Sækir Aron Pálmarsson sækir að grísku vörninni í leik Íslands og Grikklands í Laugardalshöll í október. Aron verður í eldlínunni í Kozani síðdegis.
Sækir Aron Pálmarsson sækir að grísku vörninni í leik Íslands og Grikklands í Laugardalshöll í október. Aron verður í eldlínunni í Kozani síðdegis. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska landsliðið í handknattleik karla fer langt með að tryggja sér keppnisrétt í lokakeppni Evrópumeistaramótsins á næsta ári takist því að vinna landslið Grikkja í kvöld þegar liðin leiða saman hesta sína í bænum Kozani í norðurhluta Grikklands. Reyndar fylgir sá böggull skammrifi að á sama tíma verður lið Norður-Makedóníu að leggja landslið Tyrkja að velli í Eskisehir í Tyrklandi.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska landsliðið í handknattleik karla fer langt með að tryggja sér keppnisrétt í lokakeppni Evrópumeistaramótsins á næsta ári takist því að vinna landslið Grikkja í kvöld þegar liðin leiða saman hesta sína í bænum Kozani í norðurhluta Grikklands. Reyndar fylgir sá böggull skammrifi að á sama tíma verður lið Norður-Makedóníu að leggja landslið Tyrkja að velli í Eskisehir í Tyrklandi.

Framundan eru tvær síðustu umferðir riðlakeppninnar en auk leiksins í Grikklandi tekur íslenska landsliðið á móti Tyrkjum í Laugardalshöll síðdegis á sunnudaginn.

Vinni Tyrkir lið Norður-Makedóníu í dag og Ísland leggi Grikkland bíður íslenska landsliðsins úrslitaleikur í Laugardalshöll á sunnudaginn.

Fyrir lokaleikina í þriðja riðli undankeppninnar hafa landslið Íslands og Norður-Makedóníu fimm stig hvort. Tyrkir eru stigi á eftir og Grikkir reka lestina með tvö stig og geta vart talist hafa möguleika á blanda sér í baráttuna um sæti í lokakeppni EM sem fram fer í Austurríki, Svíþjóð og Noregi í janúar á næsta ári.

Grikkir sóttu ekki gull í greipar íslenska landsliðsins í fyrri viðureigninni sem fram fór í Laugardalshöll 24. október sl. Íslenska landsliðið vann leikinn með 14 marka mun, 35:21, eftir að hafa farið á kostum í síðari hálfleik. Munurinn að loknum fyrri hálfleik var fjögur mörk, 17:13.

Grikkir virðast harðskeyttari á heimavelli. Þeir gerðu sér lítið fyrir og lögðu granna sína frá Norður-Makedóníu óvænt í Kozani í byrjun vetrar, 28:26. Þeim tókst ekki að fylgja sigrinum eftir í næsta heimaleik. Þá töpuðu Grikkir fyrir Tyrkjum, 26:22. Voru þau úrslit ekki síður óvænt en sigurinn á landsliði Norður-Makedóníu. Þar með dofnaði hressilega yfir möguleikum Grikkja á að blanda sér í baráttuna um sæti í lokakeppni EM en svo langt hefur gríska landsliðið aldrei náð.

Reynslan er Íslandsmegin

Greinilegt var á fyrri leik liðanna í Laugardalshöll í lok október að munurinn er talsverður á liðunum,. Ekki síst eru leikmenn íslenska landsliðsins betur þjálfaðir auk þess sem þeir eru vanari alþjóðlegum handknattleik. Íslenska liðið er reyndara og betur samæft en það gríska sem byggt er upp á leikmönnum með félagsliðum í heimalandinu sem að AEK undanskildu hefur ekki náð teljandi árangri á Evrópumótum félagsliða.

Viðbúið er hinsvegar að Grikkir reyni hvað þeir geta fram eftir leiknum í dag fyrir framan stuðningsmenn sína en heimaleikirnir tveir fram til þessa voru vel sóttir af áhorfendum enda er nokkur áhugi fyrir handknattleik í norðurhluta Grikklands, nærri landamærunum við Norður-Makedóníu.

Skarð er fyrir skildi að Ómar Ingi Magnússon getur ekki tekið þátt í leiknum í kvöld eftir að hafa farið á kostum í dönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni með meistaraliðinu Aalborg Håndbold. Hann glímir enn við afleiðingar höfuðhöggs í kappleik undir lok síðasta mánaðar.

Aðeins ein hefðbundin örvhent skytta er í hópnum, Teitur Örn Einarsson. Hann verður þar af leiðandi ekki leystur af hólmi nema í staðinn komi hægri handar skytta. Af þeim er hinsvegar nóg í hópnum. Markverðirnir ungu, Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson, munu standa vaktina eins í leiknum við Norður-Makedóníu í lok mars. Ágúst Elí kemur til leiks fullur sjálfstrausts eftir að hafa unnið sænska meistaratitilinn fremur óvænt á dögunum.

Uppistaðan í íslenska liðinu eru leikmenn sem lék fyrir Íslands hönd á HM. Reynslan er fyrir hendi.