Verðmat Capacent á Sýn hækkar um 7% frá síðasta verðmati.
Verðmat Capacent á Sýn hækkar um 7% frá síðasta verðmati. — Morgunblaðið/Hari
Verðmat Ráðgjafafyrirtækið Capacent verðmetur fjarskiptafyrirtækið Sýn 51% hærra en markaðsvirði félagsins í nýju verðmati sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum og hækkar það um 7% frá síðasta verðmati í byrjun apríl.

Verðmat Ráðgjafafyrirtækið Capacent verðmetur fjarskiptafyrirtækið Sýn 51% hærra en markaðsvirði félagsins í nýju verðmati sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum og hækkar það um 7% frá síðasta verðmati í byrjun apríl. Verðmatsgengi Capacent nemur nú 51,4 krónum á hlut en dagslokagengi Sýnar við lokun markaða í gær nam 35,92 krónum. Greinandi Capacent telur að stjórnendur Sýnar hafi misreiknað sig og vanmetið samkeppni á afþreyingarmarkaði en samdráttur í tekjum fjölmiðlunar nam rúmlega 1% og rúmlega 2% samdráttur var í tekjum af farsímaþjónustu. „Fyrirtækið virðist ekki hafa verið viðbúið samkeppni um sjónvarpsáskrifendur á síðasta ári, á viðkvæmum tíma í rekstri,“ segir í verðmatinu þar sem einnig kemur fram að tekjur fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi hafi dregist saman og farið úr 5,03 milljörðum í 4,975 milljarða á milli ára.

Í verðmatinu kemur fram að rekstrarhagnaður Sýnar á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 85 milljónum króna samanborið við 211 milljónir króna á sama tíma í fyrra en sé horft framhjá kostnaði vegna starfsloka hefði rekstrarhagnaðurinn orðið 222 milljónir króna. Það sé merki um hægfara bata. Að mati greinanda Capacent virðist sem sameining 365-miðla og Fjarskipta sé að skila kostnaðarhagræði „þótt enn sé óvíst með að það verði jafn mikið og að var stefnt“. Capacent spáir því að hagnaður Sýnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta muni nema 5,9 milljörðum króna og að hagræðingaraðgerðir muni koma inn af fullum krafti árið 2020.

peturh@mbl.is