[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Framkvæmdastjórum verður fækkað um nær helming og sviðsskrifstofum úr níu í tvær til þrjár til þess að ná samlegð,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Framkvæmdastjórum verður fækkað um nær helming og sviðsskrifstofum úr níu í tvær til þrjár til þess að ná samlegð,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is í gærkvöldi um þær skiplagsbreytingar sem kynntar voru eftir fund stjórnenda spítalans og fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins sama kvöld.

Páll segir skipulagsbreytingarnar vissulega gerðar í skugga rekstrarhalla Landspítalans, en þær séu þó ekki gerðar vegna hans. Skipulagsbreytingar muni hins vegar hjálpa til með rekstur.

Meðal breytinga er að byggður verður kjarni í kringum tvo mikilvæga sjúkdómaflokka, hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein. Uppbygging kjarnans verður í samræmi við heilbrigðisstefnu en fimm ár eru þar til meðferðarkjarni spítalans verður tekinn í notkun og það þarfnast undirbúnings.

Páll segir að með breytingunum sé verið að efla klíníska þjónustu. Með breytingum á skipulagi og vinnufyrirkomulagi sé hægt að draga úr sóun og spara fjármuni.

Aukin afköst auka tekjur

Forstjóri Landspítalans gat ekki svarað því hvort von væri á frekari fækkun stöðugilda á Landspítala þegar hann var inntur eftir því í gærkvöldi. Þá gat hann heldur ekki svarað hvernig rekstrarhalli Landspítala yrði leystur, en viðræður standa yfir við stjórnvöld um ýmsa þætti því tengda.

Páll segir að í hálfsársuppgjöri Landspítalans þurfi m.a. að telja ýmsa bókhaldsþætti til halla sem muni skila sér til baka síðar á árinu. Þar að auki sé hluti fjármögnunar spítalans breytilegur og tengdur afköstum. Búast megi við að vegna aukinna afkasta fái spítalinn meira fé að hluta til.

Markmið skipulagsbreytinganna og forgangsatriði er að sögn Páls að verja þjónustustig spítalans. Það komi í ljós síðar með hvaða hætti reynt verði að hagræða á Landspítalanum.

Páll segir aðspurður hvort grípa hefði þurft til aðgerða strax að loknu þriggja mánaða uppgjöri, að þegar hafi verið gripið til ýmissa aðgerða, stigið á bremsuna og að verkefni sem voru í bígerð hafi verið stöðvuð. Á þessu stigi liggi ekki alveg ljóst fyrir hvaða áhrif aðgerðirnar hafi. Páll segir markmiðið að rekstur spítalans verði sjálfbær en hvort það takist á þessu ári þori hann ekki að spá um.