Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Nýtt gagnvirt þjónustukort um almenna þjónustu hins opinbera og einkaaðila um land allt var kynnt á blaðamannafundi í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stóðu að kynningunni.

Nýtt gagnvirt þjónustukort um almenna þjónustu hins opinbera og einkaaðila um land allt var kynnt á blaðamannafundi í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stóðu að kynningunni. Katrín sagði kortið munu breyta umræðunni um byggðastefnu. „Þetta er tæki sem vekur umræðu um hvaða þjónusta skuli vera í boði á hverjum stað.“

Markmiðið með kortinu er að auka og bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustu um landið og auka tækifæri til nýsköpunar og frekari stefnumótunar á sviði byggðamála. Upplýsingar um margháttaða þjónustu á vegum ríkisins eru þegar komnar á kortið auk upplýsinga um ýmsa þjónustu á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Til stendur að bæta enn inn upplýsingum og verður það uppfært reglulega. Einnig stendur til að þýða flokkaheiti á kortinu yfir á fleiri tungumál. Þá mun kortið virka í farsímum og á ferðalagi. Gögnin verða opin og fljótlega verður opnuð niðurhalssíða þar sem sækja má gagnasett sem liggja að baki kortinu.