[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Adams: Short Ride in a Fast Machine. Mozart: Píanókonsert í C-dúr K503. Brahms: Sinfónía nr. 1. Einleikari: Richard Goode píanó. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjóri: Edo de Waart. Fimmtudaginn 6.6. kl. 19:30.

Hinir einu og sönnu „síðustu“ áskriftartónleikar SÍ 2018-19 (sama var fullyrt um næstsíðustu tónleikana 23.5. af vangá sem náðist ekki að leiðrétta) voru sl. þórsdag við örlitlu minni aðsókn.

Stóð hér upp úr ýmsu góðgæti óvenjusamstillt hrynskerpa í strengjum, sem að öðru óbreyttu mátti eflaust þakka heimskunnum stjórnanda kvöldsins er kom nú fram í fyrsta sinn á okkar fjörum. Ekki svo að skilja að annað eins hafi aldrei áður borið fyrir eyru. En undan gestasprota verður þvílík snerpa að teljast næsta fágæt og nægir, auk hvassfryssandi arco-bogastroka í Adams og Brahms, að telja fram smellandi nákvæman pizzicato-plokkstað í lokaverkinu. Og m.a.s. á hraðauknu accelerando . Geri aðrir betur!

Hafi ekki fleiri kringumstæður komið til, hlaut sú snerpa að marka afburðastjórnfærni á einhverjum vægðarlausasta hrynbundna mælikvarða sem völ er á. Auk þess er ég ekki frá því að landlægur misbrestur á klukkutifandi samstillingu 50 bogfimra einstaklinga sé e.t.v. síðasta hindrun SÍ frá því að komast í úrvalshóp sinfóníusveita heimsins.

Forleikur kvöldsins, ef svo mætti kalla, var örstutt stykki frá 1986 eftir yngsta þrenndarforkólf bandaríska naumhyggjumínímalismans. Brast það á með þvílíkum adrenalíndælandi taktföstum tréblakkarskellum að minnti helzt á æsifengna vetrarólympíska sleðaíþrótt á við „luge“ eða „skeleton“, kvikmyndaða feti ofar hjarni á 100 km hraða.

Óneitanlega krassandi andstæða við hið 200 árum eldra næsta verk – einn af síðustu og jafnframt sjaldheyrðustu píanókonsertum Mozarts frá því er hann tók að stækka greinina úr kammerumgjörð í átt að sinfónískari nálgun Beethovens og seinni manna.

Hljómsveitin skilaði sínu vel, en þó varla umfram það bezta sem maður hafði áður heyrt. Né heldur sló túlkun Goodes mann beinlínis út af lagi fyrir virtúósum glæsibrag. Á móti vó víða kankvís og jafnvel gáskafull mótun einleikarans, ekki sízt í frumsömdu kadenzunum, svo og skáldleg mýktin í hæga milliþættinum.

Var honum vel tekið og þakkaði Goode fyrir sig með ókynntu en íhugulu aukalagi er undirr. kannaðist ekki við í svipinn en hljómaði nauðalíkt einhverju eftir Bach.

„10. sinfónía Beethovens“, eins og tónleikaskrárritari hafði eftir Hans von Bülow um sinfóníska frumraun Brahms (1862-76), fór síðan á loft eftir hlé með ótíndum glæsibrag.

Sem fyrr sagði var sérleg nautn að nærri húðlátri einurð strengjasveitar, er hljómaði aldrei þessu vant líkt og hún væri þriðjungi fjölmennari. En blástur á tré og pjátur var engu síðri; innblásinn lífróður er hlaut að hefja tónverk þessa e.t.v. sjálfsgagnrýnasta tónsmiðs síðrómantíkur í æðra veldi með einhverjum magnaðasta flutningi sem ég man eftir í áraraðir. Var m.a.s. ekki laust við að mætti skynja e.k. innra ástar/haturssamband Brahms við Wagner þegar hornin komust í Rínarrómantískan ham lokaþáttar – ef ekki náttúruskyldleika við síðar tilkomna Nýjaheimssinfóníu Dvoráks!

Sem sagt: Feikifínn fínall á áskriftartónleikum vetrarins.

Ríkarður Ö. Pálsson