Assange ákærður fyrir að brjóta gegn njósnalöggjöf Bandaríkjanna með birtingu á leynilegum hernaðar- og stjórnsýslugögnum.

Ögmundur segir fjölda lögfræðinga og talsmanna WikiLeaks hafa setið fundinn, þar á meðal Kristin Hrafnsson, ritstjóra WikiLeaks, sem hafi svarað spurningum. Hann segir að mikil forvitni hafi legið í loftinu varðandi líðan Julian Assange í fangelsinu.

„Menn hafa miklar áhyggjur. Það er alveg ljóst að Bandaríkjamenn ætla að fá hann og leggja allt kapp á að fá hann framseldan. Það er ekki góðs viti og ekki góð örlög að lenda í klónum á réttarkerfi sem er hlutdrægt þegar það kemur að þessum þætti,“ segir Ögmundur.

Ögmundur mun í dag vera með erindi á ráðstefnu í London um tilraunir stórveldanna til að hefta fjölmiðlaumræðu. Tengist ráðstefnan einnig réttarhöldum yfir Julian Assange en hún ber yfirskriftina „Imperialism on Trial“. Ögmundur kveðst á ráðstefnunni ætla að fjalla um mikilvægi þess að standa vörð um frjálsa fjölmiðla og þar með upplýsingaveitur á við WikiLeaks. Hann bendir á að tvennt þurfi að vera til staðar svo réttarríki geti starfað, annars vegar óhlutdrægt dómskerfi og hins vegar að tryggt sé að upplýsingar um glæpi og misgjörðir komi fram í dagsljósið.

„Þar tel ég að WikiLeaks hafi skipt miklu máli. Það er í þessu samhengi sem ég segi að það sé á ábyrgð allra þeirra sem vilja tryggja lýðræði og opið samfélag og upprætingu glæpa. Líka þeirra glæpa sem framdir eru af stórveldum,“ segir Ögmundur.