Samgöngur Vafalítið hafa margir lesendur tekið eftir því á ferðum sínum um útlönd að í sumum stórborgum hafa rafmagns-hlaupahjól birst upp úr þurru og slegið í gegn sem þægilegur samgöngumáti fyrir styttir ferðir.

Samgöngur

Vafalítið hafa margir lesendur tekið eftir því á ferðum sínum um útlönd að í sumum stórborgum hafa rafmagns-hlaupahjól birst upp úr þurru og slegið í gegn sem þægilegur samgöngumáti fyrir styttir ferðir. Sitt sýnist hverjum um ágæti hlaupahjólanna og veldur það fólki helst ama að notendur eiga það til að skilja hlaupahjólin eftir þannig að þau verða fyrir öðrum vegfarendum og eru til lítillar prýði. Þá finnst ekki öllum gott að nota hlaupahjól, þó það sé rafdrifið og lítil dekk hlaupahjólanna ráða ekki við mikið meira en rennisléttar gangstéttir.

Bird hefur tekið forystuna í rafhlaupahjólabyltingunni og gengur núna skrefi lengra með því að bæta rafmagnshjólum við flotann sinn. Væri raunar nær að kalla Bird Cruiser vespu, því engir eru pedalarnir og gengur farartækið fyrir rafmagninu einu saman.

Hér er komin græja sem leysir ýmis vandamál hlaupahjólsins: Notandinn þarf ekki að standa heldur getur setið, og raunar er pláss fyrir tvo á sessunni. Hjólin eru stór, feit og fjöðruð svo að Cruiser ætti að ráða við grófa möl og dældað malbik.

Hleðslan ku duga allt að 80 km en ekki hefur verið gefið upp hver hámarkshraði Cruiser verður.

ai@mbl.is